18. feb. 2015

Finnur, Framsókn og mildin

Það er pínu hlægilegt að vaxandi pirrings skuli nú gæta innan Framsóknarflokksins í garð tilskipana ESB og að þeir vilji nota mildara orðalag þegar þær eru þýddar á íslensku. Það voru jú ráðherrar Framsóknarflokksins sem á sínum tíma þýddu tilskipun sambandsins um samkeppni á raforkumarkaði með eins bókstaflegum hætti og mögulegt var þó svo að skýr undanþáguleið hafi verið fær.

Hugmynd Evrópusambandsins var að raforkufyrirtæki gætu selt orku yfir landamæri og raforkukaupendur högnuðust á samkeppninni. Þessi tilskipun varð að lögum hér á landi árið 2003. Hefði Framsóknarflokkurinn þá fylgt stefnu hins „milda orðalags" þá hefði hann líklega nýtt sér undanþáguákvæði í tilskipuninn fyrir örlítinn og einangraðan raforkumarkað hér á landi. En Framsóknarflokkurinn valdi leið meintrar samkeppni og ég get ekki fundið neina ástæðu fyrir því aðra en þá að hún opnaði nýjan markað fyrir Finn Ingólfsson og félaga. Afleiðingar lagabreytinganna voru þær að Orkuveita Reykjavíkur varð nær gjaldþrota og þurfti að hækka raforkuverð til almennings all verulega. Helgi Þór Ingason, forstjóri OR 2010 til 2011, virðist heldur ekki hafa séð ástæðu til að fara Framsóknarleiðina á raforkumarkaði, en í skýrslu úttektarnefndar um OR árið 2012 sagði hann: „Maður hugsar sitt í þessu. Hvernig samkeppnisumhverfi raforkuframleiðslu hefur verið útfærð á Íslandi. Mér er til efs að þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt og ég er ekki viss um að almenningur græði á því."

Með tilkomu nýju raforkulaganna varð orðfærið á raforkumarkaði svipað og á bankamarkaði eftir einkavæðingu Búnaðarbanka og Landsbanka. Þannig segir í ársskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur árið 2004 að í breytingunum felist mikil tækifæri sem fyrirtækið verði að grípa og stefni því að frekari vexti. Og sömu klíkur tóku sér stöðu á orkumarkaði sem höfðu áður verið fyrirferðamiklar á bankamarkaði, þar á meðal Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason. Finnur Ingólfsson og viðskiptafélagar hans komu inn á þennan markað í gegnum félagið VGK Invest. Það félag varð síðar gjaldþrota og skildi eftir sig rúmlega þriggja milljarða króna skuldir sem ekkert fékkst upp í. VGK Invest átti stóran hlut í Geysi Green Energy (GGE) og síðar Reykjavik Energy Invest (REI). Uppgjör þrotabús GGE lauk í desember síðastliðnum og þá reyndist það skulda 28,5 milljarða en vera eignalaust.

Gísli Marteinn Baldursson fjallaði um REI-málið svokallaða á borgarstjórnarfundi í október 2007 og sagði þá: „Vissi borg­ar­full­trúi Björn Ingi Hrafns­son ekki að með því að samþykkja samrun­ann var hann að láta fjölda millj­arða renna til manna sem hafa stýrt Fram­sókn­ar­flokkn­um und­an­far­in ár." Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins sagði Gísli marga millj­arða renna til fyrr­ver­andi vara­for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, lög­fræðings allra helstu Fram­sókn­artengdu fyr­ir­tækj­anna og for­manns fjár­öfl­un­ar­nefnd­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins. Lögfræðingurinn sem um ræðir er Kristinn Hallgrímsson, en hann hefur m.a. verið lögfræðingur Ólafs Ólafssonar í Samskipum, viðskiptafélaga Finns. Það er vissulega fróðlegt að skoða hvaða hlutverk áhrifamenn í Framsóknarflokknum höfðu í öllu þessu ferli með Finn Ingólfsson í broddi fylkingar.

