5. des. 2019

Sjávarútvegsráðherra er vanhæfur

Tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar við eigendur Samherja eru svo mikil að þegar hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra sagðist hann sjálfur ætla að „meta hæfi sitt“ þegar mál sem tengdust Samherja kæmu til umfjöllunar í ráðuneytinu. Síðan eru liðin tvö ár – hálft kjörtímabil – og skiptin sem hann hefur metið sig vanhæfan eru engin. Maðurinn sem hefur þegið fé og ýmsar sporslur frá Samherja og er í fallegu vinasambandi við forstjóra félagsins hefur aldrei – ekki einu sinni - séð ástæðu til að efast um eigið hæfi til að fjalla um málefni fyrirtækisins.

Samt hafa næg tilefni verið til. Sjávarútvegsráðherrann hefur til að mynda lagt fram á Alþingi og fengið samþykkt umdeilt lagafrumvarp um kvótasetningu makríls sem færði Samherja gríðarleg verðmæti. Hann taldi sig ekki vanhæfan til þess. Ráðherrann hefur síðan stuðlað að framkvæmd laganna með þeim hætti að verðmæti Samherja hafa aukist enn frekar. Hann taldi sig ekki vanhæfan til þess. Það er síðan sérstök ákvörðun að aðhafast ekki í einstaka málum sem tengjast Samherja beint. Til að mynda hefur sjávarútvegsráðherra ekki brugðist við endurteknum ábendingum Fiskistofu um galla í reglum um vigtun afla, reglum sem hafa mikil áhrif á afkomu Samherja. Hann hefur heldur ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum um galla í lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir að of miklar fiskveiðiheimildir safnist á sömu hendur, ákvæði sem hefur mikil áhrif á rekstur og arðsemi Samherja. Sjávarútvegsráðherra telur sig líklega vel hæfan til að svæfa þessi mál í ráðuneytinu.

Forsætisráðherra hefur varið stöðu sjávarútvegsráðherra og segir að hann njóti síns stuðnings þar til að hann verði beinlínis uppvís að lögbrotum. Að baki þessu viðhorfi er ísköld lagahyggja en ekkert pólitískt siðferði. Reyndar má halda því fram að þessi afstaða standist ekki einu sinni góða stjórnsýsluhætti, enda segir í 3. gr. stjórnsýslulaga að ráðherra kunni að vera vanhæfur „ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“ Sjávarútvegsráðherra hefur allan sinn stjórnmálaferil verið bendlaður við pólitískar ákvarðanir sem tengjast vexti og viðgangi Samherja, fyrst í tengslum við sölu á Söltunarfélagi Dalvíkur árið 1990 þegar hann var bæjarstjóri þar og síðar þegar Samherji hafði stærsta togara landsins af Ísfirðingum þegar sjávarútvegsráðherra var samtímis bæjarstjóri á Ísafirði og stjórnarformaður Samherja. Það er því alveg óhætt að álykta sem svo að fyrir hendi séu aðstæður til að draga óhlutdrægni sjávarútvegsráðherra í efa og þar af leiðandi ákvarðanir hans um eigið hæfi í ráðuneytinu.

Á undanförnum árum hafa staðið yfir meiriháttar átök um makrílkvóta Íslendinga og milljarða verðmætin sem honum fylgja. Stóru útgerðarfélögin töldu að þau hefðu ekki fengið allan þann kvóta sem þeim bar samkvæmt lögum og stefndu ríkinu til að fá skaðabótaskyldu sína staðfesta. Hæstiréttur dæmdi fyrirtækjunum í vil í desember í fyrra og nú undirbúa þau skaðabótakröfur sínar upp á milljarða, kannski tugi milljarða, vegna þessa. Samkvæmt áliti Umboðsmanns Alþingis þá kemur það í hlut sjávarútvegsráðherra að ákveða hvort bótaskyldan verði viðurkennd eða þá hvort og hvernig henni verði andmælt. Hvernig eiga skattgreiðendur að treysta sjávarútvegsráðherra til þess að gæta sinna hagsmuna í þessu máli þegar hann hefur allan sinn stjórnmálaferil verið flæktur í hagsmunagæslu fyrir Samherja? Eitt er allavega víst að hann mun meta sjálfan sig vel hæfan til að taka þessa ákvörðun. Það er því í okkar höndum að verja þessa sameiginlegu hagsmuni okkar með því að krefjast afsagnar sjávarútvegsráðherra á kröfufundi á Austurvelli laugardaginn 7. desember kl. 14. Sjáumst þar.