26. maí 2005

Olía og mannlegar hörmungar í Súdan

Olía er lykilorð í alþjóðastjórnmálum, ekki bara vegna hlýnunar loftslags og stríðsins í Írak og Mið-Austurlöndum. Nú bíður Súdana líklega enn frekari hungursneyð þar sem auðugar þjóðir standa ekki við loforð um matvælasendingar. Samkvæmt fréttum RÚV hafa ungar mæður ekki önnur úrræði til að fæða börn sín heldur en að gefa þeim lauf af trjám! Svo er óttast að uppskera verði engin vegna borgarastríðsins sem hefur þegar dregið tugi þúsunda til dauða og gert milljónir heimilislausar. Hungursneyðin á því eftir að versna.
Eins og í Írak er það olía sem heldur átökunum gangandi. Hún kemur í veg fyrir að stórveldin þrýsti á herská stjórnvöld og gróðinn af súdönskum olíulindum er notaður til vopnakaupa. Talið er að einn milljarður punda hafi streymt í súdanska ríkiskassann á liðnu ári vegna olíuvinnslu og ekki minna stórveldi en Kína er orðið helsti bandamaður þessara vígamanna. Líkur sækir líkan heim. Kínverjar komu t.d. í veg fyrir að öryggisráð SÞ beitti Súdanstjórn viðskiptaþvingunum.
Kínverjar hafa þegar fjárfest fyrir 8 milljarða punda í olíuiðnaðinum í Súdan og þeir flykkjast til landsins til að byggja upp nauðsynleg mannvirki. 10.000 þeirra lögðu olíuleiðslu að Rauðahafi, þaðan sem olían verður flutt til Kína. Nú er svo komið að 7% af olíuinnflutningi Kínverja kemur frá Súdan.
Barátta milli Bandaríkjanna og Kína um olíulindir er orðið meginþema átaka í alþjóðastjórnmálum. Kínverjar höfðu gert samninga við Íraka skömmu áður en Bandaríkjamenn réðust inn í landið og Kínverjar eiga líka í góðum samskiptum við Írana. Hvað gerist þá? Bandaríkjastjórn hættir andstöðu sinni gegn því að ,,öxulveldi hins illa" verði tekið inn í WTO. Tilviljun?
Miðað við allt þetta er ljóst að losa þarf heimsbyggðina undan olíuþörfinni. Ekki aðeins vegna mengunar, heldur líka til að draga úr mannlegum hörmungum sem fylgja olíustríðum.