5. jún. 2020

Öll þjóðfélög á öllum tímum hafa notað vímuefni

Hlaðvarpið að þessu sinni er viðtal sem ég átti við Þorstein Úlfar Björnsson, en hann hefur skrifað bækur um sögu vímuefnanotkunar og það sem hann kallar fáránleika fíknistríðsins. Þá hefur hann nýverið birt nokkrar greinar um sama efni á Kjarnanum. Við settumst niður og ræddum um frjálslyndari viðhorf til kannabisneyslu, aukinn skilning á læknandi áhrifum hugvíkkandi efna og cbd-olíu, áhrif nýrra laga um neyslurými og reynslu Þorsteins af neyslu sveppa sem hann segir að hafi hjálpað sér að vinna úr erfiðum tilfinningum.

Ég vil árétta að þó að við ræðum vímuefni á hlutlausum, stundum jákvæðum nótum, þá er það alls ekki ætlun mín að hvetja til neyslu slíkra efna. Sjálfur er ég sannfærður um að vímuefnaneysla geti varla verið mannbætandi, en að sama skapi þykist ég vita að það verði aldrei komið í veg fyrir að mannskepnan leitist eftir því að komast í vímuástand til afslöppunar eða gleðiauka, til að fylla upp í tómleikatilfinningu, fá frí frá erfiðum minningum eða tilfinningum, nú eða bara til að svala forvitni. Sagan ætti að hafa kennt okkur það um mannlegt eðli. Þá hefur orðið mikil breyting á viðhorfum vísindasamfélagsins til vímuefnaneyslu í lækningaskini, marijuana nýtist t.d. til að draga úr verkjum og ógleði meðal krabbameinssjúkra og hugvíkkandi efni eins og LSD virðast geta, í litlum skömmtum, haft jákvæð áhrif á þá sem glíma við þunglyndi og kvíða. Það er þess vegna að mínu mati skaðleg einföldun að draga upp svarthvíta mynd af vímuefnum og glæpavæða sum þeirra og neytendur þeirra. Það hlýtur að vera að betra að nálgast þessa umræðu á raunsærri, heiðarlegri og mannúðlegri hátt.