7. jan. 2014

Fossaslóð í stað Norðlingaölduveitu

Gullni hringurinn í gulum lit og hugmynd að Fossaslóð í bláum.
Nú er mikið rætt um að það þurfi nauðsynlega að dreifa álaginu af ferðamönnum sem sækja Ísland heim. Þess vegna er það sérkennilegt að Landsvirkjun haldi hinum fagra Þjórsárdal í gíslingu hugmynda um Norðlingaölduveitu. Dalurinn gæti skapað kraftmiklu og hugmyndaríku fólki mikil tækifæri ef hann yrði gerður að miðstöð ferðaleiðar sem nefna mætti Fossaslóð. Leiðin gæti minnkað álagið á svæði sem tilheyra Gullna hringnum, svæði sem gætu tapað aðdráttarafli sínu með síauknum straumi ferðamanna.

Á ferðalagi um Fossaslóð mætti skoða fossa í og við Þjórsá, t.d. Urriðafoss, Hjálparfoss, Þjófafoss og Háafoss. Og með einföldum vegabótum austan Þjórsár yrðu Dynkur og Gljúfurleitarfoss rúsínan í pylsuendanum. Þessu gæti fylgt talsverð uppbygging innviða fyrir ferðaþjónustu í Þjórsárdal, t.d. við Stöng, Þjórsárdalslaug, Þjórsárdalsskóg og Gjána.

Svona uppbygging hefur líklega aldrei verið skoðað af neinni alvöru vegna hugmynda Landsvirkjunar um að reisa Norðlingaölduveitu efst í Þjórsá. Með þeim hætti heldur fyrirtækið aftur af vaxtarsprotum í Þjórsárdal.