29. júl. 2005

Vindgangur er vandamál í Kaliforníu


Íbúar Kaliforníu hafa af illri nauðsyn tekið forystu í umhverfismálum í Bandaríkjunum og nú er röðin komin að kúabændum í fylkinu. Það gæti kostað þá skildinginn ef það kemur í ljós að kýrnar þeirra, um þrjár milljónir, leysi vind umfram það sem gert er ráð fyrir í reglugerðum. Flest kúabúin eru staðsett í Miðdal (Central Valley) en þar mun loftmengun vera einna mest í fylkinu. Hversu mikla ábyrgð kýrnar bera á henni með útblæstri metangass er ekki vitað og þess vegna standa nú yfir rannsóknir á vindganginum. Enda löngu kominn tími á slíka rannsókn þar sem nú er stuðst við rannsókn á vindgangi frá 1938. Rannsóknin verður líklega framkvæmd þannig að kúm verði komið fyrir í loftþéttu rými þar sem tölvur greina lofttegundirnar sem berast frá þeim.
Búist er við því að niðurstöðurnar verði til þess að kúabændur þurfi að efla mengunarvarnir á búum sínum.