1. sep. 2016

Peningasugur á flótta?

Stjórnendur Haga hafa nú grætt verulega á þeirri bólu sem blásin hefur verið út á íslenskum hlutabréfamarkaði með fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Forstjórar Bónusverslananna og Banana hafa selt allan sinn hlut í félaginu og forstjóri Haga hefur einnig losað sig við stóran hluta af sinni hlutabréfaeign.

Í fréttum hefur því verið haldið fram að salan sé til komin vegna yfirvofandi samkeppni við Costco. Það hlýtur að minnsta kosti að vera einhver ástæða fyrir því að þessir forsvarsmenn Haga losa sig allir við hlutafé í fyrirtækinu á sama tíma. Það er sjaldgæft að leiðtogar fyrirtækja gefi út slíka vantraustsyfirlýsingu á eigið fyrirtæki og í raun með ólíkindum að stærri hluthafar láti þetta óátalið.

En hver sem ástæða sölunnar er þá vill svo til að nú er einmitt rétti tíminn til að eiga fúlgur fjár á Íslandi. Mig grunar nefnilega að losun fjármagnshafta og sterk staða krónunnar hafi ekki síður orðið til þess að forsvarsmenn Haga voru tilbúnir til að niðurlægja eigið fyrirtæki með þessum hætti. Nú hefur nefnilega opnast kærkomið tækifæri til að koma peningum í erlent skjól, rétt eins og fyrrverandi forsætisráðherra og frú gerðu með bólupeninga síðasta áratugar, skömmu fyrir hrun.

Þeir Íslendingar sem voru opin­beraðir í Pana­ma­skjöl­unum eiga það sam­eig­in­­legt að hafa efn­­ast á við­­skiptum á Íslandi og flutt pen­inga úr íslensku efna­hags­­kerfi yfir í erlend eign­­ar­halds­­­fé­lög. Nú berast fréttir af því víða úr viðskiptalífinu að þeir efnamestu ryksugi krónur út úr fyrirtækjum í stórum stíl. Fyrr á þessu ári gerðu eigendur tryggingafélaganna t.d. tilraun til að greiða sér 9,6 milljarða í arð og bónuspottar eignarhaldsfélaga eru allt í einu taldir í milljörðum. Einnig hafa fyrirtæki í auknum mæli verið látin kaupa hlutabréf af eigendum sínum. Þannig sagði Viðskiptablaðið frá því að fyrirtæki á hlutabréfamarkaði ætluðu með þessum hætti að koma 12 milljörðum króna í hendur eigenda sinna og nýlega voru sagðar fréttir af því að einn þekktasti fjármálabraskari landsins hefði beitt þessari aðferð til að taka 750 milljónir úr almannaþjónustufyrirtækinu HS Veitum.

Ég leyfi mér að efast um að það sé tilviljun ein að allt þetta gerist á sama tíma og formaður Sjálfstæðisflokksins losar um höft á fjármagnsflæði úr landi og Seðlabankinn heldur uppi of sterku gengi krónunnar með háum vöxtum. Þetta eru kjöraðstæður fyrir þá allra ríkustu að koma peningum úr landi. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu sem Fitch nefnir hættuna á gjaldeyrisútflæði og gengishruni í síðasta lánshæfismati sínu á íslenska ríkinu.

Við hljótum að spyrja okkur hvað liggi á að losa um gjaldeyrishöftin? Það er vissulega mikilvægt að heimila erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða svo að þeir geti dreift betur áhættunni við langtímafjárfestingar og haldi ekki áfram að blása í eignabólu hér á landi. En lífeyrissjóðirnir fengu undanþágu frá höftunum um mitt ár 2015 og eru því ekki í þeim stórkostlega vanda sem af er látið. Stundum er rætt um að höftin dragi úr möguleikum sprotafyrirtækja og þess vegna þurfi að losa um höftin. Samt kom fram á aðalfundi Samtaka leikjaframleiðanda í apríl að meðalársvöxtur iðnaðarins hér á landi á tímabili gjaldeyrishafta, frá 2008 til 2015, hafi verið 18% og að 95% tekna hans kæmi erlendis frá. Enda hafa verið búnar til undanþáguleiðir fyrir þessi fyrirtæki svo höftin bitni síður á þeim.

Liggur okkur þá eitthvað á að losa alveg um gjaldeyrishöftin? Á undanförnum árum höfum við upplifað langþráðan stöðugleika með lágri verðbólgu og háu atvinnustigi. Viljum við taka þá áhættu að fórna þessum stöðugleika til þess eins að hleypa peningum efnuðustu Íslendinganna út úr landinu? Fari svo að þeir flytji fé í stórum stíl af landi brott þá mun það hafa mjög neikvæð áhrif á stærstan hluta almennings með hækkandi verðlagi og hækkun verðtryggðra húsnæðis- og námslána. Auk þess myndu erlend lán íslenska ríkisins hækka í krónum talin og lánshæfismat versna sem leiðir til aukins niðurskurðar í útgjöldum til innviða og heilbrigðiskerfisins.

Ég vona svo sannarlega að þetta séu óþarfa áhyggjur. En íslensk efnahagssaga og siðferði í íslensku fjármálalífi gera það að verkum að þingmenn ættu að gefa varúðarljósunum gaum áður en þeir afgreiða frumvarp fjármálaráðherra.

Sjá einnig:

Flóttaleið fyrir bólukrónur (13.4.2016).