22. maí 2015

Samráðshringur orkufyrirtækjanna

Samráðshringir eru eitthvert mesta skaðræði sem samfélög sitja uppi með. Við þekkjum nokkur slík dæmi hér á landi og líklega er samráðshringur olíufélaganna þekktastur þeirra.

Nú sýnist mér vera að skapast jarðvegur fyrir ólöglegt samráð á öðrum orkumarkaði hér á landi – raforkumarkaðnum. Veigamiklar breytingar voru gerðar með nýjum raforkulögum árið 2003 með það að markmiði að skapa virka samkeppni í sölu raforku. Þess vegna geta einstaklingar og fyrirtæki nú fært viðskipti sín á milli raforkufyrirtækja í leit að betra verði.

Þá ber svo við að starfandi eru samtök raforkufyrirtækja sem heita Samorka. Í stjórn þeirra sitja fulltrúar orkufyrirtækjanna, þar á meðal forstjórar fyrirtækja í eigu almennings, þar á meðal Landsvirkjunar og Orkurveitu Reykjavíkur. Á sama tíma og þessi fyrirtæki reyna að mýkja ímynd sína, m.a. með stefnu um samfélagslega ábyrgð, láta þau Samorku um að halda uppi harðskeyttum áróðri fyrir gjörnýtingarstefnu í orkumálum. Framkvæmdastjóri Samorku er sendur í fjölmiðla til að krefjast þess að gengið verði jafnvel enn lengra í virkjanaátt en öfgafullar tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Þannig er samráðshringur orkufyrirtækjanna látinn krefjast þess að Landsvirkjun fái að virkja í Þjórsá, Íslensk vatnsorka í Hagavatni og Orkusalan í Hólmsá. Þetta er svona eins og að Samtök verslunar og þjónustu myndu krefjast þess að Hagkaup fengi ákveðna lóð í Reykjavík og Bónus í Kópavogi eða að olíufélögin kæmu sér saman um skiptingu svæða við hringveginn og krefðust lóða hjá sveitarfélögunum í einum samtökum.

Í 16. grein samkeppnislaga segir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Samkeppniseftirlitið hlýtur því að taka Samorku til sérstakrar skoðunar. Ofangreint dæmi ætti að gefa fullt tilefni til þess, auk þess sem verð á raforku til heimila virðist benda til þess að þar ríki ekki virk samkeppni.

Það er svo tilefni í aðra umræðu að stjórnendur fyrirtækja í almannaeigu skuli beita sér með þessum hætti í hápólitískum deiluefnum. Hvaða umboð hefur t.d. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sem jafnframt er stjórnarformaður Samorku, til að nota áhrifamátt fyrirtækisins til að krefjast þess að Landsvirkjun fái að virkja í neðri hluta Þjórsár í andstöðu við stóran hóp bænda?