Eins og þekkt er efnaðist Finnur stórkostlega þegar hann og viðskiptafélagar hans nýttu pólitíska aðstöðu sína til að kaupa Búnaðarbankann við einkavæðingu hans árið 2002 (sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins neitar nú að rannsaka þrátt fyrir ályktun Alþingis þess efnis). Finnur var iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ársins 1999 og hafði þar Árna Magnússon sem aðstoðarmann. Árni Magnússon varð síðar ráðherra en sagði af sér árið 2006 til að taka við starfi hjá Glitni við fjárfestingar í orkuiðnaðinum. Glitnir fjármagnaði síðan að stórum hluta innreið Finns og félaga á orkumarkaðinn. Þegar Árni hætti störfum hjá bankanum árið 2013 með fjölda gjaldþrota á bakinu vildi svo vel til að hann fékk starf hjá Mannviti, en því fyrirtæki stýrir Eyjólfur Árni Rafnsson. Sá er viðskiptafélagi Finns og var m.a. stjórnarformaður GGE á tímabili, sat í stjórn VGK Invest með Finni, græddi vel á Kárahnjúkavirkjun sem Finnur átti stóran þátt í að koma á koppinn og hefur verið í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Suðvesturkjördæmi. Ætlunin var að gera GGE og VGK Invest milljarða virði með sameiningu við REI, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Þá kom það í hlut Björns Ingi Hrafnssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og fyrrverandi aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, að liðka fyrir málum. Sem varaformaður stjórnar OR og formaður stjórnar REI beitti hann sér fyrir samningum sem hefðu aukið verðmæti fyrirtækja Finns gríðarlega, m.a. með því að láta Orkuveituna leggja 4-6 milljarða inn í sameinað REI.

Finnur hafði einnig komið sér upp traustum tengslum inn í stjórnsýsluna í gegnum Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóra Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins (nú atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti) og gamlan skólabróður. Kristján var ráðinn skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu þegar Halldór Ásgrímsson, helsti bandamaður Finns í stjórnmálum, var sjávarútvegsráðherra og Finnur þar aðstoðarmaður. Kristján fluttist til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um mitt ár 1999 þegar Finnur var þar ráðherra, var settur ráðuneytisstjóri 2003 og skipaður ráðuneytisstjóri 2005 án þess að staðan væri auglýst (Fréttablaðið 17.2.2006). Annar embættismaður kærði skipunina á sínum tíma og fékk miskabætur úr ríkissjóði. Það var Valgerður Sverrisdóttir, pólitískur bandamaður Finns, sem veitti Kristjáni þessa stöðuhækkun og aðstoðarmaður hennar á þeim tíma var Páll Magnússon, bróðir Árna. Finnur hætti þátttöku í stjórnmálum árið 1999 en keypti Búnaðarbankann í mjög umdeildri einkavæðingu árið 2002 sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið undirbjó. Tengsl þeirra Finns og Kristjáns ná út fyrir stjórnarráðið því að þeir áttu báðir hlut í jörðinni Innri-Kóngsbakka í Helgafellssveit og samkvæmt tengslavefnum Rel 8 var Eyjólfur Árni hjá Mannviti líka í þeim hópi. Ráðuneytisstjórinn tengist fleiri eignarhaldsfélögum samkvæmt upplýsingum Rel 8, þar á meðal Bolmagni ehf, en tilgangur félagsins er skráður alhliða fjárfestingar- og fjármálastarfsemi. Meðal annarra eigenda er Finnur Ingólfsson og Hrólfur Ölvisson. Sá síðastnefndi hefur verið framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins frá árinu 2010.

Finnur Ingólfsson fyrir miðju og Kristján Skarphéðinsson til vinstri. Myndin er fengin af vef hestabús í eigu Finns.
Með þessu tengslaneti tókst Finni og öðrum áhrifamönnum innan Framsóknarflokksins að hafa tök á öllu kerfinu og efnast stórkostlega á því. Mikið hefði nú verið gott ef fulltrúar Framsóknarflokksins hefðu byrjað á því að tala um mildari innleiðingu tilskipana ESB fyrir rúmum áratug. Þá hefði mátt koma í veg fyrir að ný raforkulög leiddu til gjaldþrots Orkuveitu Reykjavíkur og mikillar hækkunar á raforkuverði til almennings. En þá væru Finnur og félagar líklega einhverjum krónum fátækari.