20. ágú. 2013

Björn Valur, Samherji og Seðlabankinn

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, svarar pistli mínum um samkrull stjórnmála og viðskipta á heimasíðu sinni í dag. Hann beitir þeirri kunnu aðferð að finna eitt atriði sem var ónákvæmt og afgreiða þar með pistilinn einskis verðan með öllu. Auk þess sagði hann pistilinn árás á allt launafólk í landinu - hvorki meira né minna.

Það er vissulega rétt hjá Birni að það var ofsagt hjá mér að hann hefði verið hálaunaður starfsmaður hjá fyrirtækjum Samherja í gegnum tíðina. En hann staðfestir að hann hafi unnið á skipum Síldarvinnslunnar í sumar, en fyrirtækið er að stórum hluta í eigu Samherja og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.

Seðlabankinn hóf rannsókn á Samherja í mars 2012 í kjölfar umfangsmikillar umfjöllunar Kastljóss um að fyrirtækið kynni að hafa brotið lög og komið fé undan sköttum og auðlindagjaldi hér á landi. Forstjóri Samherja fullyrti þá að fyrirtækið hefði farið að lögum og að aðgerðir Seðlabankans væru tilefnislausar. Fyrirtækið hélt síðan uppi þrýstingi á Seðlabankann og lét t.d. þýskt dótturfyrirtæki Samherja hætta að landa fiski hér á landi þar til bankinn léti af hendi gögn. Ingi Freyr Vilhjálmsson skrifaði af þessu tilefni í DV: ,,Seðlabankinn, og aðrir opinberir aðilar sem þvinganir Samherja beinast að, þarf að standa í lappirnar gagnvart útgerðarrisanum. Annars yrði til hættulegt fordæmi þar sem fjárhagslegur styrkur getur haft áhrif á þá grundvallarhugmynd að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Auðræðið yrði þá ofan á en ekki lögræðið."

Þann 28. desember 2012 birtist svo bréf stjórnenda Samherja til starfsmanna fyrirtækisins þar sem sagði að Seðlabankinn hefði beitt röngum útreikningum og jafnvel blekkingum við rannsóknina.

Síðar þann sama dag birti Björn Valur Gíslason bloggfærslu um málið. Þar skrifaði hann m.a.: ,,Ég tók mig til sl vor og kafaði aðeins ofan í þetta mál, spurði spurninga, leitaði mér upplýsinga og nýtti mér þekkingu mína. Niðurstaða mín var sú í stuttu máli að fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Samherji er stendur ekki í því að svindla á nokkrum tonnum af karfa eða bleikjutittum. Það er of mikið í húfi til að leggja fyrirtækið allt undir fyrir svo lítið. Stjórnendur fyrirtækisins eru einfaldlega ekki svo klikkaðir. Það þarf líka of margra starfsmenn með einbeittann brotavilja þvert á landamæri til að þannig svindl sé gerlegt. Ég komst að því að það væri tvennt í stöðunni sem gæti skýrt þetta mál. Annarsvegar að Seðlabankinn hafi beinlínis rangt fyrir sér og hefði ekkert mál í höndunum og hinsvegar að málið snérist um allt annað en útflutning á fiski."

Björn Valur Gíslason var á þessum tíma formaður fjárlaganefndar Alþingis. Vald formanns fjálaganefndar er mikið eins og þingmenn stjórnarandstöðu hafa réttilega minnt á að undanförnu - og honum ber því að gæta orða sinna. Björn Valur sagðist í desember 2012 hafa kafað ofan í málið og komist að þeirri niðurstöðu að Samherji stæði ekki í svindli. Það sætir furðu að fjölmiðlar hafi ekki vei þttessum orðum meiri athygli á sínum tíma. Hann virðist t.d. ekki hafa þurft að svara því opinberlega á hvaða gögnum hann byggði þessa niðurstöðu sína. Að mínu mati er það mjög alvarlegt að svo valdamikill maður grafi með þessum hætti undan trúverðugleika sakarannsóknar Seðlabankans á sama tíma og bankinn þurfti stöðugt að verjast ásökunum forsvarsmanna Samherja. Eðlilegra hefði verið að Björn Valur hefði komið Seðlabankanum til varnar, enda var bankinn að gæta almannahagsmuna með rannsókn sinni vegna grunsemda um að Samherji greiddi ekki þá skatta sem fyrirtækinu bar. Seðlabankinn hefur nú vísað málinu til Sérstaks saksóknara.

Hálfur ári eftir að Björn Valur birti bloggpistil sinn var hann orðinn stýrimaður á skipi útgerðarfyrirtækis þar sem Þorsteinn Már Baldvinsson er stjórnarformaður og Samherji stærsti hluthafinn. Og þingflokkur Vinstri grænna skipaði Björn Val í bankaráð Seðlabankans fyrir sína hönd.

Ég held að varaformanni Vinstri grænna og þingflokki væri nær að viðurkenna mistök og Björn hætti í bankaráðinu. Það væri meiri reisn yfir því en grátbroslegum tilraunum varaformannsins til að afgreiða umfjöllun mína sem árás á alla launþega í landinu.