5. jún. 2005

Mótmæli í Kína vegna mengunar

Súrt regn og mengun í ám og vötnum fylgja örum efnahagsvexti í Kína. Það bjóst reyndar enginn við öðru en það sem kemur á óvart er að þessar upplýsingar koma fram í skýrslu sem einræðisstjórnin birti sjálf fyrir helgi.
Loftmengun er gríðarleg í stórborgum Kína og þar fellur súrt regn til jarðar vegna mengunar frá kolaraforkuverum. Talið er að íbúar 218 borga lifi við þetta ástand. Þetta minnir margt á upphaf iðnbyltingarinnar á Vesturlöndum.
Tilraunir hins opinbera til að draga úr mengun hafa reynst árangurslitlar. Mengaður afli, uppskera og drykkjarvatn eru eitthvað farin að pirra Kínverjana og þess vegna hefur kommúnistastjórnin orðið að grípa til öryggissveita upp á síðkastið til að berja á mótmælendum sem sætta sig ekki við ástand umhverfisins. Síðast í apríl særðist fjöldi fólks í átökum við lögreglu eftir að hafa lagt undir sig eina fabríkuna sem það taldi vera upptök mengunar í vatni sem eyðilagði uppskeru á svæðinu.
En vegna þess hve hagkerfið vex hratt þá treysta einræðisherrarnir sér ekki til þess að loka mengandi kolaraforkuverum. Notast verður við alla þá raforku sem býðst, hversu óhrein sem hún er. Svo bíða kjarnorkuveravæðing handan við hornið. Bretar, Bandaríkjamenn og Kínverjar hafa lýst yfir áhuga á að fjölga kjarnorkuverum og telja það einu leiðina til að draga úr losun gróðurhúsaáhrifa. En þá sitjum við uppi með gríðarlegt magn geislavirks úrgangs. Það yrði svona eins og dópisti sem reynir að losa sig undan kókaínfíkn með því hefja neyslu heróíns.

Læt fylgja með slóð þar sem aðeins er fjallað kosti þess og galla að fjölga kjarnorkuverum:
http://www.grist.org/advice/ask/2005/04/07/umbra-nuclear/index.html