27. maí 2013

Ráðherrar undan sauðargærunni

Ég ákvað að hefja samskipti við nýja ríkisstjórn á jákvæðum og bjartsýnum nótum og rétti þeim sáttarhöndina. Þess vegna sagðist ég t.d. í viðtali við RÚV ekki gera athugasemd við það að einn ráðherra myndi sinna umhverfisráðuneytinu í hjáverkum. Og ég taldi fulla ástæðu til að vera bjartsýnn. Hvorki Framsóknarflokkur né Sjálfstæðisflokkur töluðu um virkjana- og stóriðjumál í kosningabaráttunni. Og stjórnarsáttmálinn bar þess heldur ekki merki að vera stefnuyfirlýsing stóriðjustjórnar. Ég vildi líka styðja ríkisstjórnina í að uppfylla það sem segir í 2. málsgrein stefnuyfirlýsingarinnar: ,,Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið."

En Adam var ekki lengi í Paradís. Forsætisráðherra og umhverfisráðherra höfðu rétt tekið við lyklunum að ráðuneytunum þegar þeir sviptu af sér sauðargærunni og tóku að ala á sundurlyndinu. Umhverfisráðherra sagði í viðtali að nú þegar væri hafin vinna við að endurskoða rammaáætlun með það að markmiði að færa átta svæði úr biðflokki í virkjanaflokk, þar á meðal svæði á miðju hálendinu. Forsætisráðherra sagðist í öðru viðtali vera því fylgjandi að álver verði reist í Helguvík, en það útheimtir eignarnám lands og fjölda virkjana vestan frá Reykjanesi austur í Skaftárhrepp. Og umsagnir um rammaáætlun afgreiddi forsætisráðherra á einu bretti með því að kalla þær staðlaðan fjöldapóst náttúruverndarfólks. Ég veit ekki hvernig Samtök ferðaþjónustunnar, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, sveitarstjórnarmenn í Hveragerði og Orri Vigfússon taka þessari pillu frá forsætisráðherranum. En Ómar Ragnarsson tók henni svona: ,,Ég, vinna mín og ævistarf mitt ásamt margra annarra er vegið og léttvægt fundið. Sömuleiðis niðurstöður skoðanakannana um stóriðju og heilan stóran þjóðgarð á miðhálendinu. Fólk er fífl og ég þá sennilega mesta fíflið."

Kannski var þetta viðbúið. Enda ekki langt síðan að formanni Sjálfstæðisflokksins þótti við hæfi að uppnefndi náttúruverndarfólk öfgamenn á flokksráðsfundi. Líklega fellur formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna í flokk okkar öfgafólksins, en hann hvatti hægrimenn nýverið í Morgunblaðsgrein til að hætta stóriðjustefnunni og sagði hana nær því að vera sambland áætlunarbúskaps og kjördæmapots en markaðsbúskapur.

Hið meinta öfgafólk leynist nefnilega víðar en margan stjórnmálamanninn grunar. Þannig sýna allar skoðanakannanir fram á meiri stuðning við náttúruvernd en virkjanastefnu. Rúmlega 51% segjast andvíg því að fleiri álver verði reist hér á landi en 30,9% eru því hlynnt. Þessi andstaða hefur aukist talsvert frá árinu 2008, en þá sögðust 42% andvíg frekari uppbyggingu álvera en 38% fylgjandi. 44% eru andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi. Og 56% eru hlynnt stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands en einungis 17,8% andvíg.

Þannig að þessi þjóð virðist sem betur fer vera að meirihluta til skipuð svokölluðu öfgafólki sem vill vernda verðmætin sem fólgin eru í íslenskri náttúru. Aftur á móti nýtur Sjálfstæðisflokkurinn einungis fylgis 21% atkvæðabærra manna og Framsóknarflokkurinn 19,4%. Og gleymum því ekki að stór hluti þess fylgis var fenginn með loforðum um skatta- og skuldalækkanir. Ríkisstjórnin var kosin til að minnka byrðarnar en ekki til að fjölga álverum.

En þrátt fyrir það er ríkisstjórnin nú komin undan sauðargærunni og boðar kunnuglegt stef úr íslenskri hagsögu - að einkavæða hagnaðinn en þjóðnýta tapið. Örfá verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir og verkfræðistofur munu fleyta rjómann ofan af framkvæmdum við virkjanir og stóriðju, en eftir situr almenningur með orkufyrirtæki að drukkna í skuldum, aukna verðbólgu, hærra vaxtastig, fátæklegri náttúru, ruðningsáhrif í atvinnulífinu og gríðarlega áhættu í hagkerfinu þar sem 90% af allri raforku yrði seld álverum.

Við þessu þarf að bregðast. Landvernd hefur tekið frumkvæði að því að fræða forsætisráðherra og umhverfisráðherra um afstöðu náttúruverndarfólks til rammaáætlunar og mun afhenda þeim fjölda umsagna um rammaáætlun við Stjórnarráðshúsið á þriðjudag. Við bönkum uppá kl. 17:15. Mætið endilega í Lækjargötu ef þið viljið sýna náttúruverndarfólki stuðning. Sýnum ráðherrunum nú fram á að samtakamáttur er annað og meira en orð til að fegra stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar.