10. feb. 2015

Í leit að Angelu Merkel sjálfstæðismanna

Nú er ljóst að sjálfstæðismenn þurfa að taka til í eigin ranni, rétt eins og þýsk skoðanasystkin þeirra gerðu þegar þau völdu Angelu Merkel til að taka við forystu Kristilega demókrataflokksins árið 2000 vegna spillingarmála sem Helmut Kohl og arftaki hans, Wolfgang Schäuble, tengdust.

Ætlaður arftaki Bjarna Benediktssonar hefur þegar vikið af hinu pólitíska sviði vegna lekamálsins svokallaða og mun ekki leiða flokkinn í framtíðinni. Bjarni sjálfur virðist afar mistækur stjórnmálamaður og á slíka fortíð í viðskiptalífinu að hann mun að öllum líkindum ekki leiða Sjálfstæðisflokkinn, þennan gamla forystuflokk í íslenskum stjórnmálum, aftur upp fyrir 30% kjörfylgi.

Forgangsröðun hans í fjármálaráðuneytinu hvílir svo augljóslega á fjárhaglegum hagsmunum og efristéttarvitund að kjósendur munu seint fyrirgefa það. Hann hækkaði matarskattinn, eitthvað sem fyrrverandi formaður flokksins kallaði „rugl", hann hefur hækkað kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu, hann hefur lækkað gjöld á útgerðina og fellt niður auðlegðarskattinn í stað þess að fínstilla hann. Hann efaðist reyndar opinberlega um lögmæti auðlegðarskattsins en var kveðinn í kútinn varðandi það af Hæstarétti.

Bjarni á svo vafasama fortíð í viðskiptalífinu að sjálfstæðismenn sjálfir voru sparir á stuðning við hann í prófkjöri flokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar, en þá hlaut hann einungis 54% atkvæða í fyrsta sæti þó að hann væri einn um að bjóða sig fram til forystu. Þá hafði umræða um þátttöku Bjarna í svonefndu Vafningsmáli verið hávær. Þeir sem voru ákærðir í málinu voru sýknaðir fyrir um ári síðan þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi talið engan vafa leika á því að ásetningur hinna ákærðu hafi verið að misnota aðstöðu sína til umboðssvika.

Vafningsmálið tengdist viðskiptaveldi fjölskyldu Bjarna Benediktssonar sem faðir hans og Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, stýrðu. Fjölskyldan hefur skilið eftir sig slóð gjaldþrota þrátt fyrir háar arðgreiðslur í gegnum tíðina, m.a. 650 milljóna króna gjaldþrot Gildrukletta og 4,3 milljarða gjaldþrot BNT, en þar gegndi Bjarni stjórnarformennsku fram að hruni 2008. Einar, föðurbróður Bjarna, hefur síðan verið til umfjöllunar með reglulegu millibili að undanförnu, t.d. þegar hann færði 170 milljónir af reikningum sínum í Glitni nokkrum dögum áður en bankinn var þjóðnýttur af Seðlabankanum og nýverið dæmdi Hæstiréttur hann fyrir að reyna að komast undan því að greiða skatt af eins milljarðs söluhagnaði.

Einar var svo mættur aftur nýverið til að kaupa hlut Landsbankans í Borgun á undiverði og án útboðs. Viðskiptin voru afar umdeild og stjórnarþingmenn töldu sumir að hefja þyrfti rannsókn á málinu. Markaðurinn nefndi þau verstu viðskipti liðins árs. Á þessum viðskiptum bar Bjarni sjálfur mesta ábyrgð þar sem fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í Landsbankanum í gegnum Bankasýslu ríkisins.

Fleiri mál hafa vakið efasemdir um stjórnsýslu Bjarna í fjármálaráðuneytinu, má þar m.a. nefna misheppnaða skipan formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins, 26 milljarða króna lækkun eiginfjár Seðlabankans til að ná hallalausum fjárlögum og áframhaldandi undanþágur á virðisauka til handa fyrirtækjum sem eru hluti af fjölskylduveldinu. Og nú virðist Bjarni kominn á mjög hálan ís þegar hann tefur fyrir rannsókn á gögnum um eignir Íslendinga í skattaskjólum með því að setja embætti Skattrannsóknarstjóra skilyrði fyrir rannsókninni. Framkvæmd skattalaga á að vera óháð pólitísku valdi og ráðherra má ekki hafa afskipti af skattrannsóknum. Hér virðist því forysta Sjálfstæðisflokksins í annað skipti á skömmum tíma komin út fyrir valdsvið sitt í samskiptum við embættismenn. Það kæmi mér því mjög á óvart ef Umboðsmaður Alþingis hæfi ekki frumkvæðisrannsókn á stjórnsýslu fjármálaráðherra.

Það er í raun með ólíkindum að Bjarna hafi verið treyst fyrir hinu valdamikla starfi fjármálaráðherra, hvers hlutverk er að m.a. að stýra Bankasýslu ríkisins, lagaumgjörð og eftirlit með fjármálamarkaðnum og skattrannsóknum. Svo miklar og réttmætar efasemdir eru uppi um fortíð hans og hæfi til að gegna svo valdamiklu embætti að Sjálfstæðismenn hljóta að vera að leita logandi ljósi að sinni Angelu Merkel.