20. okt. 2015

Engar nefndir, bara stjórnstöðvar

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa um spillinguna sem virðist einkenna störf atvinnuvegaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna ætla ég frekar að verja nokkrum orðum í að varpa ljósi á vanhæfnina sem hefur einkennt störf hennar á sviði ferðamála það sem af er kjörtímabilinu.

Ráðherrann eyddi fyrri helmingi þessa kjörtímabils í að semja frumvarp um náttúrupassa. Það gerði hún í andstöðu við alla sem höfðu eitthvert vit á málinu, jafnt ferðaþjónustuna, ferðafélög sem náttúruverndarfólk. Hún var ítrekað vöruð við því að málið væri andvana fætt en ráðherrann skellti skollaeyrunum við öllum aðvörunum og ráðleggingum og ákvað þess í stað að leggja í fundarherferð um landið til að sannfæra almenning um ágæti náttúrupassa.

Á sama tíma og ráðherrann þeyttist um landið þá lýsti ég þeirri skoðun minni að náttúrupassinn gæti orðið pólitískur banabiti atvinnuvegaráðherra, enda fól frumvarpið í sér skattahækkun, vöxt hins opinbera og atlögu að ferðafrelsi almennings. Þremur mánuðum seinna kom í ljós að frumvarpið var svo óvinsælt að flokksfélagar atvinnuvegaráðherra komu í veg fyrir að það yrði afgreitt frá atvinnuveganefnd Alþingis.

Nú hálfu ári seinna dregur atvinnuvegaráðherra fram úr erminni enn eitt furðuverkið – Stjórnstöð ferðamála með tíu manna stjórn, þar af fjóra ráðherra, og framkvæmdastjóra af dýrari gerðinni sem þó hefur hvorki reynslu af né þekkingu á ferðamálum. Stjórnstöð þessi á að verða samráðsvettvangur stjórnvalda og ferðaþjónustufyrirtækja sem er ætlað að „leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu.“ Þó var starfandi fyrir á þessu sviði Ferðamálastofa og sérstakt ferðamálaráð með fulltrúum frá sömu aðilum og skipa stjórn Stjórnstöðvarinnar og með nær sama hlutverk. Þannig að atvinnuvegaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur þá tekist það ætlunarverk sitt að þenja út og flækja ríkisreksturinn eins og hún hafði áður ætlað sér með náttúrupassa. Flokkur sem fór í síðustu kosningar undir kjörorðunum „Engar nefndir, bara efndir“ hefur þá breytt áherslum sínum í „Engar nefndir – bara rándýrir ráðgjafar, ríkisforstjórar og stjórnstöðvar“.

Stjórnstöð ferðamála er nefnilega sérkennilega flókin og dýr leið til að nálgast þau viðfangsefni sem blasa við. Það þarf ekki fjölmenna nefnd, fokdýran ríkisforstjóra, fastaráðgjafa Sjálfstæðisfokksins og vafasamt samkrull ríkis og hagsmunaaðila til að laga vanda ferðaþjónustunnar. Lausnirnar blasa við.
Í fyrsta lagi þarf að lagfæra lög um Framkvæmdasjóð ferðamanna þannig að sjóðurinn fjármagni ekki bara helming hvers verkefnis. Þannig hafa margar mikilvægar innviðaframkvæmdir strandað á því að heimamenn geta ekki greitt sinn helming á móti ríkinu og því nýtist fé sjóðsins illa. Þetta á Alþingi að eiga auðvelt með að laga. Einnig mætti auðvelda innviðauppbyggingu með því að láta gistináttagjaldið renna til sveitarfélaga, að fullu eða að hluta.

Í öðru lagi þarf að efla landvörslu í stað þess að skera niður útjöld til hennar eins og ríkisstjórnin hefur gert á sama tíma og ferðamönnum fjölgar. Fjölgun landvarða þarf að haldast í hendur við fjölgun ferðamanna og lengingu ferðamannatímabilsins.

Í þriðja lagi þarf að færa umsjón með þjóðgörðum og friðlýstum svæðum undir eina stofnun í stað þess að dreifa kröftum og þekkingu á þrjár stofnanir eins og nú er gert.

Í fjórða lagi þarf að ljúka sem allra fyrst vinnu við að greina hvar brýnast sé að grípa til aðgerða til verndar náttúru og menningarminjum á vinsælum ferðamannastöðum. Það vekur undrun mína að umhverfisráðherra hóf þá vinnu ekki fyrr en í apríl á þessu ári. Einnig þarf Alþingi að samþykkja sem fyrst frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn sem umhverfisráðherra lagði fram fyrir um ári síðan.

Og í fimmta lagi þarf skattrannsóknarstjóri að taka harðar á skattsvikum í ferðaþjónustunni sem eru líklega talin í milljörðum ár hvert og stjórnvöld þurfa að stöðva kjarasamningsbrot sem munu vera algeng innan greinarinnar.

Við þurfum ekki fleiri nefndir og skýrslur og heldur ekki nýja skatta á greinina sem voru um 27 milljarðar árið 2013. Það þarf bara pólitískan metnað og þor til að takast á við þau verkefni sem blasa við. Því miður hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sóað fyrri helmingi þessa kjörtímabils með illa ígrunduðum ákvörðunum og vanhæfni við stjórn málaflokksins. Furðuverkið Stjórnstöð ferðamála eykur ekki hjá manni bjartsýni á að ríkisstjórnin nái tökum á málaflokknum á þeim skamma tíma sem eftir lifir kjörtímabils.