17. okt. 2019

Virkjanaframkvæmdir í hálendisþjóðgarði

Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd þingmanna og sveitarstjórnarmanna sem á að gera tillögu að stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Nefndin hefur nú birt áherslur sínar til umsagnar og fjallar þar m.a. um virkjanamál innan garðsins. Af þeim má ætla að þjóðgarðurinn muni ekki hafa í för með sér neina aukna vernd náttúrusvæða fyrir orkuöflun. Þannig segir á einum stað að hægt verði að „viðhalda og þróa núverandi orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs“ og að „málefni orkunýtingar í þjóðgarðinum kallist á við áætlanir Alþingis um orkunýtingu og orkudreifingu og tekið verði tillit til þeirra í frumvarpinu“. 

Ljóst er að þetta orðalag mun bjóða upp á áframhaldandi deilur um núverandi orkuvinnslusvæði innan væntanlegra marka þjóðgarðsins, t.d. í Þjórsárverum þar sem Landsvirkjun hefur enn upp áætlanir um veituframkvæmd í tengslum við aðrar virkjanir í Þjórsá, nú undir nafni Kjalölduveitu. Eins mun þetta orðalag hafa þau áhrif að áfram verður hægt að reisa nýjar virkjanir innan þjóðgarðsins, fái þær samþykki Alþingis samkvæmt Rammaáætlun. Þar má m.a. nefna Hágönguvirkjun og Skrokkölduvirkjun á miðju hálendinu sem myndu skerða verðmæta náttúru og hálendisvíðerni. Að minnsta kosti sjö aðrar virkjanir eru nú í biðflokki Rammaáætlunar sem gætu fallið innan marka hálendisþjóðgarðs. 

Í skýrslu frá 2013 um óbyggð víðerni í Evrópu sem nefnist Wilderness register and indicator for Europe kemur fram að stór hluti villtustu víðerna Evrópu sé á Íslandi, eða 42% samkvæmt niðurstöðu eins skýrsluhöfundar. Víðerni á hálendi Íslands eru því meðal síðustu stóru víðerna Evrópu og mikilvægt er að fjalla um hálendið í því ljósi. Verulega hefur gengið á þessi víðerni á síðustu árum og áratugum, ekki síst með stórum virkjanaframkvæmdum eins og byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Samkvæmt einni rannsókn minnkuðu víðernin um 68% á tímabilinu 1936 til 2010. Það er mikilvægt að stöðva þessa þróun og það hlýtur að vera meðal markmiða stjórnvalda með stofnun sérstaks hálendisþjóðgarðs. Ef ætlunin er ekki að veita hálendisvíðernum og íslenskri náttúru vernd fyrir stórfelldum virkjanaframkvæmdum þá er óhætt að álykta sem svo að vinna að stofnun þjóðgarðsins sé tilefnislaus eyðsla á almannafé og vinnutíma þingmanna og opinberra starfsmanna.