18. nóv. 2013

Matsfyrirtækin mótfallin álverum

Myndin t.v. sýnir hversu fjölbreyttur kúnnahópur Landsvirkjunar gæti orðið. Myndin t.h. sýnir að álverin kaupa nú 75% orku Landsvirkjunar. Myndirnar eru úr kynningarefni Landsvirkjunar.
Ragnheiður Elína Árnadóttir iðnaðarráðherra stal senunni á haustfundi Landsvirkjunar í liðinni viku með yfirlýsingu um að hún væri orðin óþreyjufull í bið sinni eftir álveri í Helguvík og að Landsvirkjun gæti jafnvel haft úrslitaáhrif á það hvort álverið rísi. Þetta var þó endurtekið efnu hjá ráðherranum og varla fréttnæmt sem slíkt.

Stóra fréttin frá þessum haustfundi - sem fékk þó enga athygli - er sú að alþjóðleg lánshæfismatsfyrirtækin telji það alvarlegan veikleika í rekstri Landsvirkjunar að álver kaupi 75% þeirrar orku sem fyrirtækið framleiðir. Matsfyrirtækin hvetja Landsvirkjun því til að finna fjölbreyttari hóp viðskiptavina. Þetta kom fram í máli Björgvins Skúla Sigurðssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Hann sagði að lánshæfismat fyrirtækisins myndi batna ef fyrirtækinu tækist að breikka kúnnahópinn. Landsvirkjun ynni þess vegna að því hörðum höndum og það hefði m.a. skilað sér í samningi við stálendurvinnslufyrirtækið GMR á Grundartanga. Hann sagði að nú væri unnið að samningum við fjölmörg önnur fyrirtæki og brá upp mynd sem sýndi iðngreinar sem eru til skoðunar, þ.á.m. kísiljárn, álþynnur, kísilmálma, kísilkarbíð, efnaiðnað, koltrefjar, gagnaver og samgöngur.

Þessi stefna Landsvirkjunar hefur ekki einungis jákvæð efnahagsleg áhrif heldur er einnig óhætt að fagna henni út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Álver eru nefnilega miklu orkufrekari en önnur iðnfyrirtæki og nú þegar hagkvæmustu virkjanakostirnir hafa þegar verið nýttir þá verður alltaf erfiðarar og erfiðara að skaffa þá miklu orku sem álver þarfnast. Álver þurfa um 600-700 MW af raforku, en til samanburðar má nefna að kísilkúrverksmiðja notar 100-150 MW, Jánblendið á Gundartanga 120 MW og gagnaver um 20-30 MW.

Fram kom í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, að líklega þyrfti ekki að byggja nýja virkjun þó að samningar næðust um sölu á nokkur hundruð megavöttum. Enda ljóst að það má auka framleiðslugeti núverandi virkjana, bæði með aukinni nýtingu vindorku og með nýtingu aukins vatnsrennslis í kjölfar hlýnunar loftslagsins. Þess vegna myndi fjölbreyttari kúnnahópur draga verulega úr þörf Landsvirkjunar fyrir nýjar stórvirkjanir. Með því móti sæti þjóðin uppi með minni efnahagslega áhættu og þar að auki laus við aðra Kárahnjúkadeilu sem yrði óneitanlega fylgifiskur framkvæmda tengdum álveri í Helguvík.