3. jún. 2013

Forsætisráðherra, strámenn og álver

Forsætisráðherra ku vera með kátari mönnum. Það hef ég lesið í blöðum og séð fullyrt í sjónvarpsþáttum upp á síðkastið. Þess vegna hafa neikvæð viðbrögð hans við líflegri náttúruverndarumræðu komið mér á óvart. Í gær birti hann t.d. pistil á heimasíðu sinni þar sem hann raðar náttúruverndarsinnum á bás með stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi.

Forsætisráðherra virðist ekki ætla að taka þetta á gleðinni. Hann segir aðra snúa út úr fyrir sér, reka upp ramakvein og beita brellum. Svo færir hann þjóðinni lítinn fróðleiksmola um strámanns-aðferðina. Pistillinn er í raun bara æfing í Machiavellískum fræðum. Mjög í anda fyrrverandi utanríkisráðherra. Bara ekki eins hnyttið og margt sem kom frá þeim plottpenna.

Forsætisráðherra verður að þola það að þjóðin vilji ræða Helguvíkuráformin. Þar eru svo stórtæk áform á ferðinni að þau munu hafa gríðarleg áhrif á hagkerfið allt, t.d. með vaxtahækkunum, verðbólgu og aukinni einhæfni og áhættu í sölu á raforkuauðlind þjóðarinnar. Þau krefjast eignarnáms á landi svo hægt verði að reisa raflínur eftir endilöngum Reykjanesskaga. Og þau krefjast umdeildra virkjana vestan frá Reykjanesskaga austur í Skaftárhrepp.

Enda hafa þingmenn úr flokki forsætisráðherra lýst yfir efasemdum um Helguvíkuráformin. Þannig segir Frosti Sigurjónsson t.d. í viðtali við DV að líklega sé nóg komið af álverum á Íslandi. Betra sé að dreifa áhættunni með því að selja sem flestum orku í mismunandi geirum atvinnulífsins. Þannig verði komið í veg fyrir að niðursveifla á álmörkuðum hafi eins mikil áhrif hérlendis og ella.

Formaður Ungra Sjálfstæðismanna hvatti hægrimenn nýverið til að hverfa frá stórðjustefnunni og ritaði meðal annars: ,,Hver ný stóriðja er svo stór inn í okkar litla hagkerfi að allt atvinnulífið og öll þjóðin þarf að búa við hærra vaxtastig en ella meðan á uppbyggingunni stendur vegna þensluáhrifa þeirra. Hærra vaxtastig gerir öllum öðrum atvinnugreinum erfiðara að fjárfesta, m.ö.o. að skapa ný atvinnutækifæri. Ruðningsáhrifin á aðra og hugsanlega arðbærari fjárfestingu eru gríðarleg."

Á síðustu dögum hefur fjöldi ungs hæfileikafólks komið fram og ritað um stóriðjustefnuna og atvinnumál. Stofnandi DataMarket skrifaði t.d. fróðlegan pistil um verðmæti nýsköpunar sem hann nefndi ,,Af einhverju öðru (en áli)." Doktorsnemi í hagfræði við Exeter háskóla skrifaði pistil um álver og hagvöxt þar sem segir meðal annars: ,,Það eru allar líkur á því að það sé efnahagslega skynsamlegt fyrir Íslendinga að láta gott heita í uppbyggingu álvera." Doktorsnemi í Gautaborg sendir fjármálaráðherra opið bréf á facebook þar sem hann segir meðal annars: ,,Mér finnst ekki mikið viðskiptavit í því að selja útlenskum hráefnisfyrirtækjum í ruslflokki rafmagn á afslætti svo þau nái að komast upp í betri flokk." Ung kona búsett í New York sem er doktor í iðnaðar- og kerfisverkfræði ritaði opið bréf til umhverfisráðherra þar sem hún varaði við fjölgun álvera og vitnaði í skýrslur Bank of America og Merrill Lynch máli sínu til stuðnings.

Andstaðan við Helguvíkuráformin er því ekki bundin við stjórn eða stjórnarandstöðu. Hún er miklu víðtækari en svo, enda segist 51,3% vera andvíg fjölgun álvera hér á landi en 30,9% fylgjandi. Þess vegna verður forsætisráðherra að taka af sér flokksgleraugun, láta af pólitísku orðaskaki við þá sem leyfa sér að efast um fjölgun álvera og gerast alvöru þátttakandi í efnislegri umræðu um Helguvíkuráformin.