13. apr. 2016

Flóttaleið fyrir bólukrónur

Panamaskjölin hafa sýnt fram á það, svart á hvítu, að hér á landi er fámenn klíka sem þrífst á því að búa hér til bólur, hagnast ótæpilega á þeim og flytja hagnaðinn í erlend skjól skömmu fyrir hrun. Þannig er talið að hundruðir milljarða hafi verið fluttir úr íslenska hagkerfinu í skattaskjól skömmu fyrir hrun. Það er síðan almenningur sem situr uppi með reikninginn, t.d. í formi gengisfalls, verðbólgu og kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Tortóla-félag fyrrverandi forsætisráðherra er dæmi um þessa aðferð. Auður hans og eiginkonu hans byggir að stærstum hluta á sölu á bílaumboði fyrir 5,3 milljarða króna árið 2005. Sú sala byggði á glórulausu láni sem Landsbankinn veitti útgerðarmanni sem átti síðar eftir að lenda á reikningi skattgreiðenda með gjaldþroti Landsbankans og gríðarlegum afskriftum. Það voru því bara bólupeningar sem forsætisráðherrann og kona hans fluttu til Tortóla í ársbyrjun 2008, skömmu fyrir hrun, bólupeningar sem enduðu á reikningi skattgreiðenda.

Nú er að myndast annað bóluástand í hagkerfinu. Lífeyrissjóðunum hefur verið beitt til að búa til bólu á hlutabréfamarkaði með tilheyrandi hagnaði fyrir vel tengda fjárfesta. Hlutabréfavísitalan hækkaði þannig um 47% á liðnu ári. Þá hefur lífeyrissjóðum, greiningardeildum banka og aðgerðalausum stjórnvöldum verið beitt til að blása í fasteignabóluna. Þannig hefur fasteignaverð hækkað um allt að 58% frá hruni. Á sama tíma hefur eigið fé þrjátíu stærstu útgerðarfyrirtækjanna hækkað um 230 milljarða og þau greitt eigendum sínum 76 milljarða króna í arð. Hagkerfið er því á floti í peningum fjársterkra og vel tengdra einstaklinga og hópa sem munu leggja á flótta um leið tækifæri gefst.

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hefur lýst því ágætlega hvaða áhrif slíkur flótti hafði á kjör alls almennings í hruninu: „Þegar 1000 til 1500 manns taka út úr hagkerfinu 1000 til 2000 milljarða króna þannig að rosaleg gjaldeyrisþurrð myndast í bönkunum þá fellur krónan miklu meir en annars hefði gerst. Hugsanlega hefði dollar einungis hækkað í 80 kr og að verðbólguskotið hefði orðið 10% í stað 40%. Það merkir að kostnaðinum við þessi aflandsrassaköst auðmanna leiddi af sér 40% launalækkun í stað 10% launalækkun. Það er glæpurinn.“ Og hann hefur líka bent á sterkefnaðir einstaklingar leggja ekki bara á flótta með milljarðana sína til að fela þá: „Í mörgum tilvikum eru þeir fyrst og fremst að losna við verðbólgu. Maður sem leggur inn tvo milljarða á inn Tortóla í erlendri mynt á þessa tvo milljarða eftir að verðbólguskotið ríður yfir. Fyrir 2008 kostar dollar 60 kr en eftir það er hann kominn upp í 120 kr. Ef reiknað er í íslenskum krónum á maður sem leggur inn 2 milljarða 4 milljarða eftir að verðbólguskotið hefur geisað.“

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sagt að hún verði að sitja fram á haust til að geta losað um fjármagnshöftin og opnað þannig aftur á fjármagnsflæði til og frá landinu. Forsætisráðherra sagði í stefnuræðu að þetta væri aðalverkefni ríkisstjórnarinnar. En hversu skynsamlegt er það að láta ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sjá um að opna þessa gátt? Að mínu mati er það beinlínis hættulegt í ljósi þess hverra hagsmuna þessir flokkar gæta.

Ólafur Elíasson úr In Defence lýsti því nýverið í viðtali hversu vanstilltir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið að undanförnu vegna þeirra miklu fjárhagslegu hagsmuna sem um ræðir: „Við fórum í baráttu fyrir því að skattaleiðin yrði farin á þrotabúin og við áttum í mjög erfiðum samskiptum við ríkisstjórnina. ... Við fengum mjög vond viðbrögð við okkar athugasemdum, vanstillt viðbrögð. Það voru ýmis orð látin fjúka sem þeir sem þau sögð myndu ekki vilja sjá í fjölmiðlum. Það var mjög mikil vanstilling í þessu. ... Nú verðum við að fá yfirvegaða rannsókn á þessu ferli. Það hefur komið í fjölmiðlum að aðilar hafa fengið gríðarlega bónusa þegar nauðasamningar voru samþykktir. Nú er komið í ljós að kona forsætisráðherra átti kröfu í búið, ég meina ætlarðu bara að loka þessari hurð og fara bara að hugsa um annað.“

Við getum ekki treyst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fetinu lengra í þessu ferli. Ríkisstjórnin á einmitt ekki að fá frið til að afnema höftin. Miklu eðlilegra væri, líkt og Ólafur bendir á, að hefja rannsókn á ákvörðunum sem teknar hafa verið hingað til. Eins þarf að upplýsa áður en höftin verða afnumin hvort fleiri þingmenn og ráðherrar eða fjölskyldur þeirra séu í hópi kröfuhafa eða þeirra sem eru líklegir til að leggja á flótta þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt. Þá er alveg ljóst að hér verður ekki hægt að fara í losun gjaldeyrishafta, með aukinni hættu á verðbólguskoti og efnahagslegum hamförum fyrir heimilin í landinu, fyrr en verðtryggingin hefur verið afnumin.

Það er því pólitískur ómöguleiki til staðar, svo vitnað sé í fleyg orð formanns Sjálfstæðisflokksins, sem gerir það að verkum að núverandi ríkisstjórn getur ekki og má ekki stýra losun gjaldeyrishaftanna.