24. nóv. 2014

Forsætisráðherra, drullusokkar og væluskjóður

Forsætisráðherra hefur kveinkað sér undan umræðunni að undanförnu með hefðbundnum hætti. Nú segir hann að það þurfi að eyða „hatrinu" sem einkennir umræðu eftirhrunsáranna og að þjóðin ætti að temja sér að ræða samfélagsmálin af yfirvegun og með rökum. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann: „Ég held að það sé ástæða fyrir alla til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Hún er auðvitað afleiðing af ákveðnum tíðaranda sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár." Þá sagði forsætisráðherra á fundi Framsóknarflokksins um helgina að umræðan hefði „líklega sjaldan eða aldrei náð því marki sem við sjáum nú." Neikvæðni og heift hefðu fengið meiri athygli en eðlilegt gæti talist og því væri tíðarandinn slíkur að þessi „brenglaða sýn" næði athyglinni og gæfi tóninn fyrir umræðuna.

Brengluð sýn og hatur. Það er eins og að forsætisráðherra hafi brugðið upp spegli og séð sjálfan sig og eigin málflutning í gegnum tíðina. Því það er ekki eins og forsætisráðherra hafi úr háum söðli að detta, hann er ekki Aristóteles endurfæddur eða Móðir Teresa þjóðmálaumræðunnar.

Agnar Kristján Þorsteinsson birti fróðlegan pistil árið 2012 um umræðuhefð Sigmundar Davíðs sem var þá í stjórnarandstöðu. Þá var hann svo yfirvegaður að hann líkti málflutningi ríkisstjórnarinnar við kommúnista millistríðsáranna, hann var svo jákvæður að hann sagði Ísland minna orðið á Austur-Þýskaland, hann var svo rökfastur að hann setti valdatöku kommúnista í Ungverjalandi í samhengi við stjórnlagaráð og hann var svo ákveðinn í að auka trú á framtíð landsins að hann setti samansemmerki milli stjórnarskrársákvæðis um þjóðareign á auðlindum og stefnu Sovétríkjanna. Og hatur og brengluð sýn var auðvitað víðsfjarri þegar hann sakaði fjölmiðla um McCarthy-isma. Þessi sami Sigmundur virðist nú kunna þá ræðu eina að þjóðfélagsumræðan sé ósanngjörn og skorti yfirvegun og rök! Það er þetta með bjálkann og flísina.

Og af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér ummæli föðurs forsætisráðherra semuppnefnir fólk drullusokka og væluskjóður. Það er þetta með eplið og eikina.