5. maí 2014

Sýknað fyrir ensk Gálgahraunsmótmæli

Ég hef fylgst spenntur með tvennum málaferlum upp á síðkastið. Um er að ræða prófstein á lýðræðisleg réttindi almennings - réttinn til að mótmæla - annars vegar hér á landi og hins vegar í Englandi.

Hér voru níu Hraunavinir, allir með hreint sakavottorð, ákærðir fyrir friðsöm mótmæli gegn vegagerð í Gálgahrauni í október síðastliðnum og í Englandi voru fimm breskir náttúruverndarsinnar kærðir fyrir að mótmæla fyrirhugaðri gasvinnslu með svonefndri fracking-aðferð í Sussex í ágúst. Í báðum tilfellum höfðu mótmælendurnir tekið sér stöðu á vinnusvæði til að mótmæla fyrirhuguðum framkvæmdum.

Það sem gerir samanburðinn á þessum málum sérstaklega áhugaverðan er að í báðum tilfellum tóku þjóðþekktir einstaklingar þátt í mótmælunum og ákærurnar byggja á sömu forsendum. Í Bretlandi var ákært fyrir lokun vegar í óleyfi og fyrir brot á 14. gr. laga um á reglu á almannafæri (e. Public Order Act), en lagagreinin færir lögreglunni vald til að skipa mótmælendum að takmarka mótmæli við ákveðið svæði, halda fjölda þeirra í skefjum og skipa til um hvenær mótmælum ber að ljúka. Meðal hinna ákærðu var Caroline Lucas, fyrsti og eini þingmaður breskra græningja.

Nú hefur breskur dómstóll sýknað mótmælendurna af ákæru lögreglu og þannig styrkt rétt almennings til friðsamra mótmæla.

Hér á landi hefur enn ekki verið dæmt í máli mótmælendanna í Gálgahrauni. Þeim er gefið að sök að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa vinnusvæði og þannig brotið 19. gr. lögreglulaga sem hljóðar svo: ,,Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri." Það verður fróðlegt að sjá hvort íslenskir dómarar túlki þessa grein með þeim hætti að lögregla hafi nær takmarkalausa heimild til að stöðva friðsöm mótmæli. Ég var í Gálgahrauni 21. október og fylgdist með framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum. Það sem kom mér einna mest á óvart var að horfa upp á einstaka lögreglumenn ganga í verk starfsmanna Íslenskra aðalverktaka þar sem þeir færðu til merkingar um vinnusvæði svo að mótmælendur urðu skyndilega innan þeirra. Mótmælendur sem höfðu orðið við fyrirmælum lögreglu um að víkja út fyrir vinnusvæði voru þannig trekk í trekk færðir inn fyrir það aftur. Þessi eini ágalli af mörgum í framgöngu lögreglu í Gálgahrauni ætti að gefa dómstólum tilefni til að sýkna mótmælendurna níu.

Þegar breskur dómstóll sýknaði Caroline Lucas þá vakti hún athygli á að lögregla um allan heim beitir sífellt harkalegri aðgerðum til að grafa undan rétti almennings til að mótmæla. Þannig væru mótmæli ,,glæpavædd" til að hræða fólk frá þátttöku í þeim. Og markmiðið væri skýrt - að þagga niður í gagnrýnisröddum í samfélaginu. Dæmin erlendis eru fjölmörg, t.d. í tengslum við Occupy Wall Street mótmælin 2011 og stúdentamótmæli í Lundúnum 2010. Skýrasta dæmið hér á landi eru vanstillt viðbrögð lögreglu við friðsömum mótmælum Falun Gong árið 2002.

Ég naut þess heiðurs að starfa í lögreglunni fyrir nokkrum árum. Þar lærði ég fljótt að bestu lögregluþjónarnir eru tveimur kostum gæddir, annars vegar æðruleysi þegar mikið liggur við og hins vegar hófsemd í allri framgöngu sinni gagnvart almenningi. Og þannig eru þeir langflestir. En það dugar skammt þegar yfirstjórn lögreglunnar virðist tilbúin til að beita óhóflegu valdi þegar verktakar, Vegagerðin eða kínverska kommúnistastjórnin óska þess. Með slíku óhófi og vanstillingu getur yfirstjórn lögreglunnar grafið undan almannareglu og lýðræðinu. Og þá verða dómstólar að grípa í taumana, rétt eins og þeir gerðu í Bretlandi. Þess vegna á engum að standa á sama um mál mótmælendanna níu í Gálgahrauni. Þar er tekist á um borgaraleg réttindi okkar allra.

(Fjallað verður um mótmæli og lögregluaðgerðir í Gálgahrauni á Náttúruverndarþingi næstkomandi laugardag. Þangað eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Sjá nánar).

Sjá fyrri pistla um sama efni:
- 21. október 2013.
- Almenningur á betra skilið.