16. júl. 2013

Upplýsingabylting og pilsfaldakapítalistar

Við höfum verið rækilega minnt á vald pilsfaldakapítalistanna að undanförnu, t.d. með útgáfu skýrslu um Íbúðalánasjóð og ákvörðun forsetans um veita þjóðinni ekki tækifæri til að kjósa um lög um veiðigjöld.

Borgarfulltrúinn Gísli Marteinn Baldursson talaði um reynsluna af REI-málinu í nýlegu viðtali við DV og segir þar frá reynslu sinni úr pólitíkinni: ,,En þessi hugsunarháttur, að græða í pilsfaldi opinberra stofnana var viðloðandi alls staðar, meira að segja hjá mestu kapítalistum."

Jónas Kristjánsson fjallaði nýverið um pilsfaldakapítalistana:,, Í stað frjáls framtaks skríða menn undir pilsfald ríkisins. Reyna að gera sér aur úr misnotkun á aðstöðu. Með forgangi að auðlindum, með fáokun, með misnotkun sjóða."

Eina leiðin til að draga úr völdum pilsfaldakapítalistanna er að færa völdin beint til þjóðarinnar. Um ótta þeirra við beint lýðræði vitnar Styrmir Gunnarsson í nýlegri grein í Morgunblaðinu: ,,Þegar deilur stóðu sem hæst um Kárahnjúkavirkjun velti ég því fyrir mér, hvort ekki væri bæði eðlilegt og sjálfsagt að þjóðin sjálf tæki ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort byggja ætti þá virkjun. Sumir vinir mínir segja að þá yrðu engar virkjanir byggðar á Íslandi."

Andstaðan við beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur byggir þannig að stærstum hluta á varðstöðu um valdið - valdið sem veitir aðgang að auðlindum og almannafé. Þeir sem fara með valdið munu ekki láta það af hendi átakalaust. En þeir munu missa það. Það er óhjákvæmilegt. Upplýsingabyltingin mun sjá til þess.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, fjallaði um upplýsingabyltinguna í ágætri ræðu við þingsetningu í sumar: ,,Upplýsingabyltingin í dag hefur þegar valdið því að í fyrsta skipti í sögunni er nærri allt mannkyn orðið stjórnmálalega meðvitað og á stjórnmálaleg samskipti sín á milli. Þessi vakning hefur átt sér stað vegna Facebook, YouTube og annarra netsamfélaga sem við þekkjum öll og notum. Það sem þessum netsamfélögum tókst að gera var að komast fram hjá einokun margmiðlunarrisa og ríkisvaldsins á túlkun og miðlun upplýsinga. Rétt eins og prentvél Gutenbergs gerði fyrst Lúther og svo öðrum samfélögum, bæði trúar- og fræðimanna, fært að komast fram hjá einokun presta og prinsa á túlkun og miðlun upplýsinga. Stjórnmálaleg vakning prentbyltingarinnar færði í kjölfarið megnið af mannkyninu undan alræði presta og prinsa og undir vald lýðræðislegra kjörinna fulltrúa, fólks eins og okkar hér í þessum sal. Stjórnmálaleg vakning upplýsingarinnar er hafin."