18. okt. 2016

Lyklalög, nýfrjálshyggja og magafylli af börnum


Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur svikið mörg loforð, sér í lagi í húsnæðismálum. Leigumarkaðurinn hefur orðið enn mannfjandsamlegri á kjörtímabilinu, fjörutíu ára verðtryggð húsnæðislán eru enn þungamiðjan í kerfinu og ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram frumvarp um lyklalög þrátt fyrir að báðir stjórnarflokkarnir hafi lofað því.

Með lyklalögum fengi lántakandi rétt á að skila fasteign ef skuldabyrðin yrði of mikil, t.d. vegna gengishruns eða hárrar verðbólgu. Þannig skrifaði varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins nokkrum dögum fyrir kosningar 2013: „Samningsstaða þeirra sem berjast við óyfirstíganlegar skuldir gjörbreytist gagnvart lánastofnunum ef „lyklalög“ verða sett eins og Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt.“ Árið 2012 skrifað formaður þingflokks Sjálfstæðismanna um lyklalögin: „Það jafnar samningstöðu skuldara og fjármálastofnunar. Þetta úrræði myndi með öðrum orðum neyða fjármálastofnanir til að horfast í augu við þann vanda sem nánast gjaldþrota fólk er í og annað hvort semja eða fella niður skuldir umfram verðmæti eignarinnar.“

En þegar þessir sömu menn komust í stöðu til að „jafna samningsstöðu skuldara og fjármálastofnana“ þá brast þeim kjarkurinn. Sigmundur Davíð forsætisráðherra sagði í stefnuræðu haustið 2013 að lyklafrumvarp yrði lagt fram á haustþingi. Síðan gerðist ekkert og því gripu Píratar til þess ráðs fyrr á þessu ári að leggja frumvarpið sjálfir fram á Alþingi, þar sem málið hefur síðan ekki fengist afgreitt þrátt fyrir loforð beggja stjórnarflokka. Birgitta Jónsdóttir mælti fyrir frumvarpinu og sagði þá: „Auk þess að færa skuldurum í hendur nauðsynlegt úrræði til að mæta ófyrirséðum fjárhagsörðugleikum mundi sú áhættudreifing sem í því felst hvetja lánastofnanir til vandaðri lánastarfsemi. … Þannig yrði dregið úr líkunum á myndun fasteignabólu í líkingu við þá sem varð á árunum fyrir hrun. Til langs tíma litið leiddi breytt um­hverfi að þessu leyti til vandaðri lánastarfsemi samfélaginu öllu til hagsbóta.“

„Vaxtamunur við útlönd og góðir fjárfestingarkostir innanlands, þá sérstaklega í innlendum húsnæðislánum, dregur verulega úr væntu útflæði vegna erlendrarfjárfestingar lífeyrissjóða.“ Þessi tilvitnun úr nýlegri umsögn Seðlabankans um afnám fjármagnshafta segir allt sem segja þarf um stöðuna sem íslenskir lántakendur búa við. Hér hefur verið búið til verðtryggt húsnæðislánakerfi sem veitir fjármagnseigendum meiri ávöxtun en þeir geta gert sér vonir um með öðrum löglegum leiðum í hagkerfi heimsins. Afleiðingarnar eru gríðarlegur kostnaður fyrir lántakendur og minni lífsgæði.

Lausnir gömlu flokkanna í húsnæðismálum einkennast af því að blása enn frekar í þá fasteignabólu sem Seðlabankinn er farinn að vara við, hvort sem er með fyrirframgreiddum vaxtabótum eða með því að festa lífeyrissparnað í steypu. Fasteignabóla í bland við okurvexti er eitraður kokteill sem gerir það að verkum að fólki reynist það sífellt erfiðara að eignast þak yfir höfuðið, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta bitnar sérstaklega á ungu fólki sem hefur ekki upplifað sömu hækkun ráðstöfunartekna og eldri kynslóðir.

Margrét Kristmannsdóttir hefur vakið athygli á þessari stöðu ungs fólks og sagði nýverið í viðtali á Hringbraut að staða ungs fólks væri miklu erfiðara en þegar hún var ung: „Við þurfum að fara að velta því fyrir okkur hvað við erum að gera þessari kynslóð. … Ég fór að reikna út þegar við keyptum okkar fyrstu íbúð 1991. Þá var íbúðaverðið 35% hærra en árslaun okkar hjóna. Nú er ég búin að reikna þetta fram til dagsins í dag og það hefur orðið algjör viðskilnaður á þróun launa og húsnæðis. Nú er þetta ekki 35% hærra, heldur 100% hærra. Það er þessi staðreynd sem börnin okkar eru að horfa upp á. … Í dag er það eiginlega vonlaust að koma sér þaki yfir höfuðið nema að ég og þú getum látið þau hafa nokkrar milljónir í start.“

Orðatiltækið segir að byltingin éti börnin sín og það má til sanns vegar færa að bylting nýfrjálshyggju og auðræðis sé með magann fullan af ungu fólki í húsnæðisleit. Húsnæðismál hljóta að verða einna efst á forgangslista þeirra flokka sem komast til áhrifa að loknum kosningum 29. október og Píratar hafa sýnt fram á það með lyklafrumvarpinu að þeir vilja valdefla lántakendur á húsnæðismarkaði og koma á heilbrigðara og hófstilltara kerfi.

Eldri pistlar um húsnæðismarkaðinn: