19. mar. 2014

Dínamít fyrir 35 milljónir

Þakklæti er mér efst í huga daginn eftir stórtónleikana í Hörpu og heimsfrumsýningu Noah. Með þessu ótrúlega framtaki Bjarkar, Gríms Atlasonar, Andra Snæs og fleiri góðra manna og kvenna og ríkulegum stuðningi Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar tókst að afla 35 milljóna króna til náttúruverndarbaráttunnar.

Þetta fé mun t.d. nýtast til að mynda náttúruperlurnar sem orkufyrirtækin ógna, auglýsa málstaðinn, vinna kynningarefni fyrir netið, upplýsa almenning og stjórnmálamenn um náttúruverðmætin á hálendinu, safna undirskriftum, efna til kynningarfunda, fræða erlenda ferðamenn og fréttamenn, gera skoðanakannanir og skrifa vandaðar sérfræðiumsagnir.

En dugar það til? Í dag hefur Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, staðfest að Þeistareykir verði endanlega eyðilagðir, Gjástykki og Mývatn séu enn í sigtinu og að fyrirtækið sé að hefja rannsóknaframkvæmdir vegna virkjunar við Skrokköldu á miðhálendinu. Landsvirkjun er fyrirtæki sem haldið er krónísku sturlunarástandi. Hillumetrarnir af rökum munu ekki hafa áhrif á gjörnýtingarstefnu þess og afstaða almennings er bara vandræðalegur fimmaurabrandari í huga forsvarsmanna fyrirtækisins.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvað fáist mikið af dínamíti fyrir 35 milljónir. Og hvort það sé ekki enn til fólk í Mývatnssveit sem kann að fara með sprengiefni. Þeirra baráttuaðferð virðist vera sú eina sem hefur virkað hingað til því að lýðræðinu er ekki ætlað neitt hlutverk í virkjanamálum.