15. mar. 2017

Björt framtíð í fótspor Framsóknarflokksins

Það er ekki auðvelt fyrir nýja ráðherra að feta sig innan stjórnkerfisins, eins og má m.a. sjá af fyrstu dögum umhverfisráðherra í starfi. Orð hennar hafa að minnsta kosti ekki alltaf virst í samræmi við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin boðar. Og reyndar er henni nokkur vorkunn, því aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast oft á tíðum í beinni andstöðu við eigin stjórnarsáttmála.

Eitt skýrasta dæmið um það er hugmyndin um hálendisþjóðgarð sem 60% landsmanna sögðust fylgjandi í könnun árið 2015 en einungis 13% reyndust andvíg og náttúruverndarsamtök, útivistarsamtök og Samtök ferðaþjónustunnar hafa lýst yfir sameiginlegum stuðningi við. Þjóðgarðurinn hefur notið svo vaxandi vinsælda að núverandi ríkisstjórn sagði í stefnuyfirlýsingu sinni að unnin yrði sérstök áætlun um vernd miðhálendisins. Umhverfisráðherrann hefur auk þess lýst þeirri skoðun sinni að skynsamlegast sé að vernda miðhálendið sem þjóðgarð.

Í ljósi þessara yfirlýsinga kom eitt af fyrstu verkum umhverfisráðherra mér óþægilega á óvart. Hún hefur sem sagt lagt fram á Alþingi tillögu að rammaáætlun sem gerir m.a. ráð fyrir að Landsvirkjun verði leyft að reisa virkjun við Skrokköldu á miðhálendi Íslands. Líklega verður ekki komist með virkjun nær miðpunkti landsins en þessa. Svona var fjallað um sömu tillögu í umsögn náttúruverndarhreyfingarinnar árið 2011: ,,Umrætt svæði er nær því að vera í miðju hálendisins og uppbygging mannvirkja þar með tilheyrandi virkjanabyggingum, vegagerð og línu- og pípulögnum myndi höggva stórt skarð í hjarta hálendisvíðerna landsins."

Í Kastljósi sagði umhverfisráðherra að tillagan sem hún legði fyrir Alþingi væri góð málamiðlun milli verndar- og virkjanastefnu. Ég get með engu móti séð hvernig áætlun sem eyðileggur endanlega hugmyndina um hálendisþjóðgarð og gerir ráð fyrir áframhaldandi óhóflegum vexti í raforkuframleiðslu geti talist góð málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Ég vakti athygli á því í pistli árið 2011 að orkunotkun hér á landi per mann (36.852 kWs) væri sú mesta sem þekktist í heiminum (tölur orkuspárnefndar byggðar á upplýsingum frá 2007), meira en helmingi meiri en þeirra þjóða sem komust næst okkur að Noregi undanskildum (24.855 kWs). Samt heimtuðu hagsmunasamtök eins og ASÍ og SA að atvinnustigi í landinu yrði haldið uppi með byggingu fleiri virkjana. Síðan þá hefur raforkunotkun Íslendinga haldið áfram að aukast á meðan sambærilegar þjóðir hafa staðið í stað eða dregið úr raforkunotkun sinni, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Samt ætlar umhverfisráðherra að láta undan fráleitum kröfum orku- og verktakafyrirtækja. Verði tillaga umhverfisráðherra samþykkt geta orkufyrirtækin virkjað önnur 1.400 MW og aukið uppsett afl virkjana um 50%. Tillaga umhverfisráðherra er því öfgafull tilraun til að þjóna iðnaði sem mun aldrei láta staðar numið í sókn sinni í óspillta náttúru og hún mun gera út af við drauminn um hálendisþjóðgarð. Í ljósi þessa verður ekki annað sagt en að Björt framtíð fylli vel upp í það skarð sem Framsóknarflokkurinn skildi eftir sig í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.