30. apr. 2014

Við viljum ekki náttúruperlukvóta

Nú eru liðin þrjátíu ár frá því að kvótakerfi í sjávarútvegi var komið á. Þá var ég sex ára. Mín kynslóð verður því varla talin bera ábyrgð á því kerfi sem færði fámennum hópi aðstöðu til að efnast stórkostlega á auðlind í sameiginlegri eigu þjóðarinnar, nær endurgjaldslaust. En nú er unnið að því hörðum höndum að koma á svipuðu kerfi á landi þar sem fámennum hópi landeigenda verður veitt aðstaða til að efnast stórkostlega á náttúruperlum þjóðarinnar. Þetta verður kvótakerfi minnar kynslóðar og baráttan um það mun mæla dug okkar og réttlætiskennd.

Samkvæmt hinum forna almannarétti hefur þjóðin haft frjálsan aðgang að náttúru Íslands á óræktuðu landi, enda takmarkar það ekki nýtingarrétt landeiganda. Þessi réttur byggir á svo sterkri hefð að hann ætti að vera óumdeildur. En nú reynir hópur landeigenda að bylta þessu með því að girða svæði af og krefjast gjalds fyrir náttúruskoðun - góngjalds. Þetta myndi gjörbreyta tengslum þjóðar og náttúru. Stefán Ólafsson prófessor orðaði þetta svo í ágætum pistli: ,,Með slíku fyrirkomulagi verður náttúruskoðun á Íslandi peningavædd. Það verður mikil breyting. Ísland verður ekki lengur "almenningur", þar sem Íslendingar fara frjálsir um til að njóta náttúrunnar. Skiltin munu spretta upp eins og gorkúlur: "Geysis-svæðið er í einkaeigu. Öll umferð bönnuð, nema gegn greiðslu"! „Dettifoss er í einkaeigu..."! „Kerið er í einkaeigu..." o.s.frv... Þá loks mun Íslendingum skiljast að það er ekki almenningur sem á landið - heldur "landeigendur". Ísland verður þar með ekki lengur fé-án-hirðis. Frjálshyggjumenn munu kalla þetta "framfarir" og aukið "frelsi landeigenda". Frelsi almennings minnkar að sama skapi."

Áróðursstríðið fyrir kvótavæðingu náttúrunnar stendur nú sem hæst. Talsmaður landeigenda við Geysi hefur t.d. sagt í viðtali að almannaréttur eigi ekki lengur við og formaður Landeigendafélags Reykjahlíðar segist ekki viðurkenna hinn ,,svokallaða" almannarétt. Einstaka fastir pennar blaðanna eru líka farnir að notast við gatslitna nýfrjálshyggjufrasa um þá sem andmæla kvótavæðingu náttúrunnar. Til dæmis segir á einum stað ,,þeim sem er illa við peninga finnst þetta hljóma eins og hræðileg framtíðarsýn" og ,,sumum er ekki sérstaklega vel við peninga." Afstaða mín til góngjalds hefur ekkert með skoðun mína á peningum að gera. Ég dáist að þeim landeigendum sem kunna að nýta aðstöðu sína til að efnast, t.d. með nýsköpun í ferðaþjónustu. Þannig hefur fjölskyldan á Þorvaldseyri sett upp gestastofu sem er nú orðin meðal fjölsóttustu ferðamannastaða á Suðurlandi. Á Friðheimum í Biskupstungum hefur verið sett upp geysivinsæl hestasýning. Og rekstur Jarðbaðanna í Mývatnssveit hefur skilað miklum hagnaði. Þannig geta landeigendur nýtt aðstöðu sína, hugvit og dugnað til þess að efnast. Ég þekki engan sem er illa við slíkt. En það sem mörgum svíður nú er að taka eigi rétt af öllum almenningi til að njóta náttúrunnar til þess eins að búa fámennum hópi landeigenda aðstöðu til að græða á undrasmíði hennar. Guðmundur Andri Thorsson skrifaði nýverið um þá tilfinningu sem þetta vekur hjá mörgum: ,,Það er einkennileg og óþægileg tilhugsun að þurfa að greiða fyrir aðgang að íslenskri náttúru. Þegar ég kem að Dettifossi vil ég ekki þurfa að borga mig þar inn. Það er ekki vegna þess að ég tími því ekki - eflaust verður þetta smáræði - málið snýst um eitthvað annað og dýpra. Gjaldtaka við slíkan stað fer í bága við einhverja grundvallarhugmynd sem ég hef um samband mitt við Ísland. Dettifoss er frændi minn, hann er partur af mér. Að fara að greiða fyrir aðgang að íslenskri náttúru er eins og að þurfa að borga sig inn til að heimsækja náin skyldmenni."

Talsmenn landeigenda á Alþingi slá heldur ekki slöku við. Þannig sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga fyrir um ári síðan: ,,Fyrsta atriðið sem ég ætlaði að nefna í þessu sambandi er samspilið milli eignarréttar og almannaréttar. Ég held að allir geri sér grein fyrir að þarna þarf að ríkja ákveðið jafnvægi. Eignarréttur landeigenda er mikilvægur. Eignarréttur er grundvallarregla og eignarréttur landeigenda er að engu leyti ómerkari en annar eignarréttur í skilningi laga og mannréttindasáttmála. Í frumvarpinu sem hér um ræðir eru stigin skref til þess að ganga á eignarréttinn á þeim grundvelli að verið sé að auka almannarétt. ... Ég get tekið undir áhyggjur sem komið hafa fram af hálfu samtaka bæði bænda og landeigenda um að gengið sé lengra og meir á eignarréttinn í þessu frumvarpi en samkvæmt gildandi löggjöf og lengra en eðlilegt er."

Blessunarlega hefur mannskepnan haft vit á því að efast reglulega um eignarréttinn, inntak hans og eðli. Til dæmis þótti eignarréttur manna á öðrum mönnum sjálfsagður á ákveðnu tímabili í mannkynssögunni. Í Bandaríkjunum þurfti að grípa til vopna á sínum tíma til að leiða hópi landeigenda og bænda það fyrir sjónir að hugmyndir þeirra um eignarrétt byggðu á órétti. Og nú stendur yfir barátta víða um heim um eignarréttinn, t.d. á drykkjarvatni og erfðaefni plantna. Hér á landi er tekist á um aðganginn að náttúrunni - frjálsa för almennings. Baráttan um eignarréttinn er þannig eilíf, græðgin sér til þess. En sem betur fer er til sterkari tilfinning í mannskepnunni sem fær hana til að verjast yfirgangi hinna fáu, stundum árangurslaust en stundum með árangri sem eftir er tekið. Á morgun efna náttúruverndar- og ferðafélög til varnarbaráttu með grænni göngu í samstarfi við stéttarfélögin. Þar verður þess krafist að almenningur hafi áfram, eins og hingað til frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn verði virtur. Mæting kl. 13 við Hlemm. Sjáumst þar.