4. apr. 2015

Servíettustjórnin

Eitt af því sem við áttum að læra af Hruninu var að efla þyrfti fagmennsku í stjórnsýslunni. Rannsóknarskýrsla Alþingis um bankahrunið nefndi skort á henni sem mein í íslenskum stjórnmálum. Samt sem áður virðast lausatökin og ófaglegheitin aldrei hafa verið meiri en nú. Það er eins og ríkisstjórnin hafi þá einu stefnu sem forsætisráðherra flýgur í hug þann daginn.

Landbúnaðarstefnan virðist t.d. byggja á óljósum hugmyndum forsætisráðherra um veiru sem veldur breytingum á hegðunarmynstri þjóða. Dagdraumar forsætisráðherra um konunglegan arkítektúr í dönskum stíl verða að samþykkt ríkisstjórnar um rándýra viðbyggingu við Alþingishúsið. Hugdetta hans um veghleðslur á Breiðdalsheiði verða að milljóna króna styrk sem enginn sótti um. Svo er ekki langt liðið síðan ríkisstjórnin kastaði fram illa ígrundaðri tillögu að flutningi RARIK og Landhelgisgæslunnar til Skagafjarðar.

Það er eins og forsætisráðherra vakni að morgni með hugmynd í kollinum og hún sé komin inn á borð ríkisstjórnarinnar skömmu síðar – á servíéttu. Hann fór að minnsta kosti í viðtal við RÚV nýverið og sagðist hafa fengið þá hugmynd að það gæti verið sniðugt að ríkið gjörbreytti áformum sínum varðandi uppbyggingu Landspítalans. Það mætti að minnsta kosti reikna það á servíettu hvort það væri eitthvað að marka þessa hugmynd hans. Samt sem áður er bara rétt rúmur mánuður liðinn síðan ríkisstjórnin ákvað að bjóða út verk við uppbyggingu sjúkrahótels á lóðinni. Þannig virðist hugmynd að morgni dags alltaf trompa langtíma stefnumótun í huga forsætisráðherra.

Sök sér þó að ríkisstjórnin komi fram með handahófskenndar tillögur sem flestir geta sagt sér að verða aldrei að veruleika. Eini skaðinn sem af þeim hlýst er aukið vantraust almennings í garð ríkisstjórnar sem mælist nú með 22 prósentustiga minna fylgi en stjórnarandstaðan. En það er verra þegar illa ígrundaðar aðgerðir bitna á lífsviðurværi fólks, eins og t.d. starfsfólki Fiskistofu. Það á betra skilið en að verða fyrir barðinu á servíettustjórnunarstíl ríkisstjórnarinnar.