20. ágú. 2018

N-ið: Jóhannes Gunnarsson

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til formanns Neytendasamtakanna á aðalfundi 27. október næstkomandi og á næstu vikum ætla ég að gera nokkra hlaðvarpsþætti undir heitinu N-ið, hlaðvarp um neytendamál. Í þessum þáttum mun ég meðal annars kíkja niður á Alþingi, tala við forystufólk stéttarfélaga, taka púlsinn á sambandi neytenda og bænda og reyni að komast að því hvernig almenningur getur nýtt sér tæknina til að verða betri neytendur.

Þú getur gerst ásrifandi að hlaðvarpinu á i-tunes og öllum betri hlaðvarpsveitum. Eins geturðu skráð þig á póstlista hér á síðunni og fengið nýjustu bloggpistlana og hlaðvörpin beint í pósthólfið þitt.

En að efni þessa fyrsta þáttar - ég kynntist Jóhannesi Gunnarssyni, fyrrverandi formanni Neytendasamtakanna, fyrst þegar ég vann fréttir af verðsamráði olíufélaganna á sínum tíma og síðar þegar ég settist í stjórn Neytendasamtakanna. Hann var alltaf þægilegur í samskiptum og einlægur í sínu starfi fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu. Þó að ég í óþolinmæði minni hafi stundum viljað að samtökin væru róttækari þá breytti það aldrei þeirri skoðun minni að Jóhannes legði þeim gott eitt til á sinn grandvara hátt. Ég hitti Jóhannes þann 16. febrúar 2017, tæpu ári áður en hann lést, þar sem við ræddum um feril Jóhannesar hjá Neytendasamtökunum. Hann hófst á því að sjö konur í Borgarnesi skrifuðu samtökunum bréf og lýstu yfir óánægju með kaupmennina í bænum.