2. feb. 2015

Stóriðjusósíalistarnir í Sjálfstæðisflokknum

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins bera sífellt minna traust til eigin flokks á sviði umhverfismála. Samkvæmt könnun MMR telja einungis 19,8% Sjálfstæðisflokkinn best fallinn til að leiða umhverfismálin, en í sömu könnun segjast 27,3% styðja flokkinn. Þannig að um þriðjungur þeirra sem segjast kjósa flokkinn treystir honum ekki fyrir umhverfismálunum. Traust til flokksins á þessu sviði hefur líklega aldrei verið minna, var á bilinu 26% til 28% á tímabilinu 2011 til 2013, en er nú komið í 20% eins og áður segir.

Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi framgöngu ráðherra og þingmanna flokksins. Ragnheiður Elín atvinnuvegaráðherra stendur í stórræðum þessa dagana og leggur fram frumvarp um náttúrupassa sem dregur úr frelsi almennings til að ferðast um landið, tekur land á Reykjanesi eignarnámi fyrir stóriðju á Suðurnesjum, aðstoðar Landsnet við að fá heimild til að leggja háspennulínu yfir Sprengisand og gerir samninga við stóriðjufyrirtæki um stórfelldar skattaundanþágur. Í sumum þessara mála vinnur ráðherra í beinni andstöðu við afstöðu ferðaþjónustunnar, t.d. varðandi línuna á Sprengisandi og náttúrupassann. Og í öðrum er ráðherra að sækja fé í vasa skattgreiðenda til að styrkja stóriðjuna eins og t.d. í tilfelli Sprengisandslínu. Það nýjasta í þeim efnum hjá ráðherranum er svo frumvarp sem hún hefur í huga að semja um stórfelldan ríkisstuðning við Helguvíkurhöfn. Ráðherrann rökstyður þá hugmynd með því að vísa til þess að Steingrímur J. Sigfússon og Vinstri grænir hafi gert þetta áður í tengslum við fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir á Húsavík. Hún er þannig komin í harðan slag við Steingrím J. um það hvort þeirra er meiri stóriðjusósíalisti.

Hjálmar Gíslason, stofnandi DataMarket (alvöru einkaframtak) skrifaði á facebook þegar fréttir bárust af fyrirhuguðum ríkisstuðningi Ragnheiðar Elínar í Helguvík: ,,Hvernig bjargar maður misráðnum afskiptum sveitarfélags af atvinnuuppbyggingu? Jú, með misráðnum afskiptum Ríkisins! Það þarf alveg sérstakan vilja til að kalla þetta hægri-mennsku." Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, gagnrýndi þessa stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins á svipuðum nótum árið 2013: „Þetta fyrirkomulag í atvinnuuppbygginu hljómar kunnuglega og er nær samblandi af áætlunarbúskap og kjördæmapot en markaðsbúskap."

Það er sama hversu oft Jón Gunnarsson fer í ræðustól Alþingis með vandræðalega þaninn brjóstkassa og kallar aðra þingmenn kommúnista , Sjálfstæðisflokknum tekst ekki að þvo af sér stóriðjusósíalistastimpilinn á meðan hann tekur lönd eignarnámi fyrir stóriðjuna og styrki hana með fé úr vasa almennings.

Eldri pistlar um þetta efni:

Jón, smjörklípan og prófkjörsstyrkir (4.12.2014)
Ríkisstjórn á nýlenduverði (14.11.2013)
Matsfyrirtæki mótfallin álverum 18.11.2013
Ósýnilega höndin í vösum skattgreiðenda (4.11.2013)
Upplýsingabyltingin og pilsfaldakapítalistar (16.7.2013)
Forsætisráðherra, strámenn og álver (3.6.2013)
Kosningaskjálfti og atkvæðakaup (7.3.2013)
Atvinnuvegaráðherra styrkir stóriðjuna (18.2.2013)
Stóriðjulínur borgaðar úr þínum vasa (5.12.2012)
Almenningur greiðir meðlag með stóriðju (2.7.2012)
Hægrimenn og stóriðjustefnan (9.9.2012)
McKinsey dæmir stóriðjustefnuna úr leik (5.11.2012)