30. júl. 2005

Kalli prins er grænmeti mánaðarins


Grænmeti júlímánaðar er Karl Bretaprins. A myndinni sést þar sem fréttaritari Grænmetis í Sri Lanka afhendir Karli viðurkenningu fyrir störf í þágu umhverfisverndar.
Nú hefur breska konungsfjölskyldan fengið leyfi til að reisa vatnsaflsvirkjun í ánni Thames. Raforkan sem skapast verður notuð í Windsor kastala. En þrátt fyrir að verða stærsta vatnaflsvirkjun í Suður-Englandi þá afkastar hún ekki nema þriðjungi þeirrar orku sem notuð er í kastalanum. En framtakið er til fyrirmyndar. Þess má líka geta að græningjarnir í konungsfjölskyldunni nota sparneytnar ljósaperur í kastalana og endurnýta 99% lífræns úrgangs sem til fellur.
Karl er sem kunnugt er mikill blómamaður og hann hefur viðurkennt að tala við blómin sín. Það er til fyrirmyndar að mati ritstjórnar Grænmetis að ná slíku sambandi við náttúruna. En þegar þetta fréttist á sínum tíma þá náðu margir ekki upp í nef sér af hneykslan og hann sagður genginn af göflunum? En hversu margir tala við tölvuna sína og sjá ekkert að því og hversu margir gáfu börnum sínum tölvugæludýr þegar þau voru í tísku? Ég viðurkenni fúslega að eiga í vinasambandi við tvær af þremur pottaplöntum í minni eigu en við kaktusinn höfum ekki enn átt samskipti á vinsamlegum nótum.
Þá var Karl með þeim fyrstu sem vöktu athygli á gróðurhúsaáhrifum. Strax á 8. áratugnum var hann búinn að átta sig á þessum aðsteðjandi vanda og hefur síðan þá skrifað ótal greina um umhverfismál á Vesturlöndum og í þróunarríkjunum. Á ráðstefnu árið 1993 um öryggismál í heiminum sagði Karl að heiminum stafaði meiri hætta af hlýnun loftslags en Saddam Hussein í Írak. Það væri hins vegar mun auðveldara að mála skrattann á vegginn í tilfelli Husseins og fá almenning til að styðja aðgerðir gegn honum en í tilfelli gróðurhúsaáhrifa. Þau væru vandamál án óvinar og þess vegna væri aðgerða af hálfu vestrænna þjóða ekki að vænta. Þá lagði hann einnig áherslu á hversu mikilvægt það væri að tryggja fólki í fátækari ríkjum heims aðgang að hreinu vatni.
Karl var síðan uppnefndur sérvitringur þegar hann fór einna fyrstur að mótmæla erfðabreytingu matvæla. Þessi málstaður hefur síðan þá orðið gríðarlega vinsæll í Bretlandi og markaður fyrir lífrænt ræktaðar matvörur fer ört vaxandi.
En það má ekki gleyma því sem máli skiptir: Karl var víst ekkert sérstaklega góður við hana Díönu sína. Til að halda íslenskum sérfræðingum sem fjalla um bresku konungsfjölskylduna góðum þá skulum við dæma manninn eftir því.