20. nóv. 2014

Þjóð í lýðræðislegu vistarbandi

Nýlegar fréttir segja að ríkisstjórnin bæti við sig fylgi og að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins myndi fjölga yrði nú gengið til kosninga. Það er ein leið til að lýsa veruleikanum. Önnur leið er að benda á að í þeirri könnun sem fréttirnar byggja á var hringt í 800 manns og af þeim sögðust einungis 208 styðja ríkisstjórnarflokkana, eða 26%. 31% styður stjórnarandstöðuflokkana en flestir, eða 43%, sögðust ekki styðja flokk, ætla að skila auðu eða neituðu að svara. Sú fyrirsögn sem lýsti þessu ástandi best að mínum dómi væri líklega: „Fulltrúalýðræði í krísu.“

Aðrar skoðanakannanir undirstrika þetta, t.d. kannanir MMR um traust í samfélaginu. Fulltrúalýðræðið byggir jú á trausti - viðurkenningu á valdi eins yfir öðrum. Við verðum því að treysta þeim sem við kjósum á fjögurra ára fresti. En einungis rúm 17% segjast nú bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar og 12,8% bera mikið traust til Alþingis. Traustið - forsendan fyrir valdaframsalinu - er því brostið. Sagði einhver: „Fulltrúalýðræði í krísu“?

Þingmenn og ráðherrar sem neita að horfast í augu við þennan veruleika nefna það gjarnan að hér hafi nýlega farið fram Alþingiskosningar. Að þar með hafi þeir fengið umboð til að fara sínu fram. Þannig sé díllinn. En kjósendur eru ekki lengur sáttir við þetta fyrirkomulag. Gott dæmi um það er Óli Palli, útvarpsmaður á RÚV, sem birti eftirfarandi játningu á facebook nýverið: „Það er fávitum eins og mér að kenna að svona rugludallar ... eru við völd á Íslandi í dag. Mér var lofað að stökkbreytta húsnæðislánið mitt yrði leiðrétt og ÞESS VEGNA KAUS ÉG FRAMSÓKNARFLOKKINN í síðustu konsningum! ... Fari ég og önnur fífl í rassgat!“ Þannig skrifar fórnarlamb fulltrúalýðræðis í krísu.

Fulltrúalýðræði með fjögurra ára kjörtímabil er úreld hugmynd. Þetta er aðferð sem við höfum notað í nær heila öld, eða frá árinu 1919. Við getum líka kallað þetta samfélagslegan ávana sem hefur nú breyst í ósið. Við gætum rétt eins reynt að bjóða upp á súrmat í mötuneytunum þrjá daga vikunnar, mælt vegalengdir í dagleiðum eða skrifað á skinn í stað þess að senda snapchat. Eitt x á fjögurra ára fresti dugar ekki lengur. Það er of fábrotin leið til tjáningar á upplýsingaöld. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, orðaði það svo í bókinni Íslensk þjóðfélagsþróun 1880-1990: „Kosningar eru að mörgu leyti ófullkomin aðferð við að tjá óskir kjósenda. Tækifærið til að skrifa einn kross inn á atkvæðaseðil með reglulegu millibili, er fremur fátæklegt tjáningarform.“ Með þessu móti er samband kjósenda og fulltrúa þeirra í sjálfskipaðri krísu.

Hugsum aðeins um samband þingmanns og kjósanda sem samband tveggja einstaklinga. Því hvað er samband þeirra annað en bara það? Úr orðum Óla Palla og vilja almennings eins og hann birtist í skoðanakönnunum má álykta að kjósendur upplifi sig blekkta í þetta fjögurra ára langa samband. Þannig breytist sambandið mjög fljótt úr fulltrúalýðræði í lýðræðislegt vistarband, þvingað samband eins einstaklings við annan. Óhjákvæmilega kemur að því að sambandið reynist svo skaddað að það er ekki hægt að laga. Ekkert traust reynist lengur til staðar, eða bara 12,8% traust eins og könnun MMR leiðir í ljós. Skilnaður reynist þá betri leið en áframhaldandi samband.

Með sama áframhaldi breytist x-ið á kjörseðlinum í kross á leiði fulltrúalýðræðisins. Eina leiðin til að lýðræðið lifi áfram er að það þróist í takt við tímann og tæknina. Þannig geta kjósendur t.d. ekki sætt sig við 82% mun á vægi atkvæða milli kjördæma, að atkvæði 22.295 kjósenda féllu dauð í síðustu kosningum eða að ríkisstjórn með einungis 51% greiddra atkvæða, eða 40% stuðning fólks á kosningaaldri, skuli leggja í mjög umdeildar breytingar á samfélaginu. Breytingar sem nú virðast einungis njóta stuðnings 25% kjósenda samkvæmt könnunum. Almenningur verður að fá alvöru lýðræðisverkfæri í hendurnar. Í Alþingiskosningum ætti að bjóða kjósendum upp á fyrsta og annað val til að minnka líkurnar á því að atkvæði falli dauð. Fólkið í landinu verður að geta krafist kosninga um umdeild mál, það verður að auka möguleikann á að kjósa fólk en ekki flokka og kjósendur ættu að geta krafist almennra kosninga um vantraust á einstaka þingmenn og ráðherra.

Við sættum okkur ekki lengur við aldargamlar leikreglur. Tími lýðræðislegra vistarbanda er liðinn.