17. okt. 2012

Lögfræðingur forsætisráðherra í virkjanamálum

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í vikunni að það væri óþarfi að amast við framkvæmdum Landsvirkjunar við Mývatn og allt væri í samræmi við reglur. Jóhanna hefur sýnt umhverfismálum algjört áhugaleysi í gegnum tíðina. Þannig lét hún t.d. Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sitja í verkefnisstjórn rammaáætlunar fyrir sína hönd. Ég leyfi mér að efast um að forsætisráðherra hafi kynnt sér tíu ára gamalt og gallað umhverfismat virkjunarinnar, verndaráætlun Mývatns eða nýja umsögn Umhverfisstofnunar áður en hún fullyrti af fullkomnu kæruleysi úr ræðustól Alþingis að það væri óþarfi að ,,amast" við framkvæmdum Landsvirkjunar við Mývatns.

Á sömu nótum talaði Bryndís Hlöðversdóttir, flokkssystir forsætisráðherra, núverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar og fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Hún sagði í viðtali að framkvæmdir við virkjanir í Bjarnarflagi væru í fullu samræmi við lög og reglur og lét þar við sitja.

Í báðum tilfellum var um útúrsnúning að ræða. Því hefur ekki verið haldið fram að lög hafi verið brotin. Einungis hefur verið bent á að gloppur í skipulagslögum hafi verið notaðar til að hefja framkvæmdir við Mývatn áður en endanlegt framkvæmdaleyfi, virkjanaleyfi og starfsleyfi hafa verið gefin út og áður en rammaáætlun hefur verið samþykkt á Alþingi. Mest áhersla hefur verið lögð á að framkvæmdirnar byggi á tíu ára gömlu umhverfismati sem taki ekki nægilegt tillit til þeirrar reynslu sem hefur fengist af rekstri jarðvarmavirkjana á þeim tíma, þar á meðal mengunar frá affallsvatni og brennisteinsvetnis.

Stjórnmálamenn af gamla skólanum eru gjarnir á að nota útúrsnúninga eins og þá sem Jóhanna og Bryndís beittu. Ótal oft hafa lélegar, jafnvel siðlausar, ákvarðanir verið réttlættar með því að þær séu löglegar.

Mér lék forvitni á að vita hvaðan upplýsingar forsætisráðherra og stjórnarformanns Landsvirkjunar um lögmæti framkvæmdanna væru komnar. Þess vegna fór ég inn á heimasíðu Landsvirkjunar og komst þar að því að yfirlögfræðingur Landsvirkjunar er Jón Sveinsson, fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar fyrir hönd Framsóknarflokksins. Sá hinn sami og stýrði m.a. einkavæðingu Símans og sölu á ÍAV sem síðar var dæmd ólögmæt í hæstarétti. Í því tilfelli hafði Jón setið í stjórn ÍAV fyrir hönd ríkisins og lögmannsstofa Jóns hafði líka starfað um árabil fyrir ÍAV. Því hafði Jón mikla viðskiptahagsmuni af því hver eignaðist ráðandi hlut í fyrirtækinu þegar það yrði einkavætt. Samt var Jón látinn annast kynningu á ÍAV í söluferlinu þar sem hann er meðal annars talinn hafa vanmetið land í eigu fyrirtækisins um milljarða króna. Fyrirtækið endaði að lokum í höndum hóps sem skipaði Jón stjórnarformann. (Sjá umfjöllun DV og 24stunda).

Nú er þessi sami Jón orðinn yfirlögfræðingur Landsvirkjunar og að því er virðist einn helsti lögfræðiráðgjafi Samfylkingarinnar í virkjanamálum. Er nema von að Róbert Marshall hafi ekki talið sig eiga samleið með flokknum lengur?