2. sep. 2013

Borgarstjóri, völlurinn og valdið

Borgarstjóri sýndi gamaldags viðhorf til valdsins í viðtali við RÚV á fimmtudag. Aðspurður um undirskriftastöfnun og Reykjavíkurflugvöll sagði hann: ,,Síðan megum við ekki gleyma því að réttur sveitarfélaga, réttur Reykjavíkur, til þess að skipuleggja sitt land er tryggður í stjórnarskrá Íslands." Þetta er vissulega hefðbundin túlkun sveitarstjórnarmanna, enda segir í 78. gr. stjórnarskrárinnar að sveitarfélög skuli sjálf ráða sínum málefnum. En þetta viðhorf er ákaflega gamaldags, frekt og beinlínis skaðlegt fyrir alla umræðu og samvinnu um skipulagsmál.

Í krafti þessa viðhorfs telja sveitarstjórnarmenn sig komast upp með nánast hvað sem er innan eigin sveitarfélagamarka. Þeir eru kóngar í ríki sínu. Rétt eins og bæjarstjóri Vesturbyggðar sem taldi sig hafa fullt vald til að reisa olíuhreinsistöð í sveitarfélaginu sumarið 2008. Stöðin hefði þurft 600 MW orku, henni fylgdi umferð 200-300 olíuskipa á ári og kostnaður við framkvæmdina var talinn um 300 milljarðar króna. Sveitarstjórinn var spurður að því hvort að framkvæmdin þyrfti ekki samþykki fleiri en sveitarstjórnarinnar. Hann svaraði: ,,Eftir því sem mér skylst að þá er þetta í hendi sveitarstjórnanna eins og lög segja í dag. Og meðan svo er þá höfum við valdið hérna hjá okkur."

Auðvitað átti sveitarstjórn Vesturbyggðar ekki að ákveða það ein hvort að olíuhreinsistöð yrði reist í Arnarfirði. Og Reykvíkingar eiga ekki að ákveða það einir hver framtíð flugvallarins verður. Eða Landspítalans. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps á heldur ekki að ákveða ein hver örlög Mývatns verða. Og sveitarstjórn Langanesbyggðar á ekki að ákveða upp á eigin spýtur hvort ein stærsta stórskipahöfn heims verði byggð í Finnafirði. Ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, náttúruperlur og helstu innviði samfélagsins eru of mikilvægar til að einstaka sveitarstjórnir geti setið einar að þeim.

Það má heldur ekki gleyma því að í stjórnarskránni segir að sveitarfélögin ráði sínum málefnum sjálf ,,eftir því sem lög ákveða." Í skipulagslögum segir að markmið laganna sé að þróun byggðar sé í samræmi við skipulagsáætlanir ,,þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna , heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi." Einnig ,,að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi." Auk þess eiga skipulagslögin að tryggja að samráð sé haft við almenning ,,þannig að honum sé gefið tækifæri til aðhafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda." Þess vegna er það mikil einföldun hjá borgarstjóra að lýsa því yfir að valdið sé hans og félaga hans í borgarstjórn.

Nú eru einungis nokkrir mánuðir til sveitarstjórnakosninga. Vonandi nýtir borgarstjóri þann tíma til að efla lýðræði og samráð við allan almenning - innan og utan borgarmarka. Og vonandi endurskoðar hann viðhorf sitt til skipulagsvaldsins í leiðinni.