22. sep. 2015

Geislavirkt leyndarmál heilbrigðisráðherra

Nú hefur RÚV greint frá því að geislavirk spilliefni hafi fallið til við orkuframleiðslu í Reykjanesvirkjun frá því að hún hófst árið 2006 og að því hafi verið haldið leyndu innan Geislavarna ríkisins, HSOrku og heilbrigðisráðuneytisins þar til að fréttastofan komst á snoðir um málið og hóf að leita upplýsinga um það.

Kristján Þór Júlíusson sagði aðspurður að hann sæi ekkert athugavert við að ekki hafi verið greint opinberlega frá þessum geislavirku efnum og að ekki sé „augljóst“ að það hafi verið skylt samkvæmt lögum. 
Fram hefur komið í fjölmiðlum að sérfræðingur Geislavarna ríkisins telji að greina hefði mátt frá málinu fyrr og að ríkt tilefni væri til að rannska það enn frekar til að skoða hvort geislavirkni finnist í öðrum jarðvarmavirkjunum og drykkjavatni. Þá hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja tilkynnt að það ætli að fara fram á rannsókn á drykkjarvatni á svæðinu og Vinnueftirlit ríkisins ætlar að kanna möguleg áhrif á starfsfólk virkjunarinnar.

Það alvarlega í málinu er að þessi krafa um rannsóknir á áhrifum geislavirkninnar kemur ekki fram fyrr en að RÚV greinir frá málinu, enda hafði málinu verið haldið leyndu fram að því. En heilbrigðisráðherra – fulltrúi almennings í stjórnkerfinu – hafði verið upplýstur um málið 22. apríl síðastliðinn. Það gilda lög í landinu um upplýsingarétt um umhverfismál sem ná m.a. yfir ráðherra. Lögin treysta m.a. rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og kveða á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar um umhverfismál. Í 10. gr. laganna segir beinlínis: „… er stjórnvöldum ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra.“ 

Nú er ljóst að heilbrigðisráðherra fór ekki eftir þessum lögum og þá vakna margar spurningar. Á hvaða rökum byggði hann þá ákvörðun sína að upplýsa almenning ekki um málið? Hvaða gögn hafði hann undir höndum þegar hann tók ákvörðun sína og hvað gagna aflaði hann sér? Og nú þegar opinberar stofnanir hafa farið fram á rannsóknir á mögulegum áhrifum geislunarinnar á almenning þá verður heilbrigðisráðherra að svara því hvers vegna hann gerði ekki slíkt hið sama þegar hann var upplýstur um málið fyrir fimm mánuðum síðan. Svörin við þessu eiga að vera til í opinberum skjölum, t.d. fundargerðum, minnisblöðum og bréfum. 

Sérfræðingur Geislavarna ríkisins hitti naglann á höfuðið í viðtali Kastljóss þegar hann sagði: „Það er ekkert eðlilegt að það séu nokkrir menn í samfélaginu, vinir og vildarmenn sem vita þetta.“ Þetta er einmitt kjarni málsins. Það er ekki forstjóra eða ráðherra að ákveða hvort almenningur sé upplýstur um mál sem þessi. Lögin eru skýr hvað það varðar og þar af leiðandi þarf að líta til laga um ráðherraábyrgð sem kveða á um að það varði ráðherraábyrgð „að láta nokkuð ógert, sem heimtað er í lögum, eða verða þess valdur, að slík framkvæmd farist fyrir.“ 

Heilbrigðisráðherra bíður mikið verk að útskýra mál sitt fyrir Alþingi og almenningi.