29. mar. 2015

Græðum á daginn og „grillum komandi kynslóðir“ á kvöldin

Samfylkingin ályktaði réttilega á landsfundi að vinda þyrfti ofan af olíuleit og vinnsluáformum á Drekasvæðinu. Það var með harðfylgi sem vaskir ungir jafnaðarmenn fengu ályktunina samþykkta með miklum meirihluta í andstöðu við flokksforystuna, en varaformaður flokksins og fyrrverandi iðnaðarráðherra reyndi tvívegis að svæfa málið með tillögum um að flokkurinn héldi áfram að ræða það. Flokksforysta Vinstri-grænna beitti sömu aðferð á flokksráðsfundi í fyrra og hafði þá betur gegn unga fólkinu í flokknum.

Að hætta við olíuleit á Drekasvæðinu er hin eina ábyrga afstaða, enda hafa Alþjóðabankinn, Alþjóða orkumálastofnunin, breska Konunglega Vísindaakademían (Royal Society) og Vísindaráð Bandaríkjanna (National Academy of Science) verið afdráttarlaus í viðvörunum sínum um afleiðingar þeirra loftslagsbreytinga sem blasa við verði ekkert að gert. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að þurfa að skilja um 80% af þekktum birgðum jarðefnaeldsneytis eftir í jörðinni til að forða mannkyninu frá ömurlegum afleiðingum öfgakenndra loftslagshlýnunar. Vísindamenn sem hafa sótt okkur heim hafa varað við gríðarlegri áhættu af olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Og íslenskar stofnanir hafa líka varað við mögulegum áhrifum: ,,Svifdýr á Drekasvæðinu eru mikilvæg fæða okkar stærstu nytjastofna (loðna, síld). Hætta er á því að við olíuvinnslu berist klórlífræn mengunarefni út í sjóinn og inn í fæðukeðjuna og hafi varanleg áhrif á viðkomu uppsjávarfiskanna." Samkvæmt nýjustu fréttum er golfstraumurinn að breytast og ísinn á Suðurskautslandinu bráðnar hraðar en áður var talið. Þetta, auk súrnunar sjávar, mun hafa alvarlegar afleiðinar fyrir komandi kynslóðir Íslendinga.

Undir slíkum kringumstæðum þurfum við á alvöru leiðtoga að halda í forsæti en ekki þröngsýnan mann með trúðslæti. Sigmundur Davíð forsætisráðherra segir ályktun Samfylkingarinnar fráleita og að það yrði erfitt að starfa með flokki sem sé kominn svo langt til vinstri. En framtíð lífs á jörðinni hefur lítið með hægri eða vinstri ás stjórnmálanna að gera. Að minnsta kosti hvöttu viðskiptajöfrar til þess á fundi sínum í Davos í janúar að gripið yrði til róttækari aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum. Við sama tilefni lýsti World Economic Forum því yfir að heimsbyggðinni stafaði einna mest ógn af loftslagsbreytingum og framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins orðaði það svo að án aðgerða yrðu komandi kynslóðir steiktar, grillaðar og ristaðar. Af þessum ástæðum hefur Rockefeller-fjölskyldan ákveðið af losa sig við eignir sínar í olíu- og kolaiðnaðinum. Í hugarheimi forsætisráðherra er Rockefeller-fjölskyldan þannig komin „á vinstri kant Vinstri-grænna, ef ekki bara lengra."

Nú þegar Samfylkingin hefur lýst yfir andstöðu við olíuvinnslu á Drekasvæðinu þá verður flokkurinn að útskýra hvernig eigi að vinda ofan af þeim skuldbindingum sem ráðherrar í vinstri stjórninni skrifuðu undir fyrir hönd íslenska ríkisins árið 2013. Ég fæ ekki séð hvernig það verður gert án þess að til komi háar skaðabætur til þeirra fyrirtækja sem fengu leyfi til olíuleitar og olíuvinnslu. Þess vegna hef ég lagt til að stofnaður verði sérstakur kynslóðasjóður með þeim arði sem kann að skapast af vinnslu olíu á Drekasvæðinu í framtíðinni. Það held ég að sé eina raunsæja lausnin út úr þeirri vondu stöðu sem fyrri ríkisstjórnir komu okkur í.

Eldri pistlar um sama efni: