12. sep. 2019

Vegtollar, einkavæðing og lýðræðislegt umboð

Nýverið birti YouGov áhugaverða niðurstöðu könnunar á viðhorfi breskra kjósenda og þingmanna til þess hvort þingmenn ættu að framfylgja eigin vilja eða kjósenda sinna. Hundrað þingmenn voru spurðir og af þeim sögðust 80 fylgja eigin dómgreind, jafnvel þó að það gangi gegn vilja kjósenda þeirra. Einungis þrettán þingmenn voru á öndverðum meiði. Það kemur kannski ekki á óvart að kjósendur tóku annan pól í hæðina og sögðust 63% þeirra að þingmenn væru kosnir til að fylgja vilja kjósenda en 7% töldu að þingmenn ættu að láta eigin dómgreind ráða.

Þessi niðurstaða endurspeglar líklega það sem kalla mætti umboðsvanda fulltrúalýðræðisins. Almenningur hefur ekki lengur trú á að stjórnmálamenn gæti hagsmuna hans á þingi eða taki mark á skoðunum kjósenda að kosningum loknum. Við þekkjum mörg dæmi úr íslenskum stjórnmálum sem benda til þess að þetta sé raunverulegur vandi. Til að mynda hefur ríkisstjórnin nú boðað nýjan skatt á akandi vegfarendur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og hringveginum, þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til að meirihluti almennings sé andsnúinn slíkum gjöldum og að enginn flokkur hafi talað fyrir þeim fyrir síðustu kosningar, heldur þvert á móti. Formaður Framsóknarflokksins andmælti slíkum hugmyndum í stjórnarandstöðu og sagði að uppbygging vegakerfisins ætti að greiða úr ríkissjóði. Formaður Vinstri-grænna og leiðtogi þeirrar ríkisstjórnar sem nú ætlar að leggja á vegatolla sagði á landsfundi flokksins skömmu fyrir Alþingiskosningar 2017: „Er það ekki Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og fylgitungl hans sem boða nú veggjöld í massa­vís? … Við munum ekki hækka skatta á almenn­ing í land­inu.“

Því miður virðast lýðræðismál heldur hafa þróast á verri veg hér á landi að undanförnu, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað og ákall almennings um aukið beint vald í kjölfar hrunsins. Ríkisstjórnin boðaði t.d. engar raunverulegar lýðræðisumbætur í stjórnarsáttmálanum og hefur nú gefið upp á bátinn tillöguna um að kjósendur geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þrátt fyrir að 73% kjósenda hafi greitt henni atkvæði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Engar hugmyndir virðast uppi um að minnihluti Alþingismanna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildustu mál og á Bessastöðum er ekki lengur til staðar „öryggishemill“ fyrir almenning að grípa í þegar gjá hefur myndast milli þings og þjóðar. Kjósendur eru því varnarlausari gagnvart gerræðislegu meirihlutaræði Alþingis í dag en þeir voru fyrir tíu árum. Það er sérkennileg niðurstaða þeirrar gerjunar sem átti sér stað í kjölfar hrunsins, m.a. með endurteknum þjóðaratkvæðagreiðslum, kosningum og stjórnarskrárvinnu.

Nú er deilt hart um það í Frakklandi hvort einkavæða eigi flugvelli og fyrirtæki í eigu frönsku þjóðarinnar, þ.á.m. Charles de Gaulle í París. Í sumar tóku stjórnmálamenn á sitthvorum enda pólitíska litrófsins saman höndum og hófu undirskriftasöfnun til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einkavæðingaráform ríkisstjórnar Macron. Til þess beittu þeir í fyrsta skipti lögum sem sett voru árið 2008 og gera ráð fyrir að hægt sé að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum 10% kjósenda (reyndar er sá þröskuldur of hár að mínu mati). Hér á landi stendur til að hefja einkavæðingu á Íslandsbanka og Landsbanka, m.a. undir stjórn þeirra sem léku stórt hlutverk í bankahruninu fyrir áratug. Í könnun Fréttablaðsins sögðust 60% landsmanna vilja óbreytt eignarhald ríkisins á bönkunum eða þá að það verði aukið, en einungis 40% vilja feta þá slóð sem ríkisstjórnin boðar. Í könnun sem Gallup gerði fyrir fjármálaráðuneytið sögðust 61% jákvæð fyrir eignarhaldi ríkisins í bönkunum en einungis 14% sögðust neikvæð. En íslenskir kjósendur hafa engin lýðræðisleg ráð til að hafa áhrif á eða stöðva fyrirhugaða einkavæðingu, önnur en 18. aldar aðferðir mótmæla og bænaskráa. Ef þingmenn sýndu kjósendum traust með því að færa þeim aukin völd og áhrif, umfram þennan eina kross á fjögurra ára fresti, þá væri aldrei að vita nema traust kjósenda á Alþingi færi aftur vaxandi. Traust er nefnilega þess eðlis að það þarf að vera gagnkvæmt.