18. nóv. 2014

Alþingi rannsaki ráðherra og ráðuneyti

Með því að játa á sig lekann úr dómsmálaráðuneytinu kom fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra í veg fyrir að ráðherra, lögreglustjóri og embættismenn dómsmálaráðuneytisins þyrftu að svara mikilvægum spurningum í sakamáli á hendur honum. Þá hefði eflaust reynt verulega á hæfileika sumra til að segja satt og rétt frá, enda segir í 142. gr. almennra hegningarlaga að hver sem skýri rangt frá einhverju fyrir rétti skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum.

Frá því að Gísli játaði á sig sök hafa margar spurningar vaknað. Hvað vissu fyrrverandi dómsmálaráðherra og embættismenn dómsmálaráðuneytisins t.d. um lekann? Áttu embættismenn þátt í að semja svör ráðherra til Alþingis þar sem eðlilegum spurningum Alþingismanna var svarað af fyrirlitningu og hroka? Hver er þáttur núverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í málinu? Hvers vegna er misræmi í frásögn aðstoðarmannsins og ráðherrans af málinu? Hvers vegna vildi ráðherra ekki að lögregla rannsakaði tölvu aðstoðarmannsins? Var það rétt sem ráðherrann fullyrti í Kastljósi að lögfræðingar ráðuneytisins hefðu talið óhætt fyrir hana að hafa afskipti af rannsókn lögreglu á lekanum? Getur ráðherra sett heilt ráðuneyti í upplýsingabann? Greiddi ráðuneytið fyrrverandi hæstaréttardómara fyrir að reka mál ráðherrans í fjölmiðlum? Hvaða mistök voru gerð í innanhússrannsókn rekstrarfélags stjórnarráðsins á tölvum ráðuneytisins, en hún hreinsaði aðstoðarmanninn ranglega af sök? Og fylgir því engin refsing að handhafi framkvæmdavalds reyni að varpa sök á saklaust fólk eins og t.d. starfsfólk rauða krossins og ræstingafólk og öryggisverði innanríkisráðuneytisins?

Öllum þessum spurningum þarf að svara til að veikar stoðir stjórnkerfisins fúni ekki enn frekar. Æðstu stofnanir dóms- og löggæsluvaldsins í landinu mega ekki liggja undir grun um að starfa á gráu svæði eða að hafa ekki taumhald á vanhæfum stjórnmálamönnum eða spilltum aðstoðarmönnum þeirra. Lögbrot eiga ekki að fá að þrífast í efstu lögum stjórnkerfisins án þess að öllum steinum sé velt við til að fá sannleikann fram í dagsljósið. Og nú þegar ljóst er orðið að enginn kemur eiðsvarinn fyrir dómstóla vegna málsins þá er bara ein leið fær. Alþingi verður að stofna rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 68 frá 2011. Slík nefnd hefði mjög ríkar heimildir til að komast til botns í lekamálinu og rannsaka mögulegan þátt ráðherra og embættismanna í því. Í lögunum segir m.a. að sérhverjum sé skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að láta í té gögn og upplýsingar sem hún fer fram á þótt þær séu háðar þagnarskyldu, þar á meðal minnisblöð og álit sérfræðinga. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra. Einnig getur nefndin kallað einstaklinga til skýrslugjafar og notið liðsinnis héraðsdómara við að draga fólk fyrir dóm til að bera vitni.

Þetta er hin eina færa leið sé ætlunin að byggja upp traust almennings á ráðuneytum og stofnunum ríkisins.