24. feb. 2005

Er Davíð græningi?

Utanríkisráðuneytið efnir til ráðstefnu á morgun um áhrif loftslagsbreytinga. Þar verður m.a. fjallað um áhrif breytts náttúrufars á auðlindir hafsins. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir: ,,Hlýnun sjávar hefur þegar haft áhrif á vöxt og dreifingu fiskistofna við Ísland og verður reynt að varpa ljósi á þróunina næstu ár og áratugi. ... Orkumálin fá sérstaka athygli á ráðstefnunni og verður m.a. fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á orkugjafa, til að mynda hvernig vetni gæti gengt hlutverki við að auka hlut endurnýjanlegrar orkulinda."
Þessi ráðstefna er rós í hnappagat Davíðs Oddssonar. Nú þegar hann er búinn að viðurkenna vandann hlýtur hann að hafa áhrif á boðaða stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Halldór Ásgrímsson hefur nýlega boðað úr ræðustól á Alþingi að ríkisstjórnin ætli að sækjast eftir frekari undanþágum í næsta Kyoto sáttmála sem tekur gildi 2012. Enda er vaxandi þungaiðnaður burðarásinn í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar.
Kannski er Davíð að móta nýja umhverfisvænni stefnu. Svo gæti líka verið, og það er kannski líklegra, að embættismenn innan utanríkisráðuneytisins hafi skipulagt ráðstefnuna án mikillar aðkomu ráðherrans.