21. ágú. 2015

Viðreisn, Winston Churchill og Chamberlain

Benedikt Jóhannesson, leiðtogi Viðreisnar, skrifaði nýverið pistil þar sem hann segir að það sem íslensk stjórnmál vanti helst sé nýr frjálslyndur stjórnmálaflokkur sem styður vestræna samvinnu. Ég er sammála honum um að það vanti frjálslynt afl í stjórnmálin, en að slíkur flokkur þurfi að styðja vestræna samvinnu, að því er virðist skilyrðislaust, er ég honum ósammála. Frjálslyndur flokkur sem á að svara kalli nýrra tíma þarf líka að kunna að læra af sögunni.

Pistillinn er í raun langt heróp þar sem Benedikt hvetur til aukinnar hörku í samskiptum Íslands og Rússlands vegna deilunnar um Úkraínu og Krímskaga. Viðhorf Benedikts skín í gegn þegar hann talar um „skælandi ráðamenn“ og „framverði baráttunnar fyrir vestrænum gildum“ – sem „mega aldrei víkjaׅ!“ Og í lokaorðum pistilsins ítrekar Benedikt nauðsyn þess að þjóðin njóta forystu hans sjálfs: „Á Íslandi er þörf fyrir nýjan markaðssinnaðan flokk sem telur að Ísland eigi að halda áfram í þeirri sveit sem þeir hafa verið í allt frá stríðslokum.“

Málfarið bendir ekki til þess á penna haldi mjög frjálsyndur, umburðarlyndur eða víðsýnn maður. Aldrei að víkja! Framverðir í baráttunni! Og höldum áfram að skipa okkur í sömu sveit og við höfum fylgt í blindni frá stríðslokum. Skipum okkur áfram á lista vinaþjóða sem sprengja samfélög aftur á steinöld í ólöglegum árásum á óbreytta borgara. Verum áfram gagnrýnislausir framverðir í baráttunni fyrir vígvæddum heimi þar sem við ungum út einræðisherrum einn daginn og skjótum þá þann næsta. Og í guðs bænum, höldum áfram að ala á ótta, fordómum og fáfræði með því að benda í sífellu á nýjan Hitler. Hitler í Írak, Hitler í Afganistan, Hitler í Líbíu. Og nú – Hitler í Rússlandi.

Þannig ber Benedikt framferði Rússa á Krímskaga saman við aðdraganda síðari heimsstyrjaldar: „Hitler beitti þessum málflutningi ítrekað í aðdraganda stríðsins og alltaf lyppuðust Davíðar og Chamberlainar þess tíma niður til þess að friða ljónið.“ Chamberlain þessi, sem Benedikt talar um á svo niðrandi hátt, var forsætisráðherra Breta í aðdraganda stríðsins og reyndi í lengstu lög að komast hjá nýju stríði, enda var breska þjóðin ekki enn búin að jafna sig á þeim hörmungum sem alþýða manna hafði gengið í gegnum í fyrri heimsstyrjöldinni. Þá mannúðlegu afstöðu kallar Benedikt að „lyppast niður“.

Benedikt þykir þá líklega meira til Winstons Churchill koma, en sá leysti Chamberlain af hólmi þegar Bretar áttuðu sig á að þeir þurftu á sturluðum stríðsæsingamanni að halda í London til að takast á við enn sturlaðri stríðsæsingamann í Berlín. Churchill hefði líklega talist á meðal verstu stjórnmálamanna sögunnar ef örlögin hefðu ekki hagað því þannig að hann fékk heila heimsstyrjöld upp í fangið. Churchill var fordómafullur ofstækismaður sem valdi sér nær alltaf vondan málstað ef hann bauðst. Hann hvatti t.d. oftar en einu sinni til notkunar efnavopna, talaði um yfirburði aríska kynstofnsins, mælti fyrir fangabúðum víða í Afríku, beitti hervaldi gegn óbreyttum borgurum á Írlandi á þriðja áratugnum og lögregluvaldi gegn enskum súffragettum, ber að stórum hluta ábyrgð á hungursneyðinni í Bengal 1943 þar sem þrjár milljónir manna dóu og á sprengjuárásunum á Dresden undir lok síðari heimsstyrjaldar þar sem hálf milljón Þjóðverja var drepin á einum degi, að stærstum hluta flóttamenn, konur og börn.

Staðreyndin er sú að í alþjóðastjórnmálum þarf viðhorf Chamberlains að ráða för í 99,9% tilfella, ekki Churchills. Ímyndum okkur t.d. að Churchillsk viðhorf hefðu ráðið för í Kúbudeilunni eða í Þorskastríðunum. Andi Churchills má því ekki svífa yfir vötnum í deilunni um Úkraínu og Krímskaga nú.

Á Íslandi fylgja flestir stjórnmálaflokkur gagnrýnislausri hundur-í-bandi utanríkisstefnu. Þess vegna tókum við t.d. þátt í hamförunum í Írak og hernaðaraðgerðum í Líbíu sem valda nú mannlegum harmleik flóttamanna við Miðjarðarhaf. Það er nefnilega næfurþunn lína milli þess að vera fastur á prinsippi og þess að vera fullur af hræsni. Því miður virðist hið nýja „frjálslynda“ afl, Viðreisn, ætla að fylgja gamaldags hundur-í-bandi utranríkisstefnu.

Það var meiri reisn yfir Charles Kennedy, leiðtoga Frjálslyndra-demókrata í Bretlandi, sem leiddi andstöðuna við Íraksstríðið 2003. Hann sagði um eigin flokk: „Við erum enginn púðluhundur, en við erum heldur ekki Rottwailer-hundur sem ræðst á aðra eftir skipunum.“ Við þurfum vissulega á nýjum frjálslyndum flokki að halda hér á landi, en það er engin þörf fyrir annan gagnrýnislausan Rottwailer.