26. sep. 2012

Virkjanir og verðbólga

Mynd úr skýrslu Íslandsbanka sem sýnir þróun orkuframleiðslu 1976-2011. Ég hef bætt rauðum punkti við efst til hægri, en hann sýnir mögulega orkuframleiðslu árið 2015 samkvæmt forsendum bankans.
Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið í útvarpsviðtali að þjóðin hefði ekki efni á afturhaldssamri orkunýtingarstefnu. Nú veit ég ekki hvað hann á nákvæmlega við með orðinu afturhaldssöm, en ef það er einhver þjóð sem hefur efni á því að draga úr aukningu orkuframleiðslu þá eru það Íslendingar. Í nýlegri skýrslu Orkustofnunar er gerður samanburður á raforkuframleiðslu ríkja í MWst per íbúa árið 2011. Svona er staðan:

Þýskaland 6,7
Japan 7,9
Bandaríkin 13,3
Finnland 16
Noregur 26,5
Ísland 53,9

Það kemst engin þjóð í hálfkvist við okkur í raforkuframleiðslu. Svo halda sumir stjórnmálamenn því fram að við höfum ekki efni á að hægja á í virkjanamálum. Fyrir utan þetta framleiðum við með fiskveiðum tíu sinnum meira af próteini en við neytum og hingað koma ferðamenn á hverju ári sem eru tvöfalt fleiri en þjóðin. Það að við höfum ekki efni á einhverju stafar ekki af skorti á nýtingu auðlinda. Orsakir fátæktar eruð aðrar, t.d. gríðarlegar skuldir orkufyrirtækja og að þjóðin hefur ekki fengið eðlilegan arð af auðlindunum, hvorki orku né fiski. En það þjónar hagsmunum ákveðinna afla að telja þjóðinni trú um að hana bráðvanti skyndilausn, helst í formi virkjana og álvera. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, orðaði það svo í Bítinu á Bylgjunni nýverið:,,Það er engin þjóð sem hefur efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar." Þegar hann var spurður að því hverju stóriðjan skilaði í þjóðarbúið og hvort erlend stóriðjufyrirtæki hirtu ekki gróðann sagði Jón: ,,Nei, Kolla, þetta er bara grundvallaratriði. Það þarf engar frekari skýringar við. Þetta liggur í augum uppi eins og mynd fyrir framan okkur að það er kallað eftir erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi." Traustvekjandi?

Ég held þvert á móti að þjóðin hafi ekki efni á áframhaldandi stóriðjustefnu og ég óttast mjög áhrif þeirrar stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar af mikilli ákefð nú þegar styttist í kosningar. Hún er uppskrift að efnahagslegum óstöðugleika, aukinni skuldsetningu hagkerfisins og mikilli verðbólgu. Raforkumframleiðsla hér á landi jókst um 124% frá árinu 2000 til 2011. Á nokkurra ára tímabili var fjárfest í Kárahnjúkavirkjun, Hellisheiðavirkjun og Reykjanesvirkjun upp á um 220 milljarða króna, að langmestu leyti með lánum. Fyrir þetta greiddi almenningur með óhóflegri styrkingu krónunnar, hækkun vaxta og efnahagsbólu.

Íslandsbanki hefur birt fróðlega skýrslu með yfirliti yfir fjórtán virkjanakosti sem bankinn telur að geti komist til framkvæmda á árunum 2012-2015 og muni auka orkuframleiðslu um rúm 42%. Flestar þessara virkjana eru á útboðshönnunarstigi og bankinn fullyrðir að hægt sé að ráðast í verkefnin með stuttum fyrirvara svo fremi sem kaupandi að orkunni sé til staðar. (Reyndar er Landsvirkjun að hefja framkvæmdir við jarðhitavirkjun við Mývatn án þess að hafa tryggt sér kaupanda að orkunni). Bankinn áætlar að þetta kalli á yfir 300 milljarða króna fjárfestingu! Þar að auki ætli Landsnet í 75 milljarða fjárfestingu fram til ársins 2020 í tengslum við nýjar virkjanir.

Skýrsla Íslandsbanka er uppskrift að óðaverðbólgu og þar af leiðandi miklum hækkunum á verðtryggðum skuldum almennings. Á því græða bankarnir, svona eins og 1,6 milljarða á hvert verðbólguprósent. Líklega var það ein af ástæðunum fyrir því að Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason hvöttu mjög til þess í árslok 2008 að ráðist yrði samtímis í stóriðjuframkvæmdir í Helguvík og á Bakka.

Núverandi auðlindagrunnur efnahagslífsins er miklu meira en nógu stór. Enda bendir fólk með mikla og góða reynslu úr atvinnulífinu á að drífa þurfi hagvöxt áfram með öðru en aukinni auðlindanýtingu. Skýrsla Íslandsbanka og stefna Sjálfstæðisflokksins eru ávísanir á efnahagslegan óstöðugleika. Við þurfum að vara okkur á stjórnmálamönnum sem virðast ekki kunna annað en að stíga bensínið í botn og keyra með okkur öll fram af hverju hengifluginu á fætur öðru. Nú þurfum við á stjórnmálamönnum að halda sem þora að standa á bremsunni, eða eins og Guðmundur Andri Thorsson orðaði það nýverið: ,,Varfærna, búralega, tortryggna, trausta íhaldsmenn sem eru á móti flumbrugangi og skyndigróðabralli en vilja halda í það sem er gott, rækta það og varðveita, fara fetið."