18. feb. 2014

Gíraffi, vísundaostur og CNOOC

Fjölmiðlar hafa að undanförnu varið fjölmörgum dálksentimetrum og mínútum í umfjöllun um gíraffa í dönskum dýragarði og baráttu okurverslana Haga fyrir að fá að selja þjóðinni vísundaosta.

En munið þið eftir samskonar umfjöllun um CNOOC? Líklega ekki. Og einmitt það segir okkur svo mikið um stöðu fjölmiðla nú um stundir.

Gíraffinn og vísundaosturinn eru léttvæg mál sem krefjast ekki mikillar þekkingar, fyrirhafnar eða áræðni. Enda hafa þau tröllriðið fréttatímum og spjallþáttum og sjálfur forsætisráðherrann var krafinn svara um vísundaostinn.

En CNOOC. Hvað er það aftur? Jú, kínverskt olíufélag sem hefur fengið úthlutað 60% hlutdeild í sérleyfi til olíuvinnslu í íslenskri lögsögu. Kínverskt fyrirtæki, eitt það stærsta í heimi, er sem sagt komið með mjög stórt hlutverk í nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Sem betur fer hafa fréttastofurnar verið á fullu við að upplýsa okkur um það hvaða fyrirtæki þetta er, um sögu þess og framgöngu í öðrum löndum. - Nei, bara grín. Ekki orð. Ekki eitt einasta.

RÚV sagði margar fréttir af því þegar nokkrir karlar frá Austur-Evrópu komu hingað siglandi nýverið til að kaupa bílhræ og annað brotajárn. En þegar kínverskt olíufélag fær aðgang að mögulega einni verðmætustu auðlind þjóðarinnar - þá heyrist ekkert. Bara vandræðaleg þögn.

Ég veit ekki hvað veldur. Leti? Ótti? Þjónkun? Áhugaleysi? Þessu þurfa fjölmiðlamenn sjálfir að svara.

En sem betur fer höfum við netið. Og þar getum við t.d. lesið um það að yfirmenn CNOOC eru grunaði um að hafa stofnað fyrirtæki í skattaskjólum til að koma auðlindaarðinum undan kínverskum almenningi. CNOOC hefur verið sakað um ofsóknir gegn eigin starfsfólki sem tengist Falun Gong. Og í Búrma hefur CNOOC verið sakað um mannréttindabrot og tengsl við heróínsmyglara.

Og nú hafa atvinnuvegaráðherra og Orkustofnun veitt þessu fyrirtæki aðgang að auðlindum Íslands - umræðulaust. Martin Luther King á víst að hafa sagt að fátt sé hættulegra í þessum heimi en einlæg fáfræði og meðvituð heimska.