11. júl. 2018

Óvéfengjanlegar heimildir Samtaka atvinnulífsins

„Það er margra áratuga hagsaga íslensks þjóðfélags að óábyrgar launahækkanir hafa keyrt upp verðbólgu og eyðilagt framkvæmd sjálfstæðrar peningastefnu í landinu“. Þetta fullyrti fréttamaður Stöðvar 2 í frétt um kjaraviðræður á vinnumarkaði og bergmálaði þar áróður Samtaka atvinnulífsins. Framkvæmdastjóri samtakanna ritaði nýverið í leiðara fréttabréfs SA að hagsaga eftirstríðsáranna geymdi „órækan vitnisburð um skipbrot hinnar hefðbundnu íslensku ósamræmdu nálgunar þar sem hver höndin var uppi á móti annarri og skilaði efnahagslegum óstöðugleika, mikilli verðbólgu og stöðugum gengisfellingum.“ Það er til marks um alræmda hógværð forystufólks atvinnurekenda að forstjórinn sagði málflutning sinn byggja á „óvéfengjanlegum heimildum“. Við höfum auðvitað fyrir löngu lært að það er fátt um óvéfengjanlegar staðreyndir í viðskiptum og hagfræði.



Fram kemur í máli framkvæmdastjórans að miklar launahækkanir leiði reglulega til ofriss krónunnar og birtir hann línurit sem sýnir þessa „framúrkeyrslu“ allt aftur til miðrar síðustu aldar. Mynd segir svo sannarlega merkilega sögu um tíð efnahagsáföll hér á landi, en hún segir samt bara hálfa söguna, þ.e. um afleiðingar einhvers sem aðhafst er í efnahagslífinu. Saga orsaka hinna tíðu áfalla er nokkuð flóknari. Samtökum atvinnulífsins hefur orðið vel ágengt við að koma sinni sögutúlkun á framfæri, um það vitnar m.a. ofangreind orð fréttamanns Stöðvar 2 um að „óábyrgar launahækkanir“ hafi leitt til verðbólgu og gengisfellinga marga áratugi aftur í tímann. En sú saga á fleiri hliðar sem við megum ekki gleyma, hliðar sem benda til þess að atvinnurekendur beri meiri ábyrgð á framúrkeyrslunni en þeir kjósa að muna.

Lýðveldissagan öll er saga óhófs í stjórnmálum og efnahagslífi sem leiddi til gríðarlegrar sóunar á fjármunum með reglulegum ofvexti í hagkerfinu (gjarnan nefnt góðæri) og kollsteypum í kjölfarið. Þessi saga er vissulega margslungin en mig langar samt sem áður að gera tilraun til að rekja sögu þessara áratuga sem hver endaði með sinni útgáfu af hruni.

Gjaldeyrir flæddi inn í hagkerfið í stríðinu sem lauk árið 1945 og verð á fiski var hátt. Mikið framboð á vinnu og takmarkaður innflutningur vegna stríðsins hækkuðu verðlag og styrktu gengið. Ríkisstjórnin missti tökin á miðstýrðum fjárfestingum, sér í lagi í sjávarútvegi, og undir lok 5. áratugarins var orðinn skortur á gjaldeyri í landinu og gengið var fellt um 43% árið 1950.

Á 6. áratugnum naut útgerðin mikilla styrkja og bóta og mikil innflutningshöft leiddu til óhagræðis og spillingar. Bandaríkin réðust í miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem urðu þensluvaldandi. Stjórnmálamenn stjórnuðu bankakerfinu og peningar streymdu því út í hagkerfið á forsendum pólitískrar fyrirgreiðslu og vensla. Ofvöxtur varð í útlánum til útvegsfyrirtækja og landbúnaðar, þ.e. þeirra atvinnugreina sem höfðu sterkustu tökin í stjórnmálaflokkunum. Þeir sem græddu á kerfinu gátu síðan okrað á almenningi, smærri atvinnurekendum og frumkvöðlum með svonefndum okurlánum á svörtum markaði. Ofan á þetta lagðist svo aflabrestur undir lok áratugarins og gengið var fellt um 57% árið 1960 með meðfylgjandi verðbólguáhrifum.

Verðbólga reyndist áfram mikil og aðgangur að pólitískt úthlutuðu lánsfé var því áskrift að ríkidæmi, enda pólitískt ákvarðaðir vextir lægri en verðbólga. Húsnæðisbóla varð til sem kom illa niður á almenningi þegar atvinnuleysi fór vaxandi undir lok áratugarins. Síldin hvarf eftir miklar fjárfestingar í síldveiðiskipum og verksmiðjum. Því var enn gripið til þess að fella gengið árið 1968, þá um 35%.

Landhelgin var færð úr 12 mílum í 200 á árunum 1972-1976 og í kjölfarið var ráðist í meiri fjárfestingar á skuttogurum en hagkerfið réð við. Breytingar á alþjóðlegum olíu- og peningarmarkaði kyntu einnig undir verðbólgu sem náði hámarki hér á landi árið 1983 þegar hún var um 80%.

Níundi áratugurinn einkenndist sem fyrr af pólitísku bankakerfi sem leyfði einstaklingum og fyrirtækjum með góð tengsl við stjórnmálaflokkana að ganga í nær ótakmarkað lánsfé. Þannig safnaði Samband íslenskra samvinnufélaga gríðarlegum skuldum sem endaði með gjaldþroti og varð mikið áfall fyrir Landsbankann. Gjaldþrot Hafskips leiddi síðan til gjaldþrots Útvegsbanka. Stjórnvöld stuðluðu einnig að offjárefstingum í minkabúum, sauðfjárbúskap, fiskeldi og hafnarframkvæmdum. Enda var verðbólga mikil allan níunda áratuginn.

Tíundi áratugurinn markar nokkur tímamót þar sem ríkisstjórnin greip ekki lengur til þess ráðs að fella gengið og reynt var að draga úr óhagkvæmum ríkisstyrkjum í fjármálakerfinu. Verðbólga var ekki til stórra vandræða þar sem hagkerfi helstu viðskiptalanda okkar fóru í gegnum óvenju góða tíma þar sem vextir og verðbólga voru lág og hagvöxtur hár. Olíuverð var líka lágt í samanburði við áratuginn á undan. Áhrif svonefndra þjóðarsáttarsamninga árið 1990 á stöðugt efnahaslíf tíunda áratugarins kunna því að vera nokkuð ofmetin í viðteknum söguskýringum en áhrif ytri þátta vanmetin. Stjórnvöld missti þó tökin á hagkerfinu með öðrum hætti, annars vegar með því að leyfa útvegsmönnum og fjármálafyrirtækjum að prenta peninga með heimildum til að selja, leigja og veðsetja veiðiheimildir og hins vegar með því að láta afskiptalausan svonefndan gráan markað með hlutabréf. Almenningur og fjárfestar töpuðu miklum fjárhæðum á fyrirtækjum eins og DeCODE og Oz þegar netbólan svonefnda sprakk árið 2000 og gengið féll í kjölfarið.

Um næsta efnahagsáfall þarf ekki fjölyrða, enda hefur verið skrifuð rannsóknarskýrsla um það hvernig bankarnir voru einkavæddir á pólitískum forsendum og rændir á örfáum árum með þeim afleiðingum að gengið hrundi árið 2008 og almenningur sat upp með gríðarlegar skuldir og háa verðbólgu.

Í þessu ljósi er nokkuð ófyrirleitið af Samtökum atvinnulífsins að halda því fram að launþegar beri meginábyrgð á þeim efnahagslegu óförum sem hafa gengið yfir samfélagið á um tíu ára fresti alla lýðveldissöguna. Launþegar fara bara fram á þær launahækkanir sem þarf til að lifa efnahagsáföllin af. Það færi vel á því að þeir sem gæta hagsmuna Samtaka atvinnulífsins, jafnt í viðskiptum og stjórnmálum, viðurkenndu ábyrgð atvinnurekenda í áfallasögu íslenska efnahagslífsins áður en þeir láta næst út úr sér orðið stöðugleiki.