8. júl. 2019

Brenndir lífeyrissjóðir stökkva á eldinn

Við sem greiðum stóran hluta launa okkar í lífeyrissjóði gerum eflaust flest þá eðlilegu kröfu til stjórnenda þeirra að þeir vandi sig við fjárfestingar, séu frekar íhaldssamir en ævintýragjarnir og að þeir séu nægilega jarðbundnir til að sjá í gegnum háfleygar söluræður braskara. Því miður hefur stjórnendum nokkurra lífeyrissjóða orðið hált á því svellinu að undanförnu. Má þar t.d. nefna 1,4 milljarða króna hlutabréfakaup fjögurra þeirra í Silicor Materials Holding árið 2015, fyrirtæki með vafasama rekstrarsögu sem ætlaði að framleiða sólarkísil með aðferð sem hvergi hafði áður verið beitt í heiminum! Verksmiðjan reis auðvitað aldrei og fé lífeyrisgreiðenda rann líklega allt í vasa lögfræðinga, ráðgjafa og stjórnenda fyrirtækisins, m.a. til að draga íbúa Hvalfjarðar í gegnum allt dómskerfið í árangurslausri tilraun til að koma í veg fyrir að verksmiðjan færi í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Annað og nýlegra dæmi um illa ígrunduð viðskipti stjórnenda lífeyrissjóða er rúmlega tveggja milljarða króna fjárfesting í kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, verksmiðju sem var rekin í þrot á þremur árum af einstaklingum sem vitað var að kunnu ekki til verka og áttu vafasama fortíð í viðskiptum og rekstri. Stjórnendur lífeyrissjóðanna þurftu að þola mikla gagnrýni vegna fjárfestingarinnar, bæði frá almennum eigendum sjóðanna sem töpuðu á þessu fé en einnig frá íbúum Reykjanesbæjar sem þurftu að búa við loftmengun frá verksmiðjunni. Lífeyrissjóðirnir brugðust við þessu með þeim óvenjulega hætti að kæra framkvæmdastjóra United Silicon og aðra stjórnendur félagsins til héraðssaksóknara. Töldu þeir að m.a. þyrfti að rannsaka hvort fjármunir United Silicon „hafi mögulega verið nýttir, með ólögmætum hætti, til að fjármagna aðkomu [framkvæmdastjórans], eða aðila honum tengdum, að verkefninu.“ Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Héraðssaksóknara er þessi kæra enn til skoðunar. Í nýlegri skýrslu lífeyrissjóðanna um mögulega skaðabótaskyldu forsvarsmanna fyrirtækisins, ráðgjafa og opinberra stofnana segir svo: „Ástæða er að taka það sérstaklega til skoðunar hvort forsvarsmenn [United Silicon] hafi vitað eða mátt vita frá upphafi að áætlanir þeirra um uppbyggingu verksmiðjunnar í Helguvík hafi verið óraunhæfar og þá hugsanlega byggðar á röngum eða sviksamlegum forsendum“.

Málshátturinn segir að brennt barn forðist eldinn. Þess vegna vekur það furðu að nú séu lífeyrissjóðirnir aftur komnir í viðskiptasamband við annan af stofnendum United Silicon, nú í tengslum við virkjanaframkvæmd norður á Ströndum. Þar hefur sá farið með umboð fyrir ítalska huldumanninn Felix Von Longo-Liebenstein, sem var einnig eigandi lítils hlutar í hinu gjaldþrota kísilveri. Lífeyrissjóðirnir standa að þessum umdeildu virkjanaframkvæmdum í gegnum 50% hlut sinn í HS Orku og dótturfélagi þess, Vesturverk. Það var síðastnefnda fyrirtækið sem gerði samning um vatnsréttindi virkjunarinnar við þá tvímenninga, ítalska huldumanninn og stofnanda United Silicon, samning sem nú virðist hafa byggt á röngum landamerkjum! Ef dómstólar staðfesta að svo sé þá má telja víst að það borgi sig ekki að reisa og reka Hvalárvirkjun, enda hefur hún hingað til fallið í hóp allra óhagkvæmustu virkjanakosta sem völ er á hér á landi.

Í sjálfu sér ættu sársaukafull átök í samfélaginu á Ströndum og mikil umhverfisspjöll að vera næg ástæða fyrir lífeyrissjóðina til að leggja fyrirætlanir um Hvalárvirkjun á hilluna, en ofan á það bætist nú að ein af grunnforsendum framkvæmdarinnar er vafasamur samningur dótturfyrirtækis lífeyrissjóðanna við erlendan huldumann og íslenskan umboðsmann hans sem lífeyrissjóðirnir hafa kært fyrir grun um refsiverð brot í fyrri viðskiptum við sjóðina. Lífeyrissjóðirnir eiga tilvist sína undir því að almenningur beri til þeirra traust. Þess vegna geta þeir ekki leyft sér að nota lögskyldan lífeyrissparnað okkar til að fjármagna loftkastala braskara og huldumanna, efna til harðvítugra samfélagsátaka eins og norður á Ströndum eða til að berjast gegn hagsmunum almennings eins og gert var í Helguvík og Hvalfirði. Láti sjóðirnir ekki af þessum starfsháttum mun vígvöllur mótmæla og átaka að öllum líkindum færast frá Trékyllisvík í Árneshreppi til höfuðstöðva Landssamband lífeyrissjóða í Reykjavík.