9. ágú. 2018

Framboð til formanns Neytendasamtakanna

Þing Neytendasamtakanna fer fram 27. október næstkomandi og ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns samtakanna. Neytendasamtökin hafa gengið í gegnum erfitt tímabil að undanförnu og það felur að mínu mati í sér tækifæri til að staldra við, ná áttum og endurbyggja samtökin á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið í 65 ár. Á þessum tímapunkti eigum við að vera óhrædd við að breyta áherslum og mála samtökin í nýjum litum. Verði ég kjörinn formaður Neytendasamtakanna mun ég leggja áherslu á eftirfarandi:
  • Andstöðu við hækkanir á neyslusköttum og kröfuna um að virðisaukaskattur á matvæli verði aftur lækkaður í 7%, að lágmarki. 
  • Vandaða umfjöllun um kosti og galla netviðskipta og þau tækifæri sem þau veita neytendum til aukinnar samkeppni. 
  • Andstöðu við ofvexti bankakerfisins og óhóflegum þjónustugjöldum og vaxtagreiðslum lántakenda, m.a. í skjóli verðtryggingar. 
  • Stöðva starfsemi smálánafyrirtækja. 
  • Aðhald með opinberum fyrirtækjum og stofnunum, t.d. í tengslum við verðlag á almenningssamgöngum, lyfjum, heilbrigðisþjónustu og raforku.
  • Aukið samstarf við stéttarfélög, m.a. í tengslum við verðlagseftirlit og varðstöðu um virka samkeppni.
  • Aukið samstarf við háskóla, m.a. við rannsóknir á réttindamálum neytenda og efnahagsmálum.
  • Virkt samstarf við samtök framleiðenda og kaupmanna um aukna og bætta upplýsingagjöf til neytenda um mat og fleiri neysluvörur, t.d. er varðar upprunamerkingar, innihaldsefni, kolefnisfótspor, dýravelferð, matarsóun, siðræna viðskiptahætti og lyfjanotkun í matvælaframleiðslu. 
  • Viðhalda og efla neytendaaðstoð, þar á meðal leigjendaaðstoðina og almenna lögfræðiráðgjöf. 
  • Efla vef samtakanna og gera þau fyrirferðarmeiri á samfélagsmiðlum. 
  • Fjölgun félagsmanna, m.a. með því að lækka almennt félagsgjald Neytendasamtakanna en koma um leið á styrktarkerfi sem hvetur félagsmenn og aðra til að styrkja samtökin fjárhagslega. 
Ég sat í stjórn Neytendasamtakanna 2012-2014 og í starfshópi þeirra um matvæli, umhverfismál og siðræna neyslu. Á þeim tíma tók ég m.a. virkan þátt í árangursríkri baráttu samtakanna við að fá norræna hollustumerkið Skráargatið viðurkennt á Íslandi. Árið 2011 var ég kosinn formaður Landverndar og stýrði samtökunum í fjögur ár á miklum uppgangstíma. Undir minni stjórn tvöfölduðust tekjur félagsins, afgangur af rekstri var um tíu milljónir króna, fjölmiðlaumfjöllun tengd Landvernd tífaldaðist, vinum á Facebook fjölgaði úr 900 í 6.000 og fjöldi félagsmanna áttfaldaðist, fór úr 500 í 4.000. Sem formaður Landverndar lagði ég ríka áherslu á aukið samstarf við önnur félög og samtök og það skilaði sér m.a. í breiðri samtöðu íslenskra náttúruverndarsamtaka í Grænu göngunni 2013 og í hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og fyrirtækjum. Einnig átti Landvernd á þessum tíma frumkvæði að árangursríku samstarfi við útivistarfélög og ferðaþjónustu í baráttu fyrir vernd hálendisins og hóf samstarf við stéttarfélög um málefnalega umræðu um auðlindamál og almannarétt.

Ég hvet alla áhugasama til að skrá sig í Neytendasamtökin á vef samtakanna eða með tölvupósti á ns@ns.is. Eins hvet ég alla skráða félagsmenn samtakanna til að taka þátt í þingi samtakanna í haust og áðurnefndu formannskjöri og skrá sig til þátttöku.