17. apr. 2013

Vísindamenn Sjálfstæðisflokksins

Illuga Gunnarssyni, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðum RÚV um umhverfis- og auðlindamál í gær, varð tíðrætt um að vísindamenn ættu að taka ákvörðun um flokkun svæða í virkjana-, bið- eða verndarflokk. Það mætti ekki vera pólitísk ákvörðun.

Hann sagði m.a. um hina umdeildu rammaáætlun: ,,Við erum þeirrar skoðunar að því miður hafi á lokasprettinum pólitíkin sloppið inn í málið. Og okkar tillaga er sú að við lögðum fram um það frumvarp, sérstakt, að til að koma pólitíkinni aftur út, til að ná raunverulega fram sáttinni, að það fari aftur þetta verkefni til sérfræðinefndarinnar svokölluðu, fagaðilanna, til vísindamannanna."

Tillagan sem um ræðir er frumvarp sem þingflokkur Sjálfstæðisflokks lagði fram á liðnu hausti. Þar segir í 4. grein: ,,Ráðherra leggur tillögur verkefnisstjórnarinnar óbreyttar fram á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun í samræmi við 3. gr."

Í þessu ljósi er fróðlegt að kynna sér hvernig síðasta verkefnisstjórn rammaáætlunar var mönnuð. Hana skipuðu m.a. þau Svanfríður Jónasdóttir, sveitarstjóri í Dalvík og fyrrverandi þingmaður Samfylkingar, Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Elín R. Líndal, fulltrúi Sambands sveitarfélaga og fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins og Hjörleifur Kvaran, þá forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Með fullri virðingu fyrir þessu fólki þá er það nokkuð langt seilst að tala um það sem vísindamenn.

Þegar störf þessarar verkefnisstjórnar eru skoðuð má finna mörg tilefni til að efast um að þar hafi verið unnið af eintómri fagmennsku.

Þannig raðaði verkefnisstjórnin t.d. virkjanakostum upp eftir verndargildi. Það var gert með þeim hætti að hver stjórnarmaður ritaði númer á blað og var sú kosning leynileg. Það er mjög óeðlilegt í starfi sem þessu á vegum hins opinbera og vísindamenn myndu aldrei starfa með slíkum hætti.

Umboðsmaður Alþingis taldi ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnarinnar ekki hafa staðist stjórnsýslulög, en fulltrúi orkufyrirtækjanna í verkefnisstjórninni kom í veg fyrir að hæfasti einstaklingurinn yrði ráðinn.

Verkefnisstjórnin setti Hveravelli og Eyjadalsárvirkjun í nýtingarflokk. Það reyndust mistök af hennar hálfu því að svæðin féllu utan laga um rammaáætlun. Þetta varð að leiðrétta á síðari stigum.

Tillögur verkefnisstjórnarinnar um gjörnýtingu jarðvarma byggðu á þeirri forsendu að jarðvarmavirkjanir væru umhverfisvænar. Sú skoðun var viðtekin þegar vinna við rammaáætlun hófst fyrir nokkrum árum, en nú vita menn betur og við því hefði þurft að bregðast.

Þá var margt gagnrýnt í starfi svonefndra faghópa sem störfuðu undir verkefnisstjórninni. Þannig gaf faghópur sem fjalla átti um hagræn áhrif virkjana málið í raun frá sér og gafst upp á verkinu. Hörð gagnrýni kom fram um atriði sem ekki voru tekin inn í mat faghópanna, t.d. landslag og samfélagsleg áhrif virkjana. Ekki var tekið tillit til línulagna og þess vegna voru virkjanir á hálendinu metnar án þess að tillit væri tekið til línulagna þvert yfir hálendið. Jarðfræðilega verðmæt svæði fengu lægri einkunn vegna lítillar líffræðilegrar fjölbreytni. Rannsóknir um áhrif virkjana á ferðaþjónustu skorti. Og ekki var tekið tillit til loftmengunar frá jarðhitavirkjunum.

Vinna að rammaáætlun hófst í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og lengst af fór hún fram á forsendum orkuiðnaðarins. Verklag rammaáætlunar, forsendur flokkunar og skipun verkefnisstjórnar byggja því að mestu á pólitískum ákvörðunum en ekki vísindunum einum. Pólitíkin slapp ekki inn í rammaáætlun á lokasprettinum, eins og Illugi orðaði það, hún var hluti af ferlinu allt frá upphafi.