2. okt. 2017

Valdafyllerí í dómsmálaráðuneytinu

Dómsmálaráðherra er óvenju vandmeðfarið ráðuneyti. Það starfar á mörkum framkvæmda- og dómsvalds og útdeilir gæðum til einstaklinga sem síðan eiga að gæta þess, sem hlutlægir dómarar, að stjórnvöld starfi innan marka laga og réttar. Freistingarnar eru þess vegna miklar fyrir þá stjórnmálamenn sem veljast til að gegna starfi dómsmálaráðherra. Það er freistandi að útdeila svo virðulegum og vel launuðum störfum til ættingja eða vina, eða að skipa skoðanabræður sína í slíkar áhrifastöður.

Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að núverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi ekki staðist þessar freistingar þegar hann skipaði dómara í Landsrétt. Í dómi Héraðsdóms er vísað í niðurstöðu Hæstaréttar frá 2011 þar sem annar dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins var dæmdur fyrir brot á lögum við skipan Héraðsdómara þegar hann skipaði dómara sem matsnefnd taldi ekki í hópi hæfustu umsækjenda. Í þeim dómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ef ráðherra teldi ástæðu til að víkja frá áliti nefndarinnar yrði sú ákvörðun að vera reist á frekari rannsókn, enda væri sjálfstæði dómstóla álitið svo mikilvægt að um það væri sérstaklega fjallað í stjórnarskrá.

Fyrstu viðbrögð núverandi dómsmálaráðherra við dómi Héraðsdóms var að varpa allri ábyrgð á nefnd þá sem mat hæfi umsækjenda og lagði fram tillöguna sem dómsmálaráðherra ákvað að fylgja ekki. Einnig taldi ráðherra sýknu í illa rökstuddri skaðabótakröfu kærenda til marks um að hún hefði ekkert gert rangt. Því miður hafa stóru fjölmiðlarnir leyft dómsmálaráðherra að komast upp með þessa túlkun og málið fengið sérkennilega litla umfjöllun miðað við stjórnarfarslegt mikilvægi þess. Héraðsdómur tekur vissulega undir að annmarkar hafi verið á umsögn dómnefndarinnar, en þar með hafi ráðherra samt ekki verið í sjálfsvald sett hvernig hún hagaði meðferð málsins í framhaldinu (bls. 44). Mikilvægi nefndarinnar er undistrikað í dómi hérðsdóms, enda sé henni ætlað að „styrkja sjálfstæði dómstólanna, auka traust almenning á þeir séu óháðir ráðherrum og stemma stigu við því að skipun dómara ráðist af geðþótta eða hagsmunum ráðherra“ (bls. 45). Því telur Héraðsdómur að ráðherra hefði átt að óska eftir nýrri umsögn nefndarinnar og að hann hafi ekki haft óheft svigrúm til að leggja fram eigin tillögur um skipan dómara fyrir Alþingi. Dómurinn undirstrikar síðar að af gögnum málsins verði ekki séð hvort og þá hvernig ráðherra hafi borið saman hæfni einstakra umsækjanda: „Þannig verður hvorki ráðið af þeim rökstuðningi sem finna má í minnisblaði ráðherra frá 30. maí 2017 … hvers vegna einmitt þeir fjórir umsækjendur sem upphaflega voru meðal þeirra sem dómnefnd taldi í hópi þeirra fimmtán hæfustu féllu út. Sá rökstuðningur sem fram kemur í bréfi ráðherra 29. maí 2017 er reyndar afar óljós að þessu leyti“ (bls. 46).

Í niðurstöðu sinni rekur Héraðsdómur að ráðherra hafi ekki gert heildstæðan samanburð á umsækjendum eða lagt efnislegt mat á umsóknir þeirra. Vegna þessa hafi ekki verið grundvöllur til að beita jafnréttislögum við skipunina, sem var sú réttlæting sem nokkrir þingmenn gripu til við afgreiðslu málsins, enda hafi ráðherra ekki sýnt fram á að einstaka umsækjendur sem hún skipaði hafi verið jafn hæfir öðrum voru ofar á lista matsnefndar (bls. 46-47). Auk þess segir að afsakanir ráðherra um tímahrak hafi ekkert gildi, enda verði ófullnægjandi rannsókn mála og ágallar á mati ráðherra aldrei réttlætt út frá sjónarmiðum um málshraða. Auk þess hafi átt að skipa dómarana fyrir 1. júlí en meðferð ráðherra og Alþingis hafi lokið 1. júní. Tímaþröng var því ekki gild réttlæting til að brjóta lög og reglur stjórnsýsluréttar (bls. 47). Niðurstaða Héraðsdóms er því mjög skýr, málsmeðferð ráðherra var slíkum annmörkum háð að ekki eru forsendur til að fullyrða hvort ráðherra hafi lagt til við Alþingi skipun 15 hæfustu umsækjendanna og verk ráðherra voru hvorki í samræmi við dómstólalög né stjórnsýslurétt.

Við þessu hafði verið varað í meðferð málsins á Alþingi, bæði í umsögnum sérfræðinga og ræðum þingmanna Pírata, Vinstri-grænna og Samfylkingar. Það gerir þetta mál sérlega sorglegt. Allir sem vildu vita vissu að tillaga dómsmálaráðherra stæðist ekki lög. Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar-framtíðar virðast einfaldlega hafa verið tilbúnir til að taka leðjuslaginn til að koma lögfræðingum með „réttar“ skoðanir og pólitískar tengingar í þessar áhrifastöður, þ.á.m. maka eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins og maka fyrrverandi vinnuveitanda dómsmálaráðherra. Þessir þingmenn hafa sýnt, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir, að þeim er ekki treystandi til að verja grundvöll réttarríkissins. Það er ágætt að hafa það í huga þegar við göngum nú til kosninga.

Einhverra hluta vegna hefur Sjálfstæðisflokknum þótt treystandi fyrir dómsmálaráðuneytinu í gegnum tíðina. Frammistaða ráðherra flokksins undanfarin ár bendir þó eindregið til þess að flokkurinn standist ekki þær freistingar sem fylgja því. Áðurnefndar dómur Hæstaréttar frá 2011 og umræddur dómur Héraðsdóms í máli núverandi dómsmálaráðherra eru til marks um það. Auk þess má nefna fangelsisdóm yfir aðstoðarmanni dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins 2014 og álit Umboðsmanns Alþingis 2015 um óeðlileg afskipti ráðherra af lögreglurannsókn og tilraunir til að afvegaleiða rannsókn lögreglu og Umboðsmanns.

Það tíðkast á flestum börum að setja fólk sem höndlar áfengi illa á bannlista. Með sömu rökum ætti að setja þá sem höndla valdið illa á bannlista í dómsmálaráðuneytinu. Reynslan hefur kennt okkur að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir því valdi sem dómsmálaráðuneytið færir þeim, það endar alltaf á sóðalegu valdafylleríi. Þó að flest framboð gangi óbundin til kosninga nú í október þá ættu þau þó flest að geta bundist fastmælum um að Sjálfstæðisflokknum verði ekki treyst fyrir dómsmálaráðuneytinu næstu árin eða áratugina.