6. jan. 2015

Snúningshurðin milli stjórnmála og fjármálakerfisins

Útistöður Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar árin 2009 til 2013, reyndist vel skrifuð, áhugaverð og upplýsandi. Hún var meira að segja fyndin eða grátbrosleg á köflum, t.d. þar sem fjallað var um hégóma þingmanna, sér í lagi þáverandi þingforseta. Eini löstur bókarinnar er að mínum dómi þegar hún dansar á mörkum þess að vera rætin, t.d. þegar lesandinn er upplýstur um það hversu margar léttvínsflöskur voru á borðum þar sem höfundur var gestkomandi. En á heildina litið virðist Margrét hafa náð að stíga nægilega langt inn í hringiðu íslenskra stjórnmála án þess þó að fórna hugsanagangi utangarðsmannsins til þess að geta skrifað stórfróðlega bók um vinnubrögð Alþingis.

Umfjöllun Margrétar um svonefnd Árna Páls lög var til að mynda sérlega áhugaverð, en samkvæmt þeim átti að setja Seðlabankavexti afturvirkt á gengislánin sem dæmd höfðu verið ólögleg í stað þess að láta umsamda vexti gilda. Þetta var gríðarlega ósanngjarnt gagnvart þeim sem tekið höfðu gengislán, enda höfðu Seðlabankavextir verið á svipuðu róli og yfirdráttarvextir í nokkur ár. Sögðu sumir að lögin myndu eingöngu vernda bankana á kostnaði lántakenda. Þau voru engu að síður samþykkt á Alþingi í miklu tímahraki skömmu fyrir jól 2010. Þingmanni Vinstri-grænna var falið að keyra málið í gegnum viðskiptanefnd Alþingis, en maki hans reyndist vera lögmaður fjármálafyrirtækisins Lýsingar í dómsmálum um gengistryggð lán. Rétt eins og margir settu spurningamerki við hæfi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins í olíuverðsamráðsmálinu á sínum tíma, en hann var þá maki forstjóra olíufélags, þá var full ástæða til að draga í efa hæfi þingmanns VG til þessara verka.

Rúsínan í pylsuendanum í frásögn Margrétar af þessu máli var þegar hún rifjaði upp fund hennar, Eyglóar Harðardóttur og Árna Páls Árnasonar þar sem þær kröfðu viðskiptaráðherra um betri útreikninga og útskýringar á frumvarpinu. Þar segir m.a.: ,,Eftir nokkrar viðræður játaði ráðherrann að hann skildi þetta ekki almennilega heldur og hringdi í ráðgjafa sinn í málinu, Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing sem hafði verið framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs Landsbankans og starfar nú hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Hann hafði unnið ýmis ráðgjafastörf í félagsmálaráðuneytinu á meðan Árni Páll var þar og reyndist nú vera einn helsti heilinn á bak við þetta ,,snilldarfrumvarp" Árna Páls. Árni Páll rétti okkur símann; við Eygló dembdum á hann spurningum og hann reyndi að útskýra dæmið fyrir okkur."

Í þessum stutta kafla bókarinnar fáum við dæmi um tvo af helstu göllum stjórnmálanna, annars vegar flækjustigið í frumvörpum sem gerir alla umræðu ómarkvissa og hins vegar snúningshurðina (e. revolving door) milli stjórnmála og fjármálakerfisins. Elizabeth Warren, sá bandaríski þingmaður sem hefur tekið hvað harðast á fjármálakerfinu vestra, skrifar í bók sinni, A Fighting Chance, að hún hafi fljótlega áttað sig á því hvers vegna bankarnir virtust ósigrandi innan veggja bandaríska þingsins. Fyrir utan bein fjárframlög fyrirtækja til þingmanna þá hafi fjármálafyrirtækin beitt öðrum aðferðum: ,,Umbætur í efnahagskerfinu voru margslungnar og þeir sem gættu hagsmuna bankanna (e. lobbyists) beittu klókindum. Þeir létu flókin rök dynja á þingmönnum með óskýrum hugtökum og í hvert sinn sem reynt var að andmæla eða gagnrýna málflutning þeirra þá útskýrðu þeir fyrir þingheimi að þrátt fyrir að athugasemdir einstakra þingmanna hljómuðu sannfærandi þá hefðu þeir engan skilning á því hversu flókið fjármálakerfið væri í raun. Og hafið í huga að talsmenn bankakerfisins sögðu við gagnrýna þingmenn: Ef þú reynist hafa rangt fyrir þér þá muntu rústa öllu hagkerfinu. Þetta var hinn fullkomni innherjaleikur - treystu okkur af því að við skiljum kerfið en ekki þú." Svonefnd Árna Páls lög virðast hafa runnið í gegnum Alþingi með þessum hætti. Þingmenn stjórnarflokkanna, þó sér í lagi ráðherrar, lögðu traust sitt á fulltrúa fjármálakerfisins. Lögin voru engu að síður dæmd ólögleg að hluta í október 2012 og það sem eftir var af trausti almennings til ríkisstjórnar Samfylkingar og VG fuðraði upp. (Capacent mældi fylgi ríkisstjórnarinnar 34% í október 2012 en 24% í janúar 2013).

Hinn megin gallinn við stjórnmálin um þessar mundir er snúningshurðin milli stjórnmála og fjármálakerfisins. Áðurnefnd Elizabeth Warren fjallaði um snúningshurðina milli Washington og Wall Street í nýlegri ræðu á bandaríska þinginu. Þar gagnrýndi hún m.a. forseta Bandaríkjanna, flokksbróður sinn úr Demókrataflokknum, fyrir að sækja of marga innan úr fjármálakerfinu til að gegna störfum ráðherra og ráðgjafa í bandaríska stjórnkerfinu. Þessi snúningshurð hefur einnig verið brúkuð hér á landi eins og greinilega kemur fram í áðurnefndri frásögn íÚtistöðum. Þannig gegndi nefndur ráðgjafi Árna Páls áður stöðu framkvæmdastjóra Verðbréfasviðs Landsbankans og nú gegnir hann stöðu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG gerði einnig Gylfa Magnússon að efnahags- og viðskiptaráðherra, en hann hafði m.a. setið í stjórn Samtaka fjárfesta árin 2001 til 2007. Gylfi þurfti síðan að segja af sér ráðherradómi vegna svara sem hann veitti Alþingi er vörðuðu málefni fjármálakerfisins. Snúningshurðin veitir stjórnvöldum nefnilega ekki bara aðgang að þekkingu innan úr fjármálakerfinu eins og sumir stjórnmálamenn virðast halda. Hagsmunagæsla, klíkuskapur og þröngsýni geta líka fylgt með í kaupunum.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórnartaumunum settist einn af innherjum fjármálakerfisins í stól fjármálaráðherra. Fjármálakerfið hefur því öðlast full tök á leiknum. Umræddur ráðherra tengist nokkrum verulega misheppnuðum fjármálagerningum góðærisáranna sterkum böndum, þar á meðalrúmlega 4 milljarða króna gjaldþroti BNT og hinu makalausa Vafningsmáli. Á þeim skamma tíma sem hann hefur setið í fjármálaráðuneytinu hafa vafasöm mál skotið upp kollinum, m.a. kaup skyldmenna hans á ríkiseignum og skipun formanns Fjármálaeftirlitsins sem þurfti síðar að segja af sér vegna afar umdeildra viðskipta með hlutabréf. Samkrull stjórnvalda og fjármálakerfisins virðist nú komið á það stig að hugtakið snúningshurð nær ekki að lýsa því. Líklega væri nær að tala um flóðgátt í þeim efnum.