18. maí 2018

Kynt undir galdrabrennu á Vestfjörðum

Vestfirðingar eru alræmdir fyrir að brenna fólk lifandi fyrir meinta galdra. Ef marka má skrif Kristins H. Gunnarssonar þá virðast þeir ekki alveg hafa lagt þann sið af …

… nei, þetta er engin leið að tala um fólk. Það er líklega best að byrja aftur.

Allt frá því að Vestfirðingar drápu tugi saklausra spænskra skipbrotsmanna hafa þeir verið þekktir fyrir allt annað en að taka vel á móti ókunnugum. Það sýndi sig í pistli Kristins H. Gunnarssonar um …

… nei, þetta gengur varla heldur.

Upphrópanir og dómharka gera yfirleitt ekkert gagn í umræðu um mikilvæg mál. Samt hefur umræða Vestfirðinga um náttúruverndarmál einkennst af einmitt þessu. Þar hefur fremstur farið í flokki Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, sem ritar á ofsafengin hátt um þá sem hafa aðra skoðun en hann á svonefndri Hvalárvirkjun. Fjölmörg málefnaleg rök hafa verið færð gegn virkjuninni, t.d. að hún skerði verðmæt náttúrusvæði, almenningur þurfi að niðurgreiða virkjunina fyrir HS Orku og að hún dragi úr möguleika á hringtengingu raforku á Vestfjörðum og geri lítið sem ekkert til að auka þar raforkuöryggi. Kristinn hefur ekki getað svarað þessum rökum á málefnalegan hátt og velur því að ota kyndlinum að ímynduðum óvini Vestfirðinga sem hann lýsir m.a. svo: „Þarfir fólks eru orðnar víkjandi fyrir náttúrunni, rétt eins og náttúran sé orðið sjálfstæð persóna í lífríkinu sem er öllu öðru æðri. Hún er orðin hinn nýi guð sem fallið er frammi fyrir í tilbeiðslu.“

Ég verð að viðurkenna að ég gaf þessu gaspri Kristins ekki mikinn gaum, enda málflutningur hans á þeim nótum að hann var ekki líklegur til að afla málstað virkjanasinna mikils fylgis. En það tók hins vegar steininn úr nýverið þegar Kristinn hóf persónulegar árásir á 18 einstaklinga sem flutt höfðu lögheimili sitt í Árneshrepp. Hann lætur að því liggja að þessir flutningar séu samsæri gegn virkjanaáformum í hreppnum, brot á kosningalögum og aðkomufólksins kunni að bíða tvegga ára fangelsisvist. Síðan bítur hann höfuðið af skömminni með því að birta nöfn alls þessa fólks og segja það alveg augljóst að það væri að brjóta lög. Þetta er svona álíka og að ég skrifaði pistil um það hvernig einstaklingar lækkuðu skattgreiðslu sínar með því að flytja lögheimili til málamynda í Skorradalshrepp og birti svo nöfn allra sem flutt hefðu í hreppinn síðustu vikur og mánuði. Svona vinnubrögð flokkast auðvita sem rógburður og utan alls velsæmis, auk þess sem þau kunna að vera brot á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Með þessum óvönduðu vinnubrögðum hefur Kristni tekist að hræra upp svo miklu hatri í hópi Vestfirðinga að eiginmaður oddvita Árneshrepps hvetur til þess á opinberum vettvangi að hart verði tekið á aðkomufólkinu, ekki með kyndlum og heykvíslum, heldur rottueitri. Án þess að ég taki orð hans mjög alvarlega þá verður ekki litið framhjá því að hann er maki sveitarstjóra. Ég get rétt ímyndað mér móðursýkina sem hefði gripið um sig ef maki sveitarstjórans í Reykjavík hefði hvatt til þess að vinum Reykjavíkurflugvallar yrði byrlað rottueitur. En af því að þetta er vaskur karl að vestan þá kemst hann upp með þetta án nokkurra afleiðinga.

Ég hef enga ástæðu til að styðja ekki baráttu Vestfirðinga fyrir bættum lífskjörum, hringtengingu raforku, virkjun í Djúpinu, áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri, almennum vegabótum, aukinni hlutdeild í auðlindaarðinum o.s.frv. En þegar heiftin verður skynseminni yfirsterkari þá fjarar fljótt undan góðum málstað. Sá hópur Vestfirðinga sem telur nú að Hvalárvirkjun sé lausn á þeirra vanda þarf að fara að sætta sig við að þessi áform eru líklega of óskynsamleg til að þau verði að veruleika. Sölumenn lélegra hugmynda hafa dregið okkur í gegnum hver átökin á fætur öðrum að ástæðulausu, t.d. með fyrirætlunum um olíuhreinsistöðvar, stórskipahafnir og álver. Flestir þeirra hafa það eitt að markmiði að hafa tekjur af umstangi í kringum hugmyndir eða þá að auka verðmæti eigin fyrirtækja út á væntingar um framkvæmdir. Látum ekki enn eina slíka hugmyndina slíta friðinn sem á að geta ríkt um vöxt og viðgang Vestfjarða.