28. des. 2016

Björt framtíð sannar sig fyrir Sjálfstæðisflokki

Það kom mér ekki á óvart að Viðreisn skyldi styðja frumvarp fjármálaráðherra um afnám og skerðingu lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna. Þetta var frumvarp sem stjórnmálaflokkar verktaka, útgerða, fjármálabraskara og eignarhaldsfélaga gátu staðið að í sameiningu, hvort sem þeir sigldu undir nafni Viðreisnar eða Sjálfstæðisflokks.

Það kom mér hins vegar verulega á óvart að þingmenn Bjartrar framtíðar skyldu veita málinu stuðning. Forsvarsfólki flokksins hefur nefnilega orðið tíðrætt um að megin áhersla þess séu bætt vinnubrögð í stjórnmálum. Á vef flokksins segir t.d. að Björt framtíð vilji breyta stjórnmálum á Íslandi þannig að þau einkennist af meiri yfirvegun og trú á upplýstum ákvarðanatökum. Einnig að Björt framtíð þori að leiða hin stærstu og erfiðustu deilumál til lykta með gögnum, rannsóknum, opnu samtali og lýðræðislegum aðferðum. Formaður Bjartrar framtíðar hefur líka talað mikið um að flokkurinn vilji standa fyrir breyttum vinnubrögðum í stjórnmálum og nefnir þá gjarnan að kjarninn í stefnu flokksins sé barátta fyrir minna fúski.

Engu að síður greiddu þingmenn Bjartrar framtíðar atkvæði með frumvarpi fjármálaráðherra um afnám og skerðingu lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna nú skömmu fyrir jól. Af lestri umsagna um frumvarpið má þó dæma að frumvarpið og umfjöllun Alþingis um það hafi einmitt einkennst af fúski. Í umsögn Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga segir t.d. að mörgum spurningum um mikilvæga hagsmuni sjóðsfélaga væri ósvarað, t.d. væri óljóst hvort sjóðfélagar héldu réttindum sínum til örorku, maka og barnalífeyris. Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, sagði frumvarpið meingallað og kallaði það stórslys. Landssamband lögreglumanna benti á að frumvarpið gengi á svig við fyrri yfirlýsingar um kjör lögreglumanna og gerði auk þess alvarlegar athugasemdir við að Alþingi hefði gefið rétt um sólarhring til að vinna athugasemdir við frumvarpið, ekki síst í ljósi þess hversu miklir hagsmunir launþega væru í húfi. Í umsögnum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélags Íslands er síðan vakin athygli á að líklegt sé að frumvarpið standist ekki stjórnarskrárvarinn eignarrétt og fyrir því séu dómafordæmi. Í umsögn hjúkrunarfræðinga segir enn fremur: „Fíh gerir alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins og telur að um slíkar grundvallarbreytingar sé að ræða, að Alþingi sé ekki annar kostur en að haga meðferð þess til samræmis við mikilvægi málsins. Engin aðkallandi nauðsyn er til þess að keyra þetta þingmál í gegn í flýti. … Er það trauðla til merkis um vandaða lagasetningu ef keyra á frumvarpið í gegnum Alþingi á hlaupum.“

Þannig hófu þingmenn Bjartrar framtíðar nýtt kjörtímabil á fúski, þrátt fyrir að hafa rekið kosningabaráttu sína á loforði um bætt vinnubrögð á Alþingi. Fyrir því kunna einungis að vera tvær ástæður, annaðhvort er þjóðsagan um dugleysi þingmanna Bjartrar framtíðar sönn eða þá að þeir voru tilbúnir til að varpa áherslum sínum á vönduð vinnubrögð fyrir róða til að sanna fyrir Sjálfstæðisflokknum að Bjartri framtíð sé treystandi til að vinna skítverk í þeirri ríkisstjórn sem nú er verið að mynda.