18. nóv. 2015

Sjálfsmark forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson hóf kosningabaráttu sína í gær á sjálfsmarki. Hann virðist heillum horfinn, nú þegar hans helstu ráðgjafar eru á bak við lás og slá, að minnsta kosti ef marka má slaka frammistöðu hans í viðtali í morgunþætti Bylgjunnar í gær um afleiðingar árásanna í París.

Forsetinn sagðist hafa frétt af því á fundi með fulltrúum erlends ríkis fyrir nokkru síðan að ríki sem hefur fóstrað öfgakennt islam hafi ákveðið að hafa afskipti af trúarbrögðum á Íslandi og að það væri áminning til Íslendinga að hér þyrfti að hefja nýja umræðu. Forsetinn vísaði þarna að öllum líkindum til fundar hans með sendiherra Sádi-Arabíu í mars á þessu ári þar sem sendiherrann tilkynnti að Sádi-Arabía myndi styðja byggingu mosku í Reykjavík með milljón dala framlagi. Samkvæmt opinberum skjölum sem Wikileaks hefur birt, hrósaði forsetinn ráðamönnum Sádi-Arabíu á fundi með þessum sendiherra og lýsti áhuga á að styrkja og víkka efnahagsleg og viðskiptaleg samskipti Íslands og Sádi-Arabíu. Auk þess á forsetinn að hafa útskýrt að Ísland styddi öll arabísk málefni á alþjóðlegum vettvangi.

Sádi-Arabía ber einna mesta ábyrgð á útbreiðslu öfgafyllstu gerðar íslam, svonefnds Waahabisma, sem nú fær útrás í samtökum eins og ISIS. Sádar bera líka að stórum hluta ábyrgð á uppgangi ISIS í Írak og þeir hafa einnig hellt olíu á stríðseldinn í Sýrlandi og Jemen. Þessum öfgum þarf að mæta af hörku með því að tala opinberlega um misgjörðir sádi-arabískra stjórnvalda og láta þau horfast í augu við gjörðir sínar. Það versta sem við gerum í stöðunni er að fara leið forsetans sem hrósar Sádum og veitir þeim samþykki sitt með hrósum og óskum um aukin viðskipti.

Af öðrum afrekum forseta lýðveldisins í samskiptum við einræðisríki Mið-Austurlanda má nefna betlibréf sem hann sendi krónprinsinum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og emírnum í Katar fyrir hönd vinar síns, Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er fjallað um þessi bréf. Þar segir m.a.: „Undir lok útrásarskeiðsins fóru fjármálamenn að beina sjónum til olíuríkjanna við Persaflóann, bæði til að opna útibú og til að leita að fjárfestum, raunverulegum eða óraunverulegum. Forsetinn lét ekki sitt eftir liggja til að greiða þeim för.“ Forsetinn lét ekki nægja að senda betlibréf því hann fór einnig á fund katarska emírsins Al Thani til að koma á viðskiptum sem áttu eftir að reynast stærsta viðskiptasvindl Íslandssögunnar. Katar er alræmt einræðisríki sem hefur átt stóran þátt í að fjármagna hryðjuverkasamtök eins og ISIS og Al-Kaída í Írak og bardagasveitir þeirra í Sýrlandi.

Í viðtali við morgunútvarp Bylgjunnar sagði forsetinn: „Um leið og við eigum ekki að fara að fordæma flóttamenn og hlaupa frá samfélagi fjölmenningar og umburðalyndis eigum við ekki heldur að lifa í barnalegri einfeldni um það að með einhverjum aðgerðum á sviði umburðalyndis og félagslegum umbótum sé hægt að taka á þessum vanda.“

Það er rétt hjá forsetanum að við stöndum frammi fyrir vanda sem við þurfum að tala um. En það er aldrei gott að hefja samtal á því að saka aðra um barnaskap og einfeldni með hálfkveðnum vísum líkt og forsetinn gerði. Við þurfum t.d. að tala um það hvort hér þurfi að takmarka trúfrelsið með einhverjum hætti til að við getum komið í veg fyrir öfgar og hatur sem sumir boða. Við þurfum að ræða það hvort við séum mögulega að ganga í sömu gildru og aðrar Evrópuþjóðir með því að einangra innflytjendur félagslega og halda þeim utanveltu í svörtu hagkerfi. Við þurfum líka að ræða það hvort við hjálpum flóttamönnum best með því að veita þeim heimili hér eða með því að styðja við bakið á þeim nær eigin heimaldandi. Við þurfum að ræða það hvað við getum tekið við mörgum flóttamönnum áður en jarðvegur andúðar og öfga tekur að blómstra hér á landi. Við þurfum að ræða það hvers vegna við höfum fjárhagslegan ávinning af því að senda björgunarskip á Miðjarðarhaf til að bjarga flóttafólki frá drukknun og hvers vegna skipin eru ekki fleiri. Og við þurfum að ræða það hvort við ætlum áfram að leggja nafn okkar við herferðir sem valda ójafnvægi og hörmungum líkt og við gerðum í Írak og Sýrlandi.

En forseti sem hefur smjaðrað fyrir ofsastrúarmönnum á Arabíuskaga og betlað hjá einræðisherrum – hann ætti allra helst að halda sig til hlés í svo viðkvæmri umræðu, eða að minnsta kosti að forðast það að kljúfa þjóðina í fylkingar til þjóna eigin pólitíska metnaði.