23. maí 2002

Fyrirtækja-frjálshyggja og neytenda-frjálshyggja

Í dag birtist söguleg skoðanakönnun. Samfylkingin í Hafnarfirði fékk stuðning 50% svarenda í könnun Gallup en Sjálfstæðisflokkurinn 42%, Framsóknarflokkurinn 5% og VG 3%. Þetta eru tölur sem landsmenn eru óvanir að sjá og þær minna frekar á úrslit tveggja flokka kosningakerfis en fjölflokkakerfis.

Stjórnmálin í Hafnarfirði eru líka óvenju skýr. Sjálfstæðisflokkurinn, sem fer með meirihluta í bænum ásamt Framsóknarflokki, hefur stundað nakta frjálshyggju þar sem grundvallabreytingar hafa verið gerðar á grunnskólum bæjarins. Kennsla í einum hverfaskóla var boðin út á opnum markaði og skólahúsnæði er byggt af einkaaðilum sem síðan leigja það til bæjarins. Allt er þetta gert í nafni hagræðingar og samkeppni.

Nú hef ég lítið á móti samkeppni og fylli væntanlega flokk þeirra manna sem stundum eru nefndir hægri kratar. Samkeppni og frjáls markaður er í mínum huga rótin að blómlegu og líflegu samfélagi. Gallinn við frjálsan markað sjálfstæðismanna í Hafnarfirði er hversu ófrjáls og óhagkvæmur hann er í raunveruleikanum. Skulu hér nefnd tvö dæmi þessu til sönnunar.

Kennsla í Áslandsskóla var boðin út til einkaaðila fyrir síðasta skólaár. Niðurstaða útboðsins varð sú að Íslensku menntasamtökin sáu ein ástæðu til að bjóða í rekstur kennslunnar – slík virtist þörfin á hinum frjálsa markaði fyrir því að reka hverfaskóla. Tilboðið var líka þannig að samtökin gátu ekki staðið við skilyrði í útboðsskilmálum um fjárhagslegar tryggingar til bæjarins. Í stað þess að viðurkenna að útboðið hefði mistekist ákvað Sjálfstæðisflokkurinn að falla frá skilmálunum sem settir voru í útboðinu svo hægt væri að ganga að tilboðinu. Tilgangurinn helgar meðalið. Aðrir aðilar sem höfðu haft áhuga á að bjóða í kennsluna en hrukku frá vegna þeirra skilyrða sem sett voru urðu að sætta sig við það að eini aðilinn sem gerðist svo djarfur að leggja inn tilboð án þess að uppfylla skilyrðin fékk samninginn. Þetta er eins og að ég myndi sækja um framhaldsnám við Háskóla Íslands þar sem lágmarksárangur fyrra náms væri 9,0. Ég væri með 6,5 en legði nú inn umsókn bara upp á grín. Aðrir háskólanemar hefðu einkunn allt upp í 8,9 en litu svo á að þeir uppfylltu ekki hæfniskröfur og þess vegna sæktu þeir ekki um námið. Ef yfirvöld háskólans tækju þá ákvörðun að taka mig inn í framhaldsnámið á þeim grundvelli að ég væri sá eini sem hefði lagt inn umsókn væru þau að sjálfsögðu að brjóta alvarlega á rétti þeirra sem hurfu frá umsókn vegna skilyrða. Þetta er sambærilegt dæmi við útboðið á kennsluþætti Áslandsskóla. Reglur eru látnar víkja til að einkavæðingin nái fram að ganga - tilgangurinn helgar meðalið. Þetta er grundvallarmunur á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Samfylkingin vill samkeppni neytandans vegna en Sjálfstæðisflokkurinn vill einkavæðingu einkavæðingarinnar vegna.

Síðara dæmið er bygging nýs Lækjarskóla. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að bjóða byggingu hans út í einkaframkvæmd. Hagræðing er þá lykilorðið. Einkaaðilar sjá um að reisa skólann, reka hann og viðhalda en bærinn skuldbindur sig til að leigja bygginguna í 25 ár. Hvað er gert við bygginguna að þeim tíma loknum er undir einkaaðilum komið – óneitanlega góð samningastaða að eiga einu grunnskólabygginguna í grónu hverfi – en það verður ekki gert að umræðuefni hér. Orðið hagræðing er athyglisvert í þessu tilliti. Maður myndi ætla að grunnskóli í einkaframkvæmd væri byggður á ódýran hátt – það er jú markmið bæjarins að spara peninga, annars væri tilstandið allt hálf tilgangslaust. Nýr Lækjarskóli, reistur í einkafrakvæmd kostar engu að síður um tvo milljarða króna. Hann er því dýrasti grunnskóli sem byggður hefur verið í Hafnarfirði, þótt víðar væri leitað. Einkaframkvæmdarleið kemur ekki í veg fyrir að hönnunarsamkeppni kosti um 10 milljónir, hönnunarvinna um 108 milljónir, gatnagerð um 230 milljónir og húsakaup um 30 milljónir. Bæjarbúar borga því milli 300 og 400 milljónir fyrir undirbúning að einkaframkvæmd sem einkaaðilar munu að sjálfsögðu njóta hagnaðar af í framtíðinni. Það er því ekki verið að hagræða fyrir skattgreiðendur, hagræðingin nær einungis í pyngju fyrirtækjanna.

Sjálfur hef ég ekki trú á að kjósendur í Hafnarfirði séu á móti frjálsri samkeppni og hagræðingu í opinberum rekstri, en þeir eru á móti því að samkeppni sé einungis stunduð samkeppninnar vegna og fyrirtækjanna vegna. Neytendur, það er skattgreiðendur, verða líka að njóta hagnaðarins og hagræðingarinnar. Það skilja kjósendur í Hafnarfirði og þess vegna yfirgefa þeir nakta fyrirtækja-frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins og leita í hlýjan faðm neytenda-frjálshyggju Samfylkingarinnar.