9. feb. 2021

Óspilltu fljóti fórnað fyrir 0,3% meiri raforku

Búið er að virkja meginfarveg fjögurra af tíu stærstu vatnasviða landsins, þ.e. Þjórsár, Blöndu, Jökulsár á Dal og Lagarfljóts. Orkufyrirtæki hafa sóst eftir því að virkja fjórar af þessum ám til viðbótar; Hvítá í Árnessýslu, Héraðsvötn, Kúðafljót og Skjálfandafljót, þannig að einungis tvær af tíu stærstu ám landsins fengju að renna óhindrað frá jökli til sjávar; Hvítá í Borgarfirði og Jökulsá á Fjöllum. Það mætti þess vegna halda því fram að á Íslandi séu stór óvirkjuð jökulfljót í útrýmingarhættu.

Nú er Skjálfandafljóti við það að verða spillt ef sveitarstjórn Þingeyjarsveitar veitir leyfi til þess. Til stendur að færa fljótið í verndarflokk rammaáætlunar samkvæmt þeirri tillögu sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi, enda er fljótið metið með þriðja mesta náttúruverndargildið af öllum þeim svæðum sem voru til umfjöllunar rammaáætlunar. Það stefndi því allt í að Skjálfandafljóti yrði þyrmt. En þá gerðist hið óvænta að fyrirtækið Einbúavirkjun ehf. sótti um að reisa virkjun í fljótinu miðju, virkjun sem ekki er fjallað um í rammaáætlun vegna þess að hún er sögð vera 9,8 MW, 0,2MW undir því 10 MW marki sem telst lágmarks stærð virkjunar til að hún sé tekin til umfjöllunar í rammaáætlun.

Fyrir utan mikið rask á nútíma eldhrauni þar sem virkjunin á að rísa í Bárðardal og neikvæð áhrif á dýralíf, þá mun virkjunin raska fyrir fullt og allt því jarðfræðilega ferli sem býr í fljóti sem þessu. Eins og segir í umsögn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga þá mun virkjunin færa stóran hluta rennslis fljótsins úr farvegi þess á 2,6 km kafla og mun farvegurinn standa nær vatnslaus þegar minnst rennsli er í ánni að vetri og „þannig mun virkjunin hafa áhrif á þá náttúrulegu ferla sem mótað hafa t.d. Goðafoss“. Náttúruverndarnefndin telur að virkjunin muni hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif á fljótið og hraunin sem „mynda órofa vist- og jarðfræðilega heild“. Umhverfisstofnun bendir síðan á að stífla virkjunarinnar muni draga úr aurburði fljótsins og því muni virkjunin líklega hafa áhrif á fljótið allt til sjávar.

Hér á landi eru nú framleiddar 19.500 gígavattsstundir af rafmagni. Það gerir okkur að heimsmeisturum í raforkuframleiðslu með meira en tvöfalt meiri raforku á hvern einstakling en sú þjóð sem er í öðru sæti á heimslistanum. Að auki má ætla að við framleiðum nú um stundir talsvert meira af raforku en við höfum not fyrir vegna lokunar og framleiðsluminnkunar stóriðjufyrirtækja. Hér er því engin þörf fyrir aukna raforkuframleiðslu. Það blasir því við hversu fráleit sú hugmynd er að fórna óspilltu fljóti og rjúfa náttúrulega ferla sem eru mældir á jarðfræðilegum tímaskala, til þess eins að auka raforkuframleiðslu hér á landi um 69 gígavattsstundir, eða um 0,3%. Það getur enginn með góðri samvisku lagt þetta tvennt á vogarskálarnar og komist að þeirri niðurstöðu að Einbúavirkjun fái að rísa.

Með þessum orðum skora ég sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að hafna tillögum um Einbúavirkjun og vernda Skjálfandafljót um ókomna tíð